Efnt var til Þjóðfundar 14. nóvember 2009 í Laugardalshöll. Í heilan dag vann mikill fjöldi fólks að því að reyna að bæta íslenskt samfélag með skapandi hugmyndavinnu. Umfjöllunarefnið var m.a. lýðræði, heiðarleiki, velferð, virðing, ábyrgð, sjálfbærni, kærleikur, frelsi, jöfnuður, fjölskyldan, atvinnulíf, menntamál, umhverfismál, samfélag og stjórnsýsla. Á fundinn kom 1231 þátttakandi, og var fundurinn í alla staði ákaflega vel skipulagður nema að einu leyti. Þegar upptakan fór fram kl 15:00, stóð vinna sem hæst við öll borð, en fyrir utan Höllina voru nokkrir leðurklæddir lögregluþjónar í óðaönn að skrifa sektarmiða á tugi, ef ekki hundruð bíla, sem lagt hafði verið út um allar koppagrundir í Laugardalnum. Þeir sem stóðu að undirbúningi Þjóðfundar, höfðu greinilega ekki tekið með í reikninginn að 1231 íslendingum fylgdu ámóta margir bílar. Almennt sagt, má gera alla hluti betur næst. Það má því senda playstationleik niður á lögreglustöð næst þegar blásið verður til Þjóðfundar. Það lýsir líklega þjóðarsálinni best að aðeins 19 reiðhjól stóðu fyrir utan Höllina meðan á fundinum stóð. Einkennilegt, þar sem úti ríkti einstök veðurblíða, og væntanlega voru flestir þátttakendur af höfuðborgarsvæðinu. Það var því ekki sjálfbær eða vistvænn hópur, sem þarna fundaði. Upptakan fór fram með þeim hætti að genginn var einn hringur um salinn með Rode NT4 hljóðnema. Tekið var upp í 24bit / 192kHz WAV sniði á Korg MR1000.Myndin er tekin á Þjóðfundinum.
Sækja MP3 krá (192kbps / 5,3Mb)
Skildu eftir svar - Enter your comment