
Rétt sunnan við Skeljanes í Skerjafirði er lítil vík. Í upphafi síðari heimsstyrjaldar á síðustu öld kom breski herinn þar fyrir viðlegukanti í tengslum við lagningu flugvallarins í Vatnsmýri. Síðar hafði olíufélagið Shell þar birgðaaðstöðu og olíugeyma sína. Í dag hefur Shell flust út í Örfirisey og því er þarna að finna litið spillta fjöru þar sem mannvirki hafa hægt og sígandi verið að hverfa í tímans rás. Þar sem ein braut flugvallarins nær þarna út að sjó hefur ekki verið lagður bílvegur fyrir enda hennar með fjöruborðinu. Óvenju hljótt er því á þessum stað miðað við ýmsa staði í nágrenni Reykjavíkur. Þó má greina þungan nið bílaumferðarinnar sem hávært grunnsuð. Hávaðinn frá bílaumferð í borginni er reyndar slíkur að hann má greina við Bláfjöll og Hengil. Fáir veita þessum hávaða athygli. Meðvitað og ómeðvitað er þessi hávaði þó ein ástæða þess að marga dreymir um að eiga sumarbústað langt utan borgarmarkanna til þess eins að njóta kyrrðar. Talið er að hávaði sem fylgir bílaumferð sé einn helsti streituvaldur nútímans á Vesturlöndum.
Við upptöku þessarar hljóðritunar var nauðsynlegt að nota lágtíðnisíur til þess að draga niður í lægstu tíðninni frá umferðinni sem fáir heyra en hefur truflandi áhrif á upptökur.
Upptakan fór fram 25. janúar 2009 kl. 22:30. Hljóðnemum var stillt upp í flæðarmálinu og má heyra að hægt og rólega fjarar undan þeim. Tekið var upp í DSD 1 Bit/5,644 MHz, með Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni.
Myndin er tekin í umræddri fjöru. Horft er til suðurs á Kársnes.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 20,8Mb)
Þetta er meiriháttar framtak. Að hlusta á þetta er snilldar bakgrunnur í vinnunni.
Hefurðu hugsað þér að gefa út upptökurnar í fullri lengd?
Þakka.
Jú, ég hef svo sem hugsað mér að gefa ýmislegt út. Væntanlega ekki þessa Skerjafjarðarupptöku því hún er ekki mikið lengri en hún er hér á vefnum.
Reyndar gaf ég út tvo diska fyrir 10-12 árum. Þá má heyra hér og hér . Þú verður að nota Internet Explorer ef þú villt heyra hljóðdæmin (Hljóðdæmin eru ca. 2 mínútu löng og endurtaka sig í sífellu). Þessar upptökur eru hinsvegar nokkuð gamlar. Læt ég mig því dreyma um að endurtaka leikinn í vor og fá mun betri upptökur.
Ég læt vita á vefnum þegar ég er tilbúinn með eitthvað efni fyrir útgáfu.
Mberg
Flottur vefur og fínar upptökur, væri sömuleiðis til í að kaupa disk með íslenskum upptökum af þessu tagi! Upptökurnar sem þú ert með hér ættu svo að mínut alveg erindi inn á hin stórskemmtilega vef http://soundtransit.nl/
Takk fyrir þetta Kalli.
Það er stórfurðulegt að ég hef ekki rekist á vefinn Soundtransit áður. Hef þó talsvert verið að leita. ….og hér er hann. Takk fyrir það.
Já, ég þarf að skoða þetta með útgáfu. Mig skortir helst tíma í slíkt.
Mberg