Feeds:
Færslur
Athugasemdir
Vorið 2007 kom öflugasti krani Íslands til landsins. Er hann af gerðinni Gottwald HMK6407 og gegnir nafninu Jötunn. Vegur hann 420 tonn með lyftigetu 110 tonn á 22 radius-metrum og 40 tonn á 51 metrum. Sjálfur skagar hann u.þ.b. upp í 80 metra hæð með fullreista bómu. Hann getur því tekið á sig talsverðan vind þótt hann sé með grindarbómu.
Þá fáu daga sem vindur hreyfist í Reykjavík má heyra mikinn hvin við hafnarkranana. Þann 21. janúar 2010 gerði svolítið rok, en þó ekki meira en svo að hægt var að fara upp í  Jötun án þess að fjúka af 5 metra háum undirvagni hanns. Í turni kranans er nokkuð hár stigagangur sem liggur að stjórnklefanum. Á þennan turn spilar vindurinn oft á tíðum fjölskrúðugt tónverk í bland við mismunandi titring á þennan heljarmikla járnmassa. Upplifunin getur því verið eins og í góðu THX bíói.
Því miður er ekki hægt að skila þessum titringi í gegnum hljóðupptökuna en þegar upptakan fór fram tók turninn oft upp á því að titra á lágri tíðni í hressilegustu hviðunum. Í upptökunni má heyra það helst í bassanum en önnur hljóð koma líklega frá bómu, handriði, vírum og kösturum utandyra.
Þegar vindur er sem minnstur má heyra í loftræstikerfi töfluklefans sem staðsettur er u.þ.b. 15 metrum fyrir neðan upptökustað.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz með MMaudio hljóðnema og tækið látið ganga í klukkutíma.
Veðurhæðin hafði talsvert gengið niður þegar upptakan fór fram. Vindurinn hafði reyndar ekki verið meiri en svo að ekket hafði fokið á Sundahafnarsvæðnu þennan dag. Það verður því gerð önnur tilraun til að taka upp á sama stað í verra veðri.
Myndin er af stigaganginum en upptakan fór fram í eftsu tröppum.
Sækja MP3 skrá.  (192kbps / 24,3Mb)

Read Full Post »

Æðarfugl
Vorið 2009 var fremur kalt með köldum norðanáttum. Fuglalíf var því ekki með neinum ágætum þetta vor. Ugglaust brást varp hjá mörgum fuglum, þó að ekki bæri mikið á því á Seltjarnarnesi. Milli kl. 5 og 6 hinn 12. júní, fór ég út á Nes og hljóðritaði hljóð æðarfugls í fjöruborðinu. Allhvöss norðanátt var á Nesinu, svo að í upphafi gekk erfiðlega að finna hljóðnemunum stað, til að vindurinn heyrðist ekki á upptökunum. Besti staðurinn reyndist vera suðurströndin í skjóli við grjótgarð og melgresi. Í flæðarmálinu voru kollur með nokkra unga og blikar, sem voru að atast sín á milli og í kollunum. Það kom mér á óvart, hversu nálægt ég gat komist fuglunum án þess að það hefði truflandi áhrif á þá. Upptakan hefst með því, að ég set upp hljóðnemanna þar sem hópur æðarfugla er í fæðuleit með buslugangi. Þegar líður á upptökuna, færðust flestir fuglarnir austar með ströndinni (til vinstri) og skriðu þar á land.  Upptakan verður því hljóðbærari eftir því sem á líður. Notast var við tvo Sennheiser ME66 hljóðnema, sem klæddir voru Rycote Softy vindhlífum og stillt upp í ca. 100°. Tekið var upp í 24 bit / 192kHz á Korg MR1000. Upptakan, sem hér heyrist, er líklega besti samfelldi kafli allrar upptökunnar þar eð vindur hafði ekki truflandi áhrif. Þegar líður á upptökuna fjarar undan hljóðnemunum. Myndin er tekin á upptökustað.
Sækja MP3 skrá (192kbps /31Mb)

Read Full Post »