Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Sennheiser ME62’

Fireworks at Tenerife

Áramótin 2011-2012 voru heldur óvenjuleg þetta skiptið þar sem ég dvaldi með tengdafjölsyldu minni á Tenerife. Eins og á Íslandi þá var skotið upp flugeldum. En á Tenerife er það ekki almennt almenningur sem skítur upp flugeldum heldur sjá hótelin um það, allavega á suðvestur horni eyjarinnar. Á H10 Conquistador hótelinu þar sem ég gisti hafði flugeldum verið skotið upp á Jóladag í tveimur tilkomumiklum sýningum. Hótelið var því ekki með flugeldaskothríð á áramótum. Þess í stað sáu nágrannahótelin um það.
Hljóðnemarnir voru á svölum á 4 hæð og snéru til norðurs. Staðsetningin var því ekki upp á hið besta til að fanga flugeldana sjálfa, en það sem einkennir þessa hljóðritun er skemmtilegt bergmál sprengingana frá eldfjallinu Teide og háum hótelbyggingum. Flugeldasýningin á Las Américas var þægilega hófstillt miðað við íslenska gauraganginn þar sem venja er að upplifunin hverfi í ofboðslegum hávaða og þykkum eitruðum reyk.
Varúð! Þessi upptaka getur skaðað heyrn og hátalara á háum styrk

______________________________________________

New year’s eve at Las Américas, Tenerife
I spent new years eve 2011-2012 at Tenerife. It gave me a nice opportunity to compare the fire works between Tenerife and Iceland. The microphones was based on balcony´s 4th flour at H10 Conquistador hotel, facing to north. It was not the best location to record the fireworks it self, but instead it picked up a nice echo from Mt. Teide and some large buildings in the area (sounds like a thunder).
This session start three minutes before midnight.
Warning! This recording can damage hearing and speakers on high volume.

Short version
Download mp3 file. (192kbps / 1,8Mb)

Long version
Download mp3 file. (192kbps / 24.9Mb)

Recorder: Sound Devices 744 (24bit/48K)
Mics: Sennheiser ME62 30cm/110°
Pix: Canon 30D
Listen to Fireworks in Iceland

Read Full Post »

Trilla_fra_Flateyri

Um hvítasunnu þann 24. maí 2010 fór ég vestur á Flateyri og auðvitað fóru upptökutækin með. Fáir fuglar voru á sveimi í firðinum, kalt í veðri, með norðan kalda yfir daginn svo hljóð frá fuglum bárust lítið um fjörðinn.  Yfir blánóttina lægði. Mátti þá  helst heyra í hópum máffugla úti á miðjum firði suður og austur af Flateyri.
Ýmislegt hefur gengið á í Önundarfirði. Flestum er í minni snjóflóðið á Flateyri 1995 þar sem 20 fórust. Einnig hafa orðið mannskæð sjóslys, eitt hið mesta árið 1812, þegar sjö bátar týndust í einum og sama róðri. Fórust með þeim um 50 manns sem skildu eftir sig 16 ekkjur í sveitinni. Svo undarlega hafði brugðið við, að bæði vikurnar á undan og eftir var algert aflaleysi í firðinum en daginn, sem bátarnir fórust var mokveiði og allir fylltu báta sína á skammri stundu. Þeir fórust, sem ekki köstuðu fisknum fyrir borð.
Í Önundarfirði eru fjórir bæir, allir með sama nafninu;  Kirkjuból, og mun slíkt einsdæmi í nokkurri einstakri byggð á landinu.
Þennan vordag sem ég hljóðritaði reru örfáar trillur til fiskjar. Voru það helst útlendingar sem leigðu bátana fyrir sjóstangveiði. Heyra má í einum þessara báta á leið út á miðin í meðfylgjandi hljóðriti. Hljóðnemar voru staðsettir í fjörunni fremst á tanganum sunnan við fiskvinnsluhúsin á Flateyri.

