Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Búsáhaldabylting’

IMG_2200

Á örfáum árum hefur ójöfnuður aukist gríðarlega á Íslandi, einkum frá aldamótum, þó upphafið megi rekja lengra aftur í tímann.
Eignir og auðlindir þjóðarinnar hafa sópast til örfárra einstaklinga. Nú er svo komið að aðeins 5% þjóðarinnar á jafn mikið og hin 95%. Ef nánar er farið út í þetta þá eiga 20% landsmanna 90% allra eigna og þar með eiga 80% landsmanna aðeins 10%.
Þessum ójöfnuði hefur verið stjórnað af orfáum ættarklíkum, eins konar Oligarch, sem hafa alla tíð komið sínu fólki til valda á Alþingi í „frjálsum“ kosningum. Það sem verra er, þeir hafa svo í gegnum tíðina komið sínu velvildarfólki í allar mikilvægar stöður í ráðuneytum og stofnunum ríkisins. Þessu fólki er svo ómögulegt að skipta út þó almenningur kjósi annað.
Þessar valdaklíkur eiga líka flesta fjölmilðana sem eru verulega litaðir af áróðri og heilaþvotti oligarkanna.
Eftir bankahrunið í október 2008 hefur spillingin í samfélaginu sífellt orðið augljósari þrátt fyrir að öllum fréttum og upplýsingum um slíkt sé haldið í lágmarki á fréttamiðlum oligarkanna. Fréttamönnum sem fara út í slikt, er sagt upp störfum eða þeir lögsóttir. Vísað er til alls kyns óljósra laga, kerfisvillna, þagnarskyldu eða málum einfaldlega ekki svarað.
En hægt og sígandi hefur spillingin samt sem áður verið dregin fram í dagsljósið. Þökk sé fólki sem hefur þor og þolinmæði til að berjast fyrir réttlæti, og vinnusömum fréttamönnum sem hafa þorað að leita sannleikanns. Samfélagsmiðlar hafa stöðugt minnt á einstök mál sem litlu óháðu fjölmiðlarnir kryfja til mergjar.
Ekki verður farið nánar út í einstök spillingarmál hér, en meðfylgjandi upptaka var tekin upp 4. apríl 2016 á mótmælum á Austurvelli þegar upp komst að þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og spúsa hans, höfðu tengst aflandseyjareikningum. Hann sagði svo af sér daginn eftir þessi mótmæli. Þáverandi fjármálaráðherra Bjarni Benediksson, var lika flæktur í ýmiss konar brask en að vanda slapp með ótrúlegum hætti.
Nú þegar 9 ár eru liðin frá bankahruninu þá eru valdaklíkurnar sem ollu hruninu enn við stjórn á Íslandi. Þjóðin er tvíklofin. Annars vegareru það þeir sem vilja breytingar og bætt samfélag og svo hinir, sem láta stjórnast af áróðri, yfirgangi og græðgi oligarkanna.
Upptakan er góð áminning um að íslenska þjóðin þarf nauðsynlega að takast á við breytingar. Þjóðin verður að fara að tileinka sér jafnrétti, samkennd, jöfnuð og bræðralag.

(mp3 224Kbps / 52,5Mb)

Recorder: Sound devices 744+302
Mics: Sennheiser MKH8020/8040 in parallel ORTF
Pix: Canon EOS-M
Weather: Calm, sunny, 5°C
Location. 64.146982, -21.939978

Read Full Post »

