Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for apríl, 2010

Nú er vika liðin frá útgáfu Hrunaskýrslunar. Tók nokkurn veginn sex sólarhringa að lesa hana. Lýsir hún ótrúlega vel afglöpum, fávitaskap og stjórnleysi sem og græðgi íslenskra broddborgara. Voru það leikarar í Borgarleikhúsinu sem tóku að sér þennan lestur. Þó mikið af þessum lestri teljist leiðindamas þá má líka finna mörg gullkorn sem hafa skemmtanagildi. Skýrslan birti ekki bara þurrar hagtölur, heldur var orðalag ýmissa hrunameistara úr yfirheyrslum settar beint fram í skýrsluni. Skýrslan er því á köflum eins og skemmtilegur reifari eða farsi.
Ég mætti í Borgarleikhúsið á laugardagskvöldi u.þ.b. 6 klukkustundum áður en lestri lauk. Nokkrir áheyrendur voru á staðnum og má heyra þá flissa á völdum stöðum í lestrinum og vera á rápi. Þá má heyra í bakgrunni tónlist frá yfirstandandi leiksýningu. Sá sem fyrst les í þessari hljóðmynd er Hallur Ingþórsson síðan tekur Jón Páll við. Upplesturinn er fremur gjallandi. Stafar það af því að lesturinn var magnaður fram í hátalara. Hefst hljóðmyndin á því að ég geng utan frá andyri leikhússins inn í herbergið þar sem lesturinn fór framm. Staldra þar við í 24 mínútur og geng þaðan út aftur.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz. Hljóðnemar voru MMaudio binaural.
Myndin er tekin á Nokia N82 síma á upptökustað.
Skja mp3 skrá.  192kbps / 37Mb

Read Full Post »

Einu og hálfu ári frá bankahruninu hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar. Helmingur íslensku þjóðarinnar hefur alla tíð verið í bullandi afneitun og aldrei trúað því sem gerðist í október 2008.  Í stjórnleysinu sem ríkt hefur bæði fyrir og eftir hrun hefur fjöldi fólks stundað rányrkju og annað svínarí í sinni einlægu græðgi.
En mánudaginn 12. apríl 2010 kl. 10:30 var afrakstur Rannsóknarnefndar Alþingis gefinn út í nærri 3000 síðna hrunaskýrslu. Hrunameistarinn og frjálhyggjupostulinn Davíð Oddson var þá flúinn land með öðrum skúrkum sem sumir, dagana áður, hreynsuðu hundruð milljónir króna af reikningum til að koma þeim undan réttvísinni
Hljóðmyndin sem hér heyrist var tekin upp fyrir framan Alþingishúsið síðdegis 22. janúar 2009, daginn eftir þá örlagaríku nótt þar sem minnstu munaði að götur Reykjavíkur hefðu verið þaktar blóði. Er hún ágætis dæmi um búsáhaldabyltinguna þegar hún lét hæst að sér kveða. Ef allt þetta skynsama fólk hefði ekki flykkst út á götur og mótmælt með þessum hætti þá hefðu allir hrunameistar Landráðaflokkana setið áfram við völd eins og ekkert hefði í skorist. Að sama skapi er óvíst hvort hrunaskýrslan hefði nokkurn tíma litið dagsins ljós.
Tekið var upp í DSF sniði 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 með Sennheiser ME62 sem mynduðu 90°horn á T-stöng. Upptakan hefst þar sem komið er frá Dómkirkjuni. Farið er inn í mannþröngina framan við Alþingishúsið, gengnir nokkrir hringir og þaðan frá aftur.
Myndin var tekin sunnudaginn fyrir útgáfu skýrslunnar. Er hún tekin á þeim stað sem upptakan fór fram, framan við Alþingishúsið sem hefur verið vinnustaður mestu og verstu stjórnmálaafglapa Íslandssögunnar. Þá er vert að benda á eldri Hljóðmyndafærslu sem tekin var 24. janúar 2009 sem sýnir að krafan um stjórnarskipti varð sífellt háværari.
Sækja mp3 skrá.  192kbps / 25,6Mb

Read Full Post »

Þennan föstudag fyrir tæpum 2000 árum telja kristnir menn að Jesú hafi verið krossfestur. Það var fátt sem minnti á þann atburð 3. apríl 2010 þegar ég var staddur á Ísafirði. Ég gerði mér þó ferð að kirkjugarðinum í Engidal við Skutulsfjörð þar sem finna mátti nokkurt safn af krossum á leiðum kristinna manna. Því má segja að það hafi verið nokkuð táknræn ferð þó tilefnið hafi fyrst og fremst verið að forðast vélarhljóð nærri mannabyggðum.
Mikið vetrarríki ríkti þennan dag með talsverðu frosti. Gekk á með hvössum, dimmum  hríðarbyljum og skafrenningi. Það var því ærið tilefni til að reyna að fanga andrúmsloftið í kirkjugarðinum sem eflaust öllum lifandi verum hefði þótt kuldaleg upplifun.
Tekið var upp á Korg MR1000 í 24bit/192Khz. Hljóðnemar voru Sennheiser ME64 í Rode Blimp vindhlífum sem voru í u.þ.b. 80°.
Helst heyrist í vindinum sem leikur um runnahríslur garðsins. Borði á kransi blaktir á nýtekinni gröf og strengur klappar fánastöng í fjarska. Þá sígur hljóðmaður öðru hvoru hor í nös þar sem hann hírist skjálfandi bak við húsvegg kapellunar í garðinum.  Það sem líklega heyrist aðeins sem lágvært suð hér á netútgáfu þessarar upptöku eru snjókornin sem strjúkast við snjóbreiðuna í skafrenningnum.
Á meðan á upptöku stóð fennti upptökutækið nærri í kaf. Upptökunni lauk þegar þrífóturinn sem hljóðnemarnir stóðu á fauk um koll. Það er þó ekki látið fylgja hér.
Ljósmyndin er tekin á upptökustað.
Sækja MP3 skrá.  192kbps / 29Mb

Read Full Post »