_________________________________

Sound scape with waves at seashore, some birds and engine noise.  A small fishing boat pass the recording place at Flateyri in Önundafjordur north-west of Iceland.
Flateyri is a village with a population of approximately 300, it is the largest settlement on Önundarfjörður.
Flateyri has been a trading post since 1792, and temporarily became a major whaling center in the 19th century.
In October 1995 an avalanche hit the village, destroying 29 homes and killing 20 people. Since then a deflecting dam has been built to protect the village from any further avalanches.
Recorder: Korg MR1000 24bit/96Khz
Mic: Sennheiser ME62, NOS setup, 40cm apart /90°
Pictures: Canon 30D and Nokia N82

Sækja mp3 skrá (192kbps / 31,4mb)

Read Full Post »

Ekkert jafnast á við það að liggja úti í náttúrunni og fá tækifæri til að hlusta á fuglana í þögn frá vélardrunum mannsins. Hljóðin hafa mikið breyst á ótrúlega fáum árum. Með hverju ári verður sífellt erfiðara að nálgast fuglahljóð í ómengaðri náttúru. Með sífellt meiri hávaða og loftmengun er mannskepnan ekki aðeins að breyta sínu nánasta umhverfi heldur líka búsvæðum annarra lífvera og loftslagi á allri jörðinni. Fyrr en síðar mun það því miður bitna mjög harkalega á öllum lífverum.
Friðland í Flóa er lítið dæmi um að til séu menn sem af veikum mætti vilja endurheimta votlendi og þau náttúrugæði sem þeim fylgja. Eru þá framræsluskurðir stíflaðir svo grunnvatn hækkar á svæðinu sem svo laðar að sér ýmsa fugla.
Þótt mesta fuglalífið hafi verið nær stöndinni þegar þetta var tekið upp, þann 24. júní, þá vantaði ekki fuglana á friðlandið. Það heyrist þó ekki mikið í þeim og þurfti talsverða mögnun til að ná þessari upptöku sem því miður kemur fram í talsverðu suði. Svo nokkuð sé nefnt þá má heyra í kindum, flugu, lómi, hettumávi, lóuþræl, spóa, álft og hrossagauk. Þá heyrist bíla- og flugumferð að vanda sem og ölduniði sem lemur suðurstöndina í fjögurra km fjarlægð aftan við hljóðnemana.
Í uppökunni heyrist vel í óþekktri andartegund sem ekki sást en virðist hafa komið ansi nálægt upptökustað. Þeir hlustendur sem telja sig vita hvaða fugl sé þar á ferð eru beðnir um að segja frá því hér.
Tekið var upp á Sennheiser ME62 hljóðnema sem vísað var í 90° til norðurs. Sound device 302 formagnara og Korg MR1000 í 24bit/192khz. Myndir voru teknar á Canon D30

Sækja mp3 skrá (192kbps / 35,6Mb)

Read Full Post »

Friðland fugla í FlóaÞað er ekki auðvelt að hljóðrita þögn og skila því frá sér svo einhver nenni að hlusta. En satt best að segja tókst mér það á dögunum undir húsvegg í friðlandinu í Flóa. Undir norðurhlið hússins hefur sauðfé greinilega skýlt sér gegn sunnan sudda eða frá heitum sólargeislum. Það er sauðfé eðlislægt að gera þarfir sínar þar sem það setndur. Því vantaði ekki sauðataðið undir húsvegg fuglaskoðunarhússins sem stendur í miðju fuglafriðlandinu.
Nýju taði fylgja flugur og á þeim var enginn skortur að þessu sinni. Flugnasuðið var svo gott sem það eina sem ég heyrði fyrir utan suðið í eigin höfði. Það kom því svolítið á óvart að hljóðritið skilaði talsvert meiru af hljóðum. Vissulega heyrist mikið grunnsuð, ekki aðeins frá tækjum heldur líka frá flugvélum og bílaumferð norðan og sunnan við upptökustaðin. Þá barst líka talsverður “hávaði” frá öldurótinu við ósa Ölfusár. Fyrir utan flugnasuðið heyrist auðvitað líka í fuglum þó það komi mest á óvart hversu vel það heyrist þar sem þeir virtust flestir vera víðs fjarri á meðan á upptöku stóð.
Önnur hljóð eru líklega þenslusmellir í húsinu, léttir smellir frá gluggaloku og einn þenlusmellur frá öðrum hljóðnemanum. Seinni hluta upptökunnar heyrist í bíl sem kemur að bílastæði friðlandsins og að lokum þegar fólkið úr þeim bíl kemur og stígur á pallinn sunnan við húsið.
Tekið var upp þann 24. júní 2010 milli kl 17 og 18 á Korg MR1000 í 24bit/192Khz og Sennheiser ME62 hljóðnema. Þeim var vísað til norðurs með 90° horni, u.þ.b. 60cm frá húsveggnum.
Myndin er tekin sama dag nærri upptökustað. Horft er til horðurs í átt að Hveragerði (sjá fleiri myndir).

