Á Seltjarnarnesi er að finna kríuvarp sem laðar að sér ýmsa fugla s.s. grágæsir, spóa, hrossagauka og golfara. Er þetta nes eitt af náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins, ekki síst vegna fjölskrúðugs fuglalífs. Það er líklegt að þessi náttúruperla væri ekki til ef á nesinu væri ekki víðáttumikill golfvöllur. Ólíkt golfvöllum sunnar á jörðinni, þá geta íslenskir golfvellir beinlínis bætt aðbúnað manna og dýra í sátt við náttúruna. Ekki þarf að sólunda dýrmætu vatni til að vökva íslenska golfvelli og á meðan golf er talin sem góð og gild snobbíþrótt verður ekki byggt og malbikað á slíkum stöðum. Dýra- og fuglalíf verður því nokkuð fjölskrúðugt þó innan borgarmarka sé.
Upptakan sem hér má heyra var tekin upp undir miðju skýlinu sem sjá má á myndinni, milli kl 9:00 og 10:00, 17. júní 2009. Tekið var upp í 192Khz /24bit á Korg MR1000 með ME62 hljóðnema sem vísuðu 90° hvor frá öðrum út á völlinn.
Vara skal við þeim hvellum sem heyrast í upptökunni. Þeir geta sprengt hátalara. Ekki er vitað hverjir þeir menn eru sem tala í upptökunni og líklegt að þeir hafi aldrei vitað að upptaka hafi farið fram. Hér er tilvalin upptaka fyrir gólfara sem bíða spenntir eftir sumrinu.
Sækja mp3 skrá (192kbps / 30,3Mb)
Svona á hljóðmynd að vera. Hvað höfðust þeir að sem ollu smellunum? Kosturinn við að vísa hljóðnemunum svona út á við er einmitt sá að mun víðari mynd fæst og maður heyrir betur hvernig hljóðin nálgast. Þetta verður eins konar þrívídd. Enn o aftur til hamingju.
Takk Arnþór. Já, sterio-myndin er bara ágæt. Ef ekki hefði verið þak yfir og veggur fyrir aftan mig þá hefðu flugvélarnar liklega flogið aftur fyrir mann á upptökunni
Á golfvellinum úti á Nesi er skýli, einskonar risavaxið strætóskýli fyrir golfara til að stunda skotæfingar. Þeir standa þá undir þessu skyggni í röðum á gervigrasmottum og skjóta viðstöðulaust gólfkúlum út á völlinn.
Ég hef nú ekki mikið vit á golfi en mig grunar að þetta þyki sniðugt svo menn blotni ekki í rigningu.
Þessir hvellir koma þegar kúlunum er slegið út á völlinn.
Þá má lika heyra þegar menn draga gólfvagna í skýlinu og þegar menn sturta golfkúlum úr körfum sem þeir fá í afgreiðsluni.