Tvö ár eru liðin frá sýndargóðæri og bankahruni frjálshyggjumanna sem meirihluti þjóðarinnar kaus inn á þing hvað eftir annað. Á þessum tveimur árum sem liðin eru hefur vinstri stjórn átt í fullu fangi með að vinna úr afleiðingum hrunsins. Rúmlega helmingur alþingismanna er ófær um að taka á vandanum. Margir af þeim tóku virkan þátt í að knésetja samfélagið auk þess að vera í bullandi afneitun á því sem gerst hefur. Sama má segja um rúman helming þjóðarinnar.
Afleiðing hrunsins er niðurskurður á öllum sviðum sem fáir hafa skilning á.
Atvinnuleysi er orðið með því mesta sem mælst hefur á Íslandi eða álíka og í dæmigerðu vestrænu samfélagi,
Gríðarlega mikið sparifé hefur tapast, bæði hjá venjulegu fólki og bröskurum. Kaupmáttur hefur minnkað svo fólk verður að láta af fyrri neysluvenjum, sem reyndar fyrir hrun var orðin hjá mörgum hreinasta geggjun. Margir eru því í sárum eftir að hafa komist að því að sýndarheimur fyrri ára stefndi þeim aðeins að feigðarósi.
Skuldir fyrirtækja, heimila og einstaklinga hafa stökkbreyst svo að jafnvel verstu fjármálaafglapar hafa tekið eftir því að eitthvað fór úrskeiðis. Bæði stórir sem smáir skuldarar standa því frammi fyrir því að lenda í ævilöngu skuldafangelsi.
Fólk mætti af misjöfnum hvötum á Austurvöll 4. október 2010 til að mótmæla ástandinu við þingsetningu Alþingis. En segja má að flestir mótmælendur vildu að þingmenn hefðu átt að vera búnir að leysa vanda þjóðarinnar.
Hér er á ferðinni upptaka sem tekin var upp á einum fjölmennustu mótmælum Íslandssögunar, en talið er að u.þ.b. 8 þúsund manns hafi mætt á svæðið.
Upptakan hefst aftan og austan við Skólabrú 1. Gengið er þaðan inn í mannþröngina á Austurvelli til móts við Templarasund og í lok upptökunnar er gengin sama leið til baka. Tekið var upp á Korg MR1000 á 24bit/192khz. Notast er við Sennheiser MKE 2 Gold hljóðnema í Binaural uppsetningu.
Myndir frá þessum atburði voru teknar á Olympus Z4040 og Nokia N82
Fréttir frá atburðinum má sjá hér og hér og hér og hér.

Sækja mp3 skrá.  (192kpbs / 34Mb)

Read Full Post »

Það er því miður fámennur hópur fólks sem gefið hefur sér tíma í hádeginu til að mæta niður á Hverfisgötu framan við greni AGS og mótmælt úreltum hagstjórnargjörningum þeirra. En þótt hópurinn sé fámennur þá er hann býsna hávær. Það er því ólíklegt að útsendarar AGS fái mikinn vinnufrið undir þeim hljóðum sem heyrast í meðfylgjandi hljóðriti en það var tekið upp 14. júlí 2010.
Notast var við Rode NT4 hljóðnema, Sound Device 305 formagnara og Korg MR1000. Tekið var upp í 24bit/96Khz. Myndin er tekin á Nokia N82 síma við þetta tækifæri.

Sækja MP3 skrá.  (192kbps/13,3Mb)

Read Full Post »

Nú er vika liðin frá útgáfu Hrunaskýrslunar. Tók nokkurn veginn sex sólarhringa að lesa hana. Lýsir hún ótrúlega vel afglöpum, fávitaskap og stjórnleysi sem og græðgi íslenskra broddborgara. Voru það leikarar í Borgarleikhúsinu sem tóku að sér þennan lestur. Þó mikið af þessum lestri teljist leiðindamas þá má líka finna mörg gullkorn sem hafa skemmtanagildi. Skýrslan birti ekki bara þurrar hagtölur, heldur var orðalag ýmissa hrunameistara úr yfirheyrslum settar beint fram í skýrsluni. Skýrslan er því á köflum eins og skemmtilegur reifari eða farsi.
Ég mætti í Borgarleikhúsið á laugardagskvöldi u.þ.b. 6 klukkustundum áður en lestri lauk. Nokkrir áheyrendur voru á staðnum og má heyra þá flissa á völdum stöðum í lestrinum og vera á rápi. Þá má heyra í bakgrunni tónlist frá yfirstandandi leiksýningu. Sá sem fyrst les í þessari hljóðmynd er Hallur Ingþórsson síðan tekur Jón Páll við. Upplesturinn er fremur gjallandi. Stafar það af því að lesturinn var magnaður fram í hátalara. Hefst hljóðmyndin á því að ég geng utan frá andyri leikhússins inn í herbergið þar sem lesturinn fór framm. Staldra þar við í 24 mínútur og geng þaðan út aftur.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz. Hljóðnemar voru MMaudio binaural.
Myndin er tekin á Nokia N82 síma á upptökustað.
Skja mp3 skrá.  192kbps / 37Mb

Read Full Post »