Sækja mp3 skrá (192kbps / 33,4Mb)

Read Full Post »

Fyrir rétt rúmum mánuði, þann 4. maí, hljóðritaði ég fuglasöng við golfskálann á Seltjarnarnesi. Þá heyrðist ekkert í kríu, aðeins í gæsum, mó- og vaðfuglum.
Þann 10. júní mætti ég í annað sinn með upptökutækin. Var krían þá komin á Nesið, fremur hávær og ákaflega árásargjörn eins og vera ber.
Hljóðnemum var nú aftur komið fyrir á sama stað og á sama tíma, þ.e. norðan golfskálans, rétt eftir miðnætti.
Á þessari stundu er margæsin farin til Svalbarða, Grænlands og Kanada og krían komin í hennar stað. Lítið heyrist í öðrum fuglum þó þeir hafi verið allt um kring. Krían var greinilega búin að hertaka Nesið og sætti sig við nærveru mannsins svo lengi sem hann héldi sig innan þeirra marka sem henni þóknaðist og honum bar.
Heldur lægri sjávarstaða var þann 10. júní en 4. maí. Því heyrist með öðrum hætti í öldunni.
Tekið var upp í 24bit/192Khz á Korg MR1000 með tveimur Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni sem vísða var til norðurs.
Myndin er tekin á meðan á upptöku stóð.

Sækja mp3 skrá (192kbps/31Mb)

Read Full Post »

Í lok apríl og byrjun maí gerði ég nokkrar tilraunir til að hljóðrita fuglalíf á Seltjarnarnesi. Ég gafist upp á því vegna stanslausrar bílaumferðar fram og til baka út á nesið. Það var líka fjöldi fólks sem virtist stunda sína útiveru á Nesinu, ekki síst við Bakkatjörn, með því að sitja í bílunum í vegkantinum með bílvélina í gangi. Það heyrðist því fátt annað en drunur og innspítingar í bílvélum og miðstöðvum þau skiptin sem ég gerði mér ferð á Nesið með upptökutækin.
Rétt fyrir miðnætti þriðjudaginn 4. maí fór ég út á Seltjarnarnes. Gekk á með súld af og til svo búast mátti við fáu fólki eða bílum fram Nesið svona seint um kvöld. Hljóðnemunum var komið fyrir í lítilli laut norðan við golfskálann svo að sem minnst heyrðist í bílum sem kæmu út á nesið. Það var heppilegt því fjórir bílar komu í erindisleysu fram á Nesið á meðan á upptöku stóð og án þess að það truflaði upptökuna að ráði. Besti tíminn fyrir upptöku hefði verið snemma morguns milli kl. þrjú og sjö en það er vart boðlegt vinnandi fólki.
Það sem einkennir þessa upptöku er fjölskrúðugt fuglalíf; vaðfuglar, endur og gæsir og greinilegt að krían er enn ókomin. Hrossagaukurinn er áberandi og hefði getað heyrst betur í honum ef hann hefði ekki haldið sig mestu sunnan við golfskálann á meðan á upptöku stóð. Þá heyrist í regndropum falla sem og af og til í misstórum úthafsöldum skella í fjörunni handan grjótgarðsins sem umlykur Nesið á alla vegu.
Upptakan er tekin frá kl. 23:00 til 23:30. Í hálftíma eftir það kæfðu vélar frá kaupskipi á útleið þögnina með þungum drunum fram yfir miðnætti. Er sá hluti upptökunnar ekki færður hér til eyrna.
Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 í Blimp vindhlífum sem vísuðu í u.þ.b. 90° til norðurs. Tekið var upp á Korg MR1000 í 192Khz/24bit. Myndin er tekin nærri tökustað á meðan á upptöku stóð.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 44Mb)

