Fyrir rétt rúmum mánuði, þann 4. maí, hljóðritaði ég fuglasöng við golfskálann á Seltjarnarnesi. Þá heyrðist ekkert í kríu, aðeins í gæsum, mó- og vaðfuglum.
Þann 10. júní mætti ég í annað sinn með upptökutækin. Var krían þá komin á Nesið, fremur hávær og ákaflega árásargjörn eins og vera ber.
Hljóðnemum var nú aftur komið fyrir á sama stað og á sama tíma, þ.e. norðan golfskálans, rétt eftir miðnætti.
Á þessari stundu er margæsin farin til Svalbarða, Grænlands og Kanada og krían komin í hennar stað. Lítið heyrist í öðrum fuglum þó þeir hafi verið allt um kring. Krían var greinilega búin að hertaka Nesið og sætti sig við nærveru mannsins svo lengi sem hann héldi sig innan þeirra marka sem henni þóknaðist og honum bar.
Heldur lægri sjávarstaða var þann 10. júní en 4. maí. Því heyrist með öðrum hætti í öldunni.
Tekið var upp í 24bit/192Khz á Korg MR1000 með tveimur Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni sem vísða var til norðurs.
Myndin er tekin á meðan á upptöku stóð.
Sækja mp3 skrá (192kbps/31Mb)
Já, blessuð krían. Ég á hljóðrit frá því í maí 1998og þá er heldur meiri gauragangur og fleiri kríur en nú. Ég þarf að senda þér hljóðrit sem var gert við golfvpöllinn á Seltjarnarnesi 21. maí 1998.
Það væri gaman að heyra þetta hljóðrit hjá þér frá því 1998. Ég á hljóðrit frá Nesinu því 1994 sem ég setti á annan útgáfudiskinn. Upptakan var ekki tekin alveg við golfvöllinn en mér finnst meira um að vera hjá kríjuni þar en á þessari nýju upptöku. Vonandi bara vegna þess að upptakan hér fyrir ofan er tekin á slæmum tíma sólahringsins.