Einu og hálfu ári frá bankahruninu hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar. Helmingur íslensku þjóðarinnar hefur alla tíð verið í bullandi afneitun og aldrei trúað því sem gerðist í október 2008.  Í stjórnleysinu sem ríkt hefur bæði fyrir og eftir hrun hefur fjöldi fólks stundað rányrkju og annað svínarí í sinni einlægu græðgi.
En mánudaginn 12. apríl 2010 kl. 10:30 var afrakstur Rannsóknarnefndar Alþingis gefinn út í nærri 3000 síðna hrunaskýrslu. Hrunameistarinn og frjálhyggjupostulinn Davíð Oddson var þá flúinn land með öðrum skúrkum sem sumir, dagana áður, hreynsuðu hundruð milljónir króna af reikningum til að koma þeim undan réttvísinni
Hljóðmyndin sem hér heyrist var tekin upp fyrir framan Alþingishúsið síðdegis 22. janúar 2009, daginn eftir þá örlagaríku nótt þar sem minnstu munaði að götur Reykjavíkur hefðu verið þaktar blóði. Er hún ágætis dæmi um búsáhaldabyltinguna þegar hún lét hæst að sér kveða. Ef allt þetta skynsama fólk hefði ekki flykkst út á götur og mótmælt með þessum hætti þá hefðu allir hrunameistar Landráðaflokkana setið áfram við völd eins og ekkert hefði í skorist. Að sama skapi er óvíst hvort hrunaskýrslan hefði nokkurn tíma litið dagsins ljós.
Tekið var upp í DSF sniði 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 með Sennheiser ME62 sem mynduðu 90°horn á T-stöng. Upptakan hefst þar sem komið er frá Dómkirkjuni. Farið er inn í mannþröngina framan við Alþingishúsið, gengnir nokkrir hringir og þaðan frá aftur.
Myndin var tekin sunnudaginn fyrir útgáfu skýrslunnar. Er hún tekin á þeim stað sem upptakan fór fram, framan við Alþingishúsið sem hefur verið vinnustaður mestu og verstu stjórnmálaafglapa Íslandssögunnar. Þá er vert að benda á eldri Hljóðmyndafærslu sem tekin var 24. janúar 2009 sem sýnir að krafan um stjórnarskipti varð sífellt háværari.
Sækja mp3 skrá.  192kbps / 25,6Mb

Read Full Post »

Laugardagur 6. mars 2010 var merkilegur dagur. Þá stóð þjóðin frammi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort breyta ætti lögum um ríkisábyrgð til samræmis við icesave samningana frá því í júní og október 2009. Sama dag stóðu grasrótarhreyfingar fyrir fjöldagöngu frá Hlemmi um Laugaveg að Austurvelli. Mættu þangað um þúsund manns sem stofnuðu Alþingi götunnar.
Hljóðmyndin sem hér má heyra er af stuðningsyfirlýsingum sem borist hafa víða utan úr heimi. Tekið var upp á Olympus LS10 og MMaudio Binaural hljóðnema í 24bit/98Khz.
Umtalsverður vindur var á Austurvelli því þurfti að nota lágtíðnisíu (82Hz). Upptakan er því fremur grunn. Myndin er tekin á NokiaN82 síma frá þeim stað sem upptakan fór fram.
Sækja Mp3 skrá.  (192Kbps / 7,4Mb)

Read Full Post »

21012009766

Þann 24. janúar 2009 fór ég með hljóðnema niður á Austurvöll og tók upp stemninguna. Ræsti ég tækið austur undir Dómkirkjunni og gekk inn í mannþröngina framan við Alþingishúsið. Þar héldu allir á sér hita með taktföstum búsáhaldaslætti og trylltum vígadansi. Mátti þar m. a. sjá verðandi ráðherra í næstu ríkisstjórn. Upptakan stóð yfir í rúma klukkustund en því miður misheppnaðist hún gersamlega. Aðeins tíu fyrstu mínúturnar voru áheyrilegar. Notast var við Korg MR1000 og tvö stykki Sennheiser ME62 á T-spöng með 90° horn. Eftir fikt kvöldið áður gleymdust í hljóðnemunum ónýtar rafhlöður og þótt kveikt væri á Phantom power á upptökutækinu þá varð það ekki til þess að yfirtaka spennuna frá þessum ónýtu rafhlöðum. Hljóðdæmið hér fyrir neðan er því besti hluti þessarar upptöku. Myndin er tekin á Nokia síma, 21. janúar 2009 við Alþingishúsið rétt fyrir kl. 1. Síðar hefur komið í ljós að á þeirri stundu var lögreglan hársbreidd frá því að ganga til bols og höfuðs á mótmælendum. Það hefði endað með subbulegu blóðbaði.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 17,5mb)

Read Full Post »