Read Full Post »

Einu og hálfu ári frá bankahruninu hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar. Helmingur íslensku þjóðarinnar hefur alla tíð verið í bullandi afneitun og aldrei trúað því sem gerðist í október 2008.  Í stjórnleysinu sem ríkt hefur bæði fyrir og eftir hrun hefur fjöldi fólks stundað rányrkju og annað svínarí í sinni einlægu græðgi.
En mánudaginn 12. apríl 2010 kl. 10:30 var afrakstur Rannsóknarnefndar Alþingis gefinn út í nærri 3000 síðna hrunaskýrslu. Hrunameistarinn og frjálhyggjupostulinn Davíð Oddson var þá flúinn land með öðrum skúrkum sem sumir, dagana áður, hreynsuðu hundruð milljónir króna af reikningum til að koma þeim undan réttvísinni
Hljóðmyndin sem hér heyrist var tekin upp fyrir framan Alþingishúsið síðdegis 22. janúar 2009, daginn eftir þá örlagaríku nótt þar sem minnstu munaði að götur Reykjavíkur hefðu verið þaktar blóði. Er hún ágætis dæmi um búsáhaldabyltinguna þegar hún lét hæst að sér kveða. Ef allt þetta skynsama fólk hefði ekki flykkst út á götur og mótmælt með þessum hætti þá hefðu allir hrunameistar Landráðaflokkana setið áfram við völd eins og ekkert hefði í skorist. Að sama skapi er óvíst hvort hrunaskýrslan hefði nokkurn tíma litið dagsins ljós.
Tekið var upp í DSF sniði 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 með Sennheiser ME62 sem mynduðu 90°horn á T-stöng. Upptakan hefst þar sem komið er frá Dómkirkjuni. Farið er inn í mannþröngina framan við Alþingishúsið, gengnir nokkrir hringir og þaðan frá aftur.
Myndin var tekin sunnudaginn fyrir útgáfu skýrslunnar. Er hún tekin á þeim stað sem upptakan fór fram, framan við Alþingishúsið sem hefur verið vinnustaður mestu og verstu stjórnmálaafglapa Íslandssögunnar. Þá er vert að benda á eldri Hljóðmyndafærslu sem tekin var 24. janúar 2009 sem sýnir að krafan um stjórnarskipti varð sífellt háværari.
Sækja mp3 skrá.  192kbps / 25,6Mb

Read Full Post »

Á Seltjarnarnesi er að finna kríuvarp sem laðar að sér ýmsa fugla s.s. grágæsir, spóa, hrossagauka og golfara. Er þetta nes eitt af náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins, ekki síst vegna fjölskrúðugs fuglalífs. Það er líklegt að þessi náttúruperla væri ekki til ef á nesinu væri ekki víðáttumikill golfvöllur. Ólíkt golfvöllum sunnar á jörðinni, þá geta íslenskir golfvellir beinlínis bætt aðbúnað manna og dýra í sátt við náttúruna. Ekki þarf að sólunda dýrmætu vatni til að vökva íslenska golfvelli og á meðan golf er talin sem góð og gild snobbíþrótt verður ekki byggt og malbikað á slíkum stöðum. Dýra- og fuglalíf verður því nokkuð fjölskrúðugt þó innan borgarmarka sé.
Upptakan sem hér má heyra var tekin upp undir miðju skýlinu sem sjá má á myndinni, milli kl 9:00 og 10:00, 17. júní 2009. Tekið var upp í 192Khz /24bit á Korg MR1000 með ME62 hljóðnema sem vísuðu 90° hvor frá öðrum út á völlinn.
Vara skal við þeim hvellum sem heyrast í upptökunni. Þeir geta sprengt hátalara. Ekki er vitað hverjir þeir menn eru sem tala í upptökunni og líklegt að þeir hafi aldrei vitað að upptaka hafi farið fram. Hér er tilvalin upptaka fyrir gólfara sem bíða spenntir eftir sumrinu.
Sækja mp3 skrá (192kbps / 30,3Mb)

