Það er því miður fámennur hópur fólks sem gefið hefur sér tíma í hádeginu til að mæta niður á Hverfisgötu framan við greni AGS og mótmælt úreltum hagstjórnargjörningum þeirra. En þótt hópurinn sé fámennur þá er hann býsna hávær. Það er því ólíklegt að útsendarar AGS fái mikinn vinnufrið undir þeim hljóðum sem heyrast í meðfylgjandi hljóðriti en það var tekið upp 14. júlí 2010.
Notast var við Rode NT4 hljóðnema, Sound Device 305 formagnara og Korg MR1000. Tekið var upp í 24bit/96Khz. Myndin er tekin á Nokia N82 síma við þetta tækifæri.
Sækja MP3 skrá. (192kbps/13,3Mb)
Þótt krafan um brottför ags sé alvarleg er hljóðritið þó bráðskemmtilegt og vel heppnað. Hreyfingin í lokin kemur vel fram og hljóðdreifingin miklu betri en ég átti von á samkvæmt lýsingum eiganda hljóðnemans. Ég er þó langhrifnastur af ví hvað lítið suð er á hljóðritinu. Hljóðneminn virðist hreinasta afbragð ekki síður en stjórnandinn sem hefur næmt eyra fyrir því hvernig gera skal hlutina. Þú ert greinilega réttur maður á réttum stað, Magnús. Gaman væri að heyra hljóðsýni með fuglunum á Seltjarnarnesi sem þú hljóðritaðir með þessum hljóðnema.
Takk fyrir þetta Arnþór.
En ég er nú ekki alltaf á réttum stað á réttum tíma. Ef ég hefði mætt daginn fyrir þetta hljóðrit, sem til stóð en ég gerði ekki vegna úrhellis, þá hefði ég líklega átt hljóðmynd þar sem rauðri málningu var gusað yfir andyri AGS.
Lögmál Murphys fylgir mér við hvert fótmál svo hljóðritin taka nokkurt mið af því 🙂
Ég er sammála þér að NT4 kemur bara býsna vel út. Hann kemur reyndar verulega á óvart því ég var svo gott sem búinn að afskrifa hann og telja hann peningasóun. Eini ókosturinn virðist vera það að hann hefur ekki innbyggða hristivörn.
Ég er búinn að hafa hann í Blimp hlífinni bróðurpart af sumrinu og búinn að prófa hann við ýmsar hljóðritanir, þar á meðal fugla úti á nesi. Mun ég setja eitt hljóðrit fljótlega á vefinn.
Í sjálfu sér er NT4 ekki suðminni en t.d. ME64 samkvæmt upplýsingum framleiðenda (16dB A-w). Það getur verið erfitt að prófa þá hlið við hlið því ME64 er Hi-output (31mV) á móti 12mV í NT4. Hljóðið virðist fyrst og fremst þéttara í NT4 sem hugsanleg stafar af því að membrunar eru 90° á móti en ekki frá hvor annari. Miðjan er því mjög sterk í NT4.