Í lok júní 2008 dvaldist ég um vikutíma við Bjarkarholt við minni Mórudals á Barðaströnd. Var það ákaflega rólegur tími enda ekki mikil bílaumferð eftir Barðastrandarvegi (62). Þann 24 júní vaknaði ég um kl. 6 til að hljóðrita fyrir utan hús. Mikið var um mófugla, vaðfugla og spörfugla. Uppi í klettum fjallanna umhverfis mátti greinilega heyra mikið mávahjal. Má greinilega heyra hvað það eru mikil lífsgæði að hafa ekki bíla í sínu nánasta umhverfi.
Hér er á ferðinni mjög lágstemmd upptaka. Það gæti því þurft að hækka svolítið þegar hlustað er á hana. Þetta er líklega síðasta upptakan sem ég tók upp á Sony TC-D5M kassettutækið áður en ég fór að tileinka mér stafræna upptökutækni. Það má því heyra talsvert grunnsuð en það suð mælist u.þ.b. -60 db í kassettutækjum á meðan það er rúmlega -100 db á stafrænum tækjum. Tekið var upp á That´s MR-X90pro metal kassettu. Hljóðnemar voru Sennheiser ME62 og snúrur 1,5 metra langar CAT6 strengir. Heildarlengd upptökunnar eru 45 mínútur. Nú er hún komin í stafrænt form, 44.1 kHz / 16 bit. Myndin er tekin rétt hjá þeim stað þar sem upptakan fór fram.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 15,5Mb)