Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for desember, 2009

Það var líklega um hvítasunnu 1985 sem við fórum nokkur saman í tjaldútilegu að Laugarvatni. Að sjálfsögðu hafði ég með mér Sony TC-D5 upptökutæki og ME20 hljóðnema. Þegar klukkan var farin að nálgast 4 að morgni rölti ég til suðurs frá tjaldsvæðinu austur af Laugarvatni og hóf upptöku líklega um 500 metra frá veginum. Á meðan á því stóð steinsofnaði ég á milli þúfna.
Hér er á ferðinni mjög lágstemmd upptaka sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir mér sem borgarbúa, er þessi samsetning fuglasöngs ein sú besta sem völ er á.  Mér hefur oft gengið illa síðustu ár að ná hljóðum í spóa án þess að hann hafi gefið frá sér viðvörunarhljóð. Sama gildir um vængjaþytinn í hrossagauk. Hann er ekki að finna hvar sem er.  Hér eru bæði spóar og hrossagaukar í sínu besta skapi en á móti virðist sem ég hafi verið mjög nærri hreiðri músarindils. Hvell viðvörunartíst frá honum skera svolítið í eyrun. Ekki síst þar sem upptökutæki þessa tíma ráða ekki vel við þessa háu tíðni. Músarindillinn skoppar hér á milli greina í lágu kjarri sem þá mátti finna á einstaka stað á þessu svæði. Heyra má í öðrum fuglum eins og þröstum og hröfnum. Tekið var upp á TDK MA90 kassettu. Er það líklega henni að þakka að upptakan hefur geymst svona vel í öll þessi ár. Öll upptakan er nú yfirfærð í 24bita og 48Khz.
Myndin er frá Laugarvatni og frá svipuðum tíma og þegar upptakan fór fram. Upptökustaðurinn var nærri kjarrinu sem sjá má lengst til hægri á myndinni. Á myndinni má líka sjá gamla gufubaðið á Laugarvatni, sem var alveg einstakt á heimsvísu, en sauðheimskum kapitalistum tókst að rífa það rétt fyrir hrun. Þeir höfðu hugmyndir um að reysa þar andstyggilegt nútímabaðhús svo hægt væri að féfletta almenning með einhverjum “2007 glæsileika”. Vonandi hafa heimamenn rænu á því að endurreisa gömlu gufuna svo hún verði aftur aðgengileg almenningi.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 23Mb)

Read Full Post »

Fátt er skemmtilegra en að liggja einn í fjallaskála, finna vindinn skekja skálann og rigninguna berja rúðurnar. Það gefur manni sterka tilfinningu fyrir náttúrunni, ekki síst eftir langt og erfitt ferðalag þar sem maður hefur ekki verið truflaður af vélum eða stórkallalegum mannvirkjum.
Það er sjaldgæft að veður séu slæm á höfuðborgarsvæðinu, en slikar stundir eru til og þá fer maður sjaldnast út að tilefnislausu. Tilfinningin er heldur aldrei sú sama og á fjöllum. En þó, það er eitthvað rólegt við það að hlusta á rok og  rigningu berja rúðurnar.
Þann 11. desember 2009 var leiðinda veður í höfuðborginni. Það gaf tilefni til hljóðritunar þó það væri ekkert aftakaveður.
Stillti ég upp tveimur ME64 hljóðnemum í  svefnherberginu og tók upp í 16Bit / 44.1Khz. Veðrið var að mestu gengið niður þegar upptakan fór fram um kl 14:30. Heyra má í upptökuni háværan grunnsón. Er hann að mestu tilkominn frá bílaumferð en bæði Miklabraut og Reykjanesbraut eru í  u.þ.b. kílómeters fjarlægð. Rokið í trjánum á þó eitthvað í þessum hávaða líka. Þar sem hljóðnemarnir voru nálægt rúðum þá má greinilega heyra hávaðan að utan “sóna” með holum hljómi á milli tvöföldu rúðunnar. Þá má líka heyra í vekjaraklukkuni sem var á náttborðinu þar nærri. Myndin er tekin út um gluggann á meðan á upptöku stóð.
Sækja Mp3 skrá.  (192kbps / 8,8Mb)

Read Full Post »

Þegar ég var á barnsaldri var sjónvarp vart til á heimilum fólks. Tölvur voru svo í besta falli skilgreindar í mjög furðulegum vísindaskáldsögum.
Fyrir utan boltaleiki, sleðaskak, hornsílaveiði og dúfnarækt voru leikir því oft á tíðum “raunveruleika-leikir”. Lítið samfélag þar sem  finna mátti kaupmann, lækni, bónda, bílstjóra, gröfustjóra og heimavinnandi húsmóður. Þegar Víetnamstríðið komst svo í algleyming urðu stríðsleikir enn algengari þar sem barist var með heimasmíðuðum trébyssum.
Leikir voru í flestum tilfellum utandyra þar sem bílar ógnuðu ekki tilvist barna með sama hætti og í dag. Börn gátu því fengið nauðsynlega útrás með mikilli hreyfingu.
Í dag er börnum helst ekki hleypt út nema af “óábyrgum” foreldrum. Foreldrar kjósa helst að kyrrsetja börnin fyrir framan sjónvarp eða tölvur. Fylgikvillum hreyfingarleysis er svo oft á tíðum eytt með lyfjagjöfum.
Greinilega má heyra í leikjum barna að heimur þeirra er mótaður af kvikmyndum, tölvuleikjum og ýmsum vel markaðssettum plastleikföngum.
Hljóðdæmið sem hér má heyra er af syni mínum og tveimur frændum hans að leika sér með Bionicle stríðskörlum. Upptakan fór fram án þeirrar vitundar.
Tekið var upp á Olympus LS10 og á innbyggðu hljóðnemana í 16bit / 44,1Khz
Myndin er tekin af Bionicle leikföngum í skammarlega plastvæddu herbergi sonar míns.
Sækja Mp3 skrá.  (192kbps / 8,4Mb)

Read Full Post »