Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for október, 2009

Barðaströnd sumarið 2008

Í lok júní 2008 dvaldist ég um vikutíma við Bjarkarholt við minni Mórudals á Barðaströnd. Var það ákaflega rólegur tími enda ekki mikil bílaumferð eftir Barðastrandarvegi (62). Þann 24 júní vaknaði ég um kl. 6 til að hljóðrita fyrir utan hús. Mikið var um mófugla, vaðfugla og spörfugla. Uppi í klettum fjallanna umhverfis mátti greinilega heyra mikið mávahjal. Má greinilega heyra hvað það eru mikil lífsgæði að hafa ekki bíla í sínu nánasta umhverfi.
Hér er á ferðinni mjög lágstemmd upptaka. Það gæti því þurft að hækka svolítið þegar hlustað er á hana. Þetta er líklega síðasta upptakan sem ég tók upp á Sony TC-D5M kassettutækið áður en ég fór að tileinka mér stafræna upptökutækni. Það má því heyra talsvert grunnsuð en það suð mælist u.þ.b. -60 db í kassettutækjum á meðan það er rúmlega -100 db á stafrænum tækjum. Tekið var upp á That´s MR-X90pro metal kassettu. Hljóðnemar voru Sennheiser ME62 og snúrur 1,5 metra langar CAT6 strengir. Heildarlengd upptökunnar eru 45 mínútur. Nú er hún komin í stafrænt form, 44.1 kHz / 16 bit. Myndin er tekin rétt hjá þeim stað þar sem upptakan fór fram.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 15,5Mb)

Read Full Post »

ovedur

Þann 11.desember 2008 gerði suðaustan hvell. Fylgdi þessu mikil rigning með mjög snörpum vindhviðum. Hófst veðrið um kl 18 og var því lokið um miðnætti. Milli kl 21:30 og 22 fór ég út á Sundahafnarsvæðið á verkstæðisbílnum og hljóðritaði ósköpin inni í bílnum.  Gámastæður höfðu fokið eins og pappakassar með tilheyrandi tjóni, þakklæðing á Vöruhóteli Eimskips hafði einnig skemmst. Þá var gámasvæðið allt meira og minna á floti þar sem niðurföllin höfðu ekki undan að svelgja regnvatnið. Það var því bæði hættulegt og skuggalegt að fara út í þennan veðurofsa. Upptakan er gerð á Olympus LS10 og á innbyggðu hljóðnemana í 44,1 kHz /16 bit sniði. Myndin er tekin í Sundahöfn við svipaðar veðuraðstæður.

Sækja MP3 skrá (128kbps / 4,6Mb)

Read Full Post »

vesturdalur600

Það var heiðskírt og sólin var að gægjast upp fyrir sjóndeildarhringinn við Jökulsárgljúfur. Klukkan var 4:30 12.júlí 2009. Í Vesturdal liðast lítill, tær lækur í átt að Jökulsá á leið sinni til sjávar. Ofar í dalnum sváfu allir fasta svefni á tjaldsvæðinu. Það ríkti því dásamleg þögn.  Aðeins heyrðist seytlið í læknum og einstaka tíst í fuglum. Tekið var upp á Korg MR1000 í 24 bit/198 kHz. Hljóðnemar voru tveir Sennheiser  ME62 í 80° horni. Snúrur voru CAT6 1,5 metrar. Heildarlengd upptökunnar er 45 mínútur. Myndin er tekin á upptökustað

Sækja MP3 skrá (128kbps / 5mb)

Read Full Post »

21012009766

Þann 24. janúar 2009 fór ég með hljóðnema niður á Austurvöll og tók upp stemninguna. Ræsti ég tækið austur undir Dómkirkjunni og gekk inn í mannþröngina framan við Alþingishúsið. Þar héldu allir á sér hita með taktföstum búsáhaldaslætti og trylltum vígadansi. Mátti þar m. a. sjá verðandi ráðherra í næstu ríkisstjórn. Upptakan stóð yfir í rúma klukkustund en því miður misheppnaðist hún gersamlega. Aðeins tíu fyrstu mínúturnar voru áheyrilegar. Notast var við Korg MR1000 og tvö stykki Sennheiser ME62 á T-spöng með 90° horn. Eftir fikt kvöldið áður gleymdust í hljóðnemunum ónýtar rafhlöður og þótt kveikt væri á Phantom power á upptökutækinu þá varð það ekki til þess að yfirtaka spennuna frá þessum ónýtu rafhlöðum. Hljóðdæmið hér fyrir neðan er því besti hluti þessarar upptöku. Myndin er tekin á Nokia síma, 21. janúar 2009 við Alþingishúsið rétt fyrir kl. 1. Síðar hefur komið í ljós að á þeirri stundu var lögreglan hársbreidd frá því að ganga til bols og höfuðs á mótmælendum. Það hefði endað með subbulegu blóðbaði.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 17,5mb)

Read Full Post »

Skálholt77-78 (28)

Þá er komið að því að setja fyrsta efnið inn á vefinn. Hér er á ferðinni upptaka frá því 1978. Sá sem syngur er Þorleifur Magnús Magnússon (Brói), sonur Laufeyjar Jakobsdóttur, “Ömmu” í Grjótaþorpi, sem bjargaði mörgum ofurölvi unglingnum á þessum árum.  Upptakan er líklega frá því í febrúar 1978 og tekin upp í Skálholtsskóla þar sem við báðir, Brói og ég, stunduðum nám veturinn 1977-1978. Tekið var upp á Kenwood KX520 kassettutæki með dynamískum Kenwood MC501 hljóðnemum. Á þessum árum voru kassettur mjög dýrar. Því var oftast nær tekið upp á mjög lélegar kassettur eins og heyra má á upptökunni.

Sækja MP3 skrá (128kbps / 5mb)

Read Full Post »

Það hefur tekið þó nokkurn tíma að koma þessari síðu af stað. Aðallega er það vegna leti, þó hefur nú blessuð „kreppan“ gefið mér tíma til að sinna áhugamálum fremur en eintómu brauðstriti. Vefsíðan mun útvarpa og birta myndir af því í mannlíf, umhverfi og náttúra hefur upp á að bjóða. Hversdagslegustu hlutir geta oft á tíðum verið afar merkilegir ef við gefum okkur aðeins tíma til að nota skynfærin. Ég vona því að Hljóðmynd muni gefa einhverjum tilefni til að staldra við og njóta.

Read Full Post »