Hljóðritun á hljóðvist Vatnajökulsþjóðgarðs 2014-2015.
Næstu mánuði mun ég hljóðrita hljóðvist Vatnajökulsþjóðgarðs. Fékk ég til þess styrk hjá Vinum Vatnajökuls sem ég mun nýta til að fara um svæðið. Ráðgert er að byrja á suðursvæðinu umhverfis Skaftafell og vestursvæðinu við Lakagíga.
Upp úr annarri viku maí má gera ráð fyrir að allir farfuglar verði komnir og upptökur hefjist þá líka.
Náttúruleg hljóðvist er mjög “þögul” á íslandi. Hljóðupptökur eru því mjög háðar réttum veðurskilyrðum. Því þarf talsverða útsjónasemi, mikla þolinmæði og heppni til að vera á réttum stað og tíma. Þessu fylgir mikil útivist og svefnstaðir oft á tíðum úti undir berum himni, í tjaldi eða inni í bíl við eða nærri tökustað. Farið verður á ýmsa staði þar sem búast má við litlum eða engum mannaferðum. Ef veðurfar verður óhagstætt sunnan jökuls getur þurft að fara norður fyrir jökul.
Sjá kort/loftmynd af svæðnu.
Nánari upplýsingar í síma 6162904,
eða fieldrecording.net@gmail.com
Skype: magnus3261
Magnús Bergsson
__________________________________________________________________
Nánari upplýsingar um verkefnið
Víða um heim hafa menn áttað sig á því að með ágangi manna og með loftslagsbreytingum hefur lífríki og hljóðvist ýmissa svæða breyst mjög hratt. Það er hinsvegar ekki fyrr en nú á allra síðustu árum sem menn hafa áttað sig á mikilvægi þess að varðveita og vinna úr þeim upplýsingum og skilaboðum sem hin ýmsu hljóð í náttúrunni gefa. Ástæðan fyrir því að athyglin hefur aukist á hljóðvist er eflaust margvísleg en á allra síðustu árum hefur tækni til hljóðritunar tekið ótrúlegum framförum.
Ég tel mig hafa náð góðum árangri síðustu ár við að hljóðrita náttúru við ýmis skilyrði. Við það nota ég bestu tækni sem völ er á auk þess að hafa þróað mínar eigin aðferðir við að hljóðrita við “íslenskar aðstæður”.
Markmið verkefnisins
Safna eins mörgum hljóðum og mögulegt er úr náttúru þjóðgarðsins og nágrenni hans. Bæði kerfislægt og handahófskennt.
Fáir eru meðvitaðir um mikilvægi hljóðvistar í heildarsamhengi upplifunar á náttúrunni.
En sjónræn upplifun er ansi rýr ef hljóðið vantar. Skiptir engu hvort það er á mörkum þess heyranlega, af þögn eða greinilegum hljóðum. Skilningur á heildarsamhengi náttúrunnar eykst ef miðlun efnis sem henni tengist er bæði sjónrænn og hljóðrænn. Allstaðar má finna hljóð, líka í “þögninni”. Hljóð er að finna ofan jarðar og neðan, í lífríki, jöklinum, jarðskorpunni, vötnum, lækjum og ám. Þá, eins og gefur að skilja, sveiflast hljóðvistin eftir árstíðunum.
Hljóðritin geta nýst í allskyns margmiðlunarefni. Því er heldur ekki að leyna að vistfræði þjóðgarðsins mun taka mjög miklum breytingum á komandi árum og áratugum. Hljóðritin munu því hafa mjög mikið varðveislugildi.
Hægt að gefa út hljóðdiska og annað margmiðlunarefni sem selt verður á ferðamannastöðum eða á netinu. Upptökurnar nýtast líka með hljóðsetningu kvikmynda, í sýningum og á söfnum. Því lengur sem reglubundin hljóðritun á sér stað því betur nýtist það til rannsókna á ýmsum sviðum.
Þar sem stjórn þjóðgarðsins hefur fullan aðgang að uppteknu efni er það stjórninni í sjálfsvald sett hvernig það vill koma efninu á framfæri.
Ef hljóðritun er kerfislægt tengd öðrum rannsóknum á svæðinu er líklegt að þær geti nýst á ýmsan hátt. Má þar nefna t.d. rannsóknir á loftslags- og gróðurfarsbreytingum sem sjálfkrafa breytir lífríkinu og þar með hljóðvistinni. Það veltur hinsvegar allt á því hversu mikinn áhuga stjórn þjóðgarðsins og/eða “vísindamenn” á tilteknum sviðum vilja tengja hljóðvist við sína vinnu. Ég er mjög opinn fyrir því að tengja hljóðvist og upptökurnar við sem flest sem tengist náttúru svæðisins.
Á hvaða formi verða niðurstöður verkefnisins?
Allt efni er tekið upp í WAV formi 24 bitum og 48khz. Ef nauðsyn krefur er hægt að taka upp í 24bit/192khz sem spannar tíðnisviðið allt upp í 80khz. Allt efni er hægt að færa í aðgengilegt snið, í hvaða formi sem er til frekari notkunar. Það er því algerlega í höndum stjórnar þjóðgarðsins að nýta þetta efni á hvaða hátt sem er. Ég er alveg tilbúinn til að vinna áfram með allt efni svo langt sem þekking og aðstæður leyfa.
Allt upptekið efni sem tekið er upp innan þjóðgarðsins fær stjórn þjóðgarðsins til afnota endurgjaldslaust. Afrit af sama efni verður í minni eigu og má ég nýta mér það eins og mér sýnist.
Birting á framlagðri vinnu er háð samkomulagi. Getur það verið í upptalningu á uppteknu efni eða öðru sem þykir heppilegast.