Read Full Post »

Horft frá Skeljanesi
Rétt sunnan við Skeljanes í Skerjafirði er lítil vík. Í upphafi síðari heimsstyrjaldar á síðustu öld kom breski herinn þar fyrir viðlegukanti í tengslum við lagningu flugvallarins í Vatnsmýri. Síðar hafði olíufélagið Shell þar birgðaaðstöðu og olíugeyma sína. Í dag hefur Shell flust út í Örfirisey og því er þarna að finna litið spillta fjöru þar sem mannvirki hafa hægt og sígandi verið að hverfa í tímans rás. Þar sem ein braut flugvallarins nær þarna út að sjó hefur ekki verið lagður bílvegur fyrir enda hennar með fjöruborðinu. Óvenju hljótt er því á þessum stað miðað við ýmsa staði í nágrenni Reykjavíkur. Þó má greina þungan nið bílaumferðarinnar sem hávært grunnsuð. Hávaðinn frá bílaumferð í borginni er reyndar slíkur að hann má greina við Bláfjöll og Hengil.  Fáir veita þessum hávaða athygli. Meðvitað og ómeðvitað er þessi hávaði þó ein ástæða þess að marga dreymir um að eiga sumarbústað langt utan borgarmarkanna til þess eins að njóta kyrrðar.  Talið er að hávaði sem fylgir bílaumferð sé einn helsti streituvaldur nútímans á Vesturlöndum.
Við upptöku þessarar hljóðritunar var nauðsynlegt að nota lágtíðnisíur til þess að draga niður í lægstu tíðninni frá umferðinni sem fáir heyra en hefur truflandi áhrif á upptökur.
Upptakan fór fram 25. janúar 2009 kl. 22:30.  Hljóðnemum var stillt upp í flæðarmálinu og má heyra að hægt og rólega fjarar undan þeim. Tekið var upp í DSD 1 Bit/5,644 MHz, með Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni.
Myndin er tekin í umræddri fjöru. Horft er til suðurs á Kársnes.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 20,8Mb)

Read Full Post »

Barðaströnd sumarið 2008

Í lok júní 2008 dvaldist ég um vikutíma við Bjarkarholt við minni Mórudals á Barðaströnd. Var það ákaflega rólegur tími enda ekki mikil bílaumferð eftir Barðastrandarvegi (62). Þann 24 júní vaknaði ég um kl. 6 til að hljóðrita fyrir utan hús. Mikið var um mófugla, vaðfugla og spörfugla. Uppi í klettum fjallanna umhverfis mátti greinilega heyra mikið mávahjal. Má greinilega heyra hvað það eru mikil lífsgæði að hafa ekki bíla í sínu nánasta umhverfi.
Hér er á ferðinni mjög lágstemmd upptaka. Það gæti því þurft að hækka svolítið þegar hlustað er á hana. Þetta er líklega síðasta upptakan sem ég tók upp á Sony TC-D5M kassettutækið áður en ég fór að tileinka mér stafræna upptökutækni. Það má því heyra talsvert grunnsuð en það suð mælist u.þ.b. -60 db í kassettutækjum á meðan það er rúmlega -100 db á stafrænum tækjum. Tekið var upp á That´s MR-X90pro metal kassettu. Hljóðnemar voru Sennheiser ME62 og snúrur 1,5 metra langar CAT6 strengir. Heildarlengd upptökunnar eru 45 mínútur. Nú er hún komin í stafrænt form, 44.1 kHz / 16 bit. Myndin er tekin rétt hjá þeim stað þar sem upptakan fór fram.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 15,5Mb)

Read Full Post »

Older Posts »