Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for febrúar, 2010

Á fimmtudögum mætir fólk með hljóðfæri á veitingahúsið Highlander að Lækjargötu 10 til að spilað af hjartans list, þá helst keltneska tónlist. Þangað mætir alltaf viss kjarni góðra spilara. Þá sýna sig líka byrjendur og þaulvanir snillingar. Það var fremur kalt úti þann 18. febrúar 2010 þegar ég mætti með upptökutæki.  Voru þar mættir fimm hljóðfæraleikarar. Var því fremur fámennt en góðmennt fyrst í stað. Síðar um kvöldið bættist annar við í hópinn sem bæði syngur og flautar lystavel. Verður það efni síðar sett á vefinn. Tekið var upp á Olympus LS10 í 48Khz/24bit. á MMaudio Binaural hljóðnema. Finna má fleiri upptökur frá veitingastaðnum Highlander á þessum vef.  Hljóðmyndin tekur 32 mínútur í spilun.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 45mb)

Read Full Post »

Á Seltjarnarnesi er að finna kríuvarp sem laðar að sér ýmsa fugla s.s. grágæsir, spóa, hrossagauka og golfara. Er þetta nes eitt af náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins, ekki síst vegna fjölskrúðugs fuglalífs. Það er líklegt að þessi náttúruperla væri ekki til ef á nesinu væri ekki víðáttumikill golfvöllur. Ólíkt golfvöllum sunnar á jörðinni, þá geta íslenskir golfvellir beinlínis bætt aðbúnað manna og dýra í sátt við náttúruna. Ekki þarf að sólunda dýrmætu vatni til að vökva íslenska golfvelli og á meðan golf er talin sem góð og gild snobbíþrótt verður ekki byggt og malbikað á slíkum stöðum. Dýra- og fuglalíf verður því nokkuð fjölskrúðugt þó innan borgarmarka sé.
Upptakan sem hér má heyra var tekin upp undir miðju skýlinu sem sjá má á myndinni, milli kl 9:00 og 10:00, 17. júní 2009. Tekið var upp í 192Khz /24bit á Korg MR1000 með ME62 hljóðnema sem vísuðu 90° hvor frá öðrum út á völlinn.
Vara skal við þeim hvellum sem heyrast í upptökunni. Þeir geta sprengt hátalara. Ekki er vitað hverjir þeir menn eru sem tala í upptökunni og líklegt að þeir hafi aldrei vitað að upptaka hafi farið fram. Hér er tilvalin upptaka fyrir gólfara sem bíða spenntir eftir sumrinu.
Sækja mp3 skrá (192kbps / 30,3Mb)

Read Full Post »

Snorri Sigfús Birgisson (f. 1945) stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. Þá tók við framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum og tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen og hjá Ton de Leeuw í Amsterdam. Veturinn 1978-79 bjó hann í París og árið eftir í London þar sem hann kenndi á píanó. Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan 1980. Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Hymni fyrir strengjasveit var saminn árið 1982 fyrir Nýju strengjasveitina og frumflutt undir stjórn höfundar á tónleikum í Bústaðakirkju. Verkið samanstendur af 11 köflum sem allir eru í mixólýdískri tóntegund, mjög stuttir og hægir. Flutningur verksins er hér tileinkaður minningu Önnu Snorradóttur, móður tónskáldsins.
Upptakan sem hér má heyra með leyfi höfundar, er flutt af Sinfóníuhljómsveit áhugamanna 7. febrúar 2010 í Seltjarnarneskirkju. Var hún tekin upp í DSD 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 og Sound device 305 formagnara. Tveimur SE4400 hljóðnemum (sterio) og einum SE4 (miðju), sem allir voru staðsettir á einni 2,5 metra hárri súlu framan við stjórnandann Oliver Kentish.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 22.9mb)

Read Full Post »

Vorið 2007 kom öflugasti krani Íslands til landsins. Er hann af gerðinni Gottwald HMK6407 og gegnir nafninu Jötunn. Vegur hann 420 tonn með lyftigetu 110 tonn á 22 radius-metrum og 40 tonn á 51 metrum. Sjálfur skagar hann u.þ.b. upp í 80 metra hæð með fullreista bómu. Hann getur því tekið á sig talsverðan vind þótt hann sé með grindarbómu.
Þá fáu daga sem vindur hreyfist í Reykjavík má heyra mikinn hvin við hafnarkranana. Þann 21. janúar 2010 gerði svolítið rok, en þó ekki meira en svo að hægt var að fara upp í  Jötun án þess að fjúka af 5 metra háum undirvagni hanns. Í turni kranans er nokkuð hár stigagangur sem liggur að stjórnklefanum. Á þennan turn spilar vindurinn oft á tíðum fjölskrúðugt tónverk í bland við mismunandi titring á þennan heljarmikla járnmassa. Upplifunin getur því verið eins og í góðu THX bíói.
Því miður er ekki hægt að skila þessum titringi í gegnum hljóðupptökuna en þegar upptakan fór fram tók turninn oft upp á því að titra á lágri tíðni í hressilegustu hviðunum. Í upptökunni má heyra það helst í bassanum en önnur hljóð koma líklega frá bómu, handriði, vírum og kösturum utandyra.
Þegar vindur er sem minnstur má heyra í loftræstikerfi töfluklefans sem staðsettur er u.þ.b. 15 metrum fyrir neðan upptökustað.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz með MMaudio hljóðnema og tækið látið ganga í klukkutíma.
Veðurhæðin hafði talsvert gengið niður þegar upptakan fór fram. Vindurinn hafði reyndar ekki verið meiri en svo að ekket hafði fokið á Sundahafnarsvæðnu þennan dag. Það verður því gerð önnur tilraun til að taka upp á sama stað í verra veðri.
Myndin er af stigaganginum en upptakan fór fram í eftsu tröppum.
Sækja MP3 skrá.  (192kbps / 24,3Mb)

Read Full Post »