Allar upptökur eru skráðar sjálfvirkt með dagsetningu og tíma. Staðsetning og veðurfar er svo skráð undantekningalaust með myndum. Vel má ræða um frekari skráningu ef þurfa þykir.
Ekki er haft samráð við aðra um verkefnið. En ég er opinn fyrir öllu samráði eða samvinnu í hvaða formi sem er.
Fyrri reynsla
Ég hef ekki menntun sem “hljóðmaður”. Nám hljóðmanns tekur lítið á því viðfangsefni sem hér um ræðir, ef þá nokkuð.
Ég hef stundað hljóðupptökur með hléum meira og minna s.l. 35 ár.
Brot af þeim upptökum sem ég hef fangað á síðustu misserum má finna hér á þessum vef.
Um og fyrir síðustu aldamót fór ég í 15-20 ár um allt land og þá sérstaklega um hálendið allra minna ferða á reiðhjóli, mikið til einn. Sú djúpstæða upplifun sem tiltölulega erfið ferðalög og einveran á hálendinu gaf mér, hefur haft mikil áhrif á mig. Voru það ekki síst öll þau blæbrigði þagnarinnar sem eru mér eftirminnilegust. Það eru ekki síst þessar “þagnir” sem mig langar að fanga með öllum tiltækum ráðum enda finnst mér það einkenna mörg svæði þjóðgarðsins.
Þó mér finnist þróun íslenskra “óbyggða” ekkert annað en vonbrigði vegna sífellt meiri ágangs vélvæddra manna, þá hef ég enn trú á því að íslenskar óbyggðir hafi að geyma ýmis hljóð sem fáir hafa heyrt eða hafa vitneskju um. Það má ekki gleyma því að Ísland hefur t.d. hvorki engisprettur eða froskdýr sem víða framleiða tilbreytingalausan klið á við umferðanið. Íslenska “þögnin” með sínu fábrotna fugla- og skordýralífi er því mjög áhugaverð.
Hvað stendur til að hljóðrita
Mörg hljóð krefjast þolinmæði ef fanga á rétta augnablikið. Þá og þegar veðurskilyrði eru fyrir hendi verður reynt að ná löngum “hljóðvistarsenum” á völdum stöðum. Er þá helst verið að fanga fuglalífið. Reynslan hefur þó sýnt að slíkar senur verða yfirleitt ekki lengri en 12 tímar því bæði veður og sólarstaða hefur mikil áhrif á hljóðvist og hljóðdreifingu. Í sumar verður reynt að ná löngum hljóðsenum á stöðum eins og á Skatafellsheiði, Morsárdal, Kálfafellsdal, úti á Skeiðarársandi, bæði á berum sandinum og á gróðurvinjum. Fuglalíf verður líka fangað í völdum björgum þar með talið úti á Ingólfshöfða.
Reynt verður að ná skýrum upptökum af einstaka fuglategundum með Parabólu. Er þá helst verið að hugsa um sjaldséðar tegundir þó aðrir algengir fuglar fái einnig að fljóta með.
Þá verður reynt að taka upp hljóð frá skepnum eins og hagamúsum, minkum og hreindýrum
En það sem vekur helst áhuga almennings eru hljóð í náttúrunni sem fáir vita um eða hafa heyrt.
Má þar nefna drunur og hvelli frá skriðjökli eða innan úr skriðjökli þegar hann skríður fram. Slíkar upptökur nást með löngum upptökusenum á eða við Jökul. Þá verður reynt að bora í Jökulinn göt fyrir “Hydrofóna” til að hljóðrita innan úr jöklinum.
Undir yfirborði Jökullóna er að finna áhugaverð hljóð. Fáir hafa heyrt skarkalann undir yfirborði lónsins þegar ísjakar brotna frá jökulsporðinum, velta sér eða rekast á hvora aðra í því djúpa gímaldi sem t.d. Jökulsárlónið er. Ætli það heyrist hversu stórt þetta gímald er með bergmálinu undir yfirborðinu? Það er allavega hægt að skynja stærð rýmisins í Sundahöfn í Reykjavík þegar regndroparnir falla í höfnina á kyrrum skipalausum dögum. Það er eins og að vera staddur í stórri skemmu. Vegna lögunar botnsins í Jökulsárlóni má gera ráð fyrir að þar endurkastist hljóð með mjög skýrum hætti. Því tel ég að þar megi finna einstaklega spennandi upptökustaði. En slíkar upptökur verða aðeins gerðar á bát úti á miðju lóni, eða nærri jökulsporðinum yfir nótt á meðan engir aðrir bátar eru á ferð.
Aðrir vefir, svipuð verkefni.
Nokkrir aðilar gera út á að hljóðrita náttúruhljóð og selja. Einna þekktust eru hjónin Andrew og Sarah Koschak sem hljóðrita út um allan heim og eru með síðuna http://www.listeningearth.com
Þá má nefna Mark Brennan með síðuna http://wildearthvoices.bandcamp.com/
og Marc Anderson með síðuna http://wildambience.com/
Einnig bendi ég á tiltölulega nýútkomna bók, The Great Animal Orchestra eftir Bernie Krause, sem fjallar um þann hljóðheim sem er allt í kring um okkur, en fáir veita athygli, og um þau áhrif sem maðurinn hefur á hljóðheim náttúrunnar, fugla og dýra, þar á meðal í þjóðgörðum. Einnig má nálgast fyrirlestra Bernie Krause á netinu þar sem hann fjallar um efni bókarinnar.
Magnús Bergsson
fieldrecording.net@gmail.com
Tel: +354 6162904
Skype: magnus2361
Skildu eftir svar - Enter your comment