Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for janúar, 2010

Húsið byggði Þorsteinn Tómasson járnsmiður á árunum 1877-1878, á lóð norðan við bæinn Lækjarkot. Steinsmiðirnir Jónas og Magnús Guðbrandssynir hlóðu húsið og eru líklega einnig höfundar þess. Húsið var allt hlaðið úr íslensku grágrýti sem fengið var úr Skólavörðuholti, en kalkið til bindingar kom úr Esjunni. Er þetta eitt elsta íbúðarhúsið úr slíku byggingarefni í borginni. Árið 1884 var húsið lengt til suðurs og gerður inngangur með steintröppum á austurhlið. Einnig var þá búið að gera inngönguskúr úr grjóti við vesturhlið, en fyrir var inngangur á norðurgafli. Eftir það voru tvær íbúðir í húsinu og ekki innangengt milli þeirra. Árið 1905 var búið að setja kvist í gegnum húsið og þá voru komnir á það tveir inngönguskúrar, báðir við vesturhlið. Einhvern tímann síðar hefur kjallaraglugga verið breytt í dyr, en að öðru leyti er húsið lítið breytt.
Afkomendur Þorsteins Tómassonar bjuggu í húsinu fram yfir 1980 en þar hófu einnig rekstur nokkur fyrirtæki sem enn eru starfandi. Árið 1879 var Ísafoldarprentsmiðja þar til húsa og var þá sett þar upp fyrsta hraðpressan hérlendis. Breiðfjörðsblikksmiðja hóf starfsemi í húsinu árið 1902 og Sindri árið 1924. Árin 1904-1922 var verslunin Breiðablik í kjallara hússins en síðar var þar skóvinnustofa. Árið 1991 var húsið friðað að ytra byrði og hafa síðan verið gerðar ýmsar endurbætur sem hafa m.a. miðað að því að færa glugga til upprunalegs horfs. Einnig hafa verið gerðar nokkrar breytingar innanhúss og íbúðarhúsnæðinu verið breytt í veitingahús undir nafninu Highlander.
Á fimmtudögum hin síðustu misseri, hafa nokkrir tónlistarmenn haft þar „open session“, þar sem spiluð er t.d. keltnesk tónlist. Þegar ég kom þangað 29. janúar 2010 var samankominn fjöldi hljóðfæaraleikara frá ýmsum löndum. Fyrir utan Íslendingana voru komnir þar hljóðfæraleikarar frá Írlandi, Skotlandi og Noregi. Upptakan byrjar í miklu svaldri þar sem húsið var fullt af gestum.
Þá rúma tvo tíma sem upptakan stóð yfir minnkaði skvaldrið og ég komst nær hljóðfærunum og tónlistin varð greinilegri. Það sem hér má heyra eru aðeins fyrstu 19 mínúturnar í talsverðu skvaldri. Afgangurinn af upptökunni mun því heyrast í nokkrum færslum. Tekið var uppí 24bit/44Khz á Olympus LS10 og MMaudio Binaural hljóðnema.
Sækja Mp3 skrá.  (192kbps / 26,7Mb)

Read Full Post »

Deila má um áhrif verslunarmiðstöðva á samfélagið og hvernig þær eru tilkomnar. Víst er að þær hafa drepið kaupmanninn á horninu og að þær eru byggðar af auðhringjum sem ætla sér að græða. Verslunarmiðstöðvar eru tilkomnar vegna samgöngustefnu yfirvalda. Allir verða að eignast bíl. Er því hiklaust logið að fólki að bíll sé nauðsynlegur um leið og stjórnvöld byggja sífellt fyrirferðarmeiri bílamannvirki. Er það gert á kostnað annarra samgangna svo að á endanum hefur fólk aðeins einn kost og það er að fara ferða sinna á einkabílum.
Hverjum er svo sem ekki sama. Bíllinn er diggur þjónn letinnar.
Fyrst fólk er á annað borð komið í bílinn þá gengur það ekki á inniskónum til kaupmannsins á horninu til að kaupa einn lítra af mjólk heldur ekur það 10 km í næstu verslunarmiðstöð, kaupir þar einn lítra af mjólk og ýmislegt annað sem það hefur jafnvel ekki þörf á. Andlit verslunarmiðstöðva eru víðáttumikil bílastæði eða klunnaleg bílastæðahús. Þangað fer því enginn nema á bíl.
Þegar inn er komið gerist það undraverða. Fólk losnar við púströrsfnikinn og hávaðann frá bílaumferðinni um leið og það fullnægir kaupgleðinni.
Veslunarmiðstöðvar eiga því stóran þátt í að eyðileggja vistvæna skipulagsheildir þéttbýlissvæða. Þær hvetja til aukinnar neyslu og til notkunar einkabíla sem