
Hér er á ferðinni mjög lágstemmd upptaka sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir mér sem borgarbúa, er þessi samsetning fuglasöngs ein sú besta sem völ er á. Mér hefur oft gengið illa síðustu ár að ná hljóðum í spóa án þess að hann hafi gefið frá sér viðvörunarhljóð. Sama gildir um vængjaþytinn í hrossagauk. Hann er ekki að finna hvar sem er. Hér eru bæði spóar og hrossagaukar í sínu besta skapi en á móti virðist sem ég hafi verið mjög nærri hreiðri músarindils. Hvell viðvörunartíst frá honum skera svolítið í eyrun. Ekki síst þar sem upptökutæki þessa tíma ráða ekki vel við þessa háu tíðni. Músarindillinn skoppar hér á milli greina í lágu kjarri sem þá mátti finna á einstaka stað á þessu svæði. Heyra má í öðrum fuglum eins og þröstum og hröfnum. Tekið var upp á TDK MA90 kassettu. Er það líklega henni að þakka að upptakan hefur geymst svona vel í öll þessi ár. Öll upptakan er nú yfirfærð í 24bita og 48Khz.
Myndin er frá Laugarvatni og frá svipuðum tíma og þegar upptakan fór fram. Upptökustaðurinn var nærri kjarrinu sem sjá má lengst til hægri á myndinni. Á myndinni má líka sjá gamla gufubaðið á Laugarvatni, sem var alveg einstakt á heimsvísu, en sauðheimskum kapitalistum tókst að rífa það rétt fyrir hrun. Þeir höfðu hugmyndir um að reysa þar andstyggilegt nútímabaðhús svo hægt væri að féfletta almenning með einhverjum “2007 glæsileika”. Vonandi hafa heimamenn rænu á því að endurreisa gömlu gufuna svo hún verði aftur aðgengileg almenningi.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 23Mb)
Gleðilegt ár Magnús!
Þessar upptökur þínar eru aldeilis prýðilegar. Þó finnst mér sérstaklega lofsvert þetta framtak þitt að draga fram hljóðnemann: EYRAÐ… og þessa fjölbreyttu vídd umhverfisins. – Reikna með að flestir geti tekið undir að hæfileiki okkar til að hlusta sé vannýttur, ekki síst til að nema það lágstemmda.
Góð líka ábending þín í tengslum við þjóðfundinn sem vissulega var gott framtak og sýndi góðan vilja… en sýnir líka hvað við eigum mikið ólært. – Ég hlakka til að sjá og HEYRA og læra af mörgu því góða sem þú ert að sýsla.
mbk
jojo
ps: „Deep listening“ (Warren Ziegler) er e.t.v. eitthvað sem hefði mátt taka mið af á þjóðfundinum og víðar. 😉
Gleðilegt ár Jón og takk fyrir að hlusta. Ég tel að umhverfishljóð hafi yfirleitt meiri áhrif á geðlag fólks en almennt er talið. Því finnst mér ekki síður mikilvægt að deila þeim hljóðum eins og aðrir deila myndum. Ég lofa að setja fleiri hljóð á vefinn innan tíðar. Verst að hafa þetta ekki að atvinnu því þá gæti maður oftar verið á réttum stað og tíma. Hér verður nefnilega ekkert „Photoshopað“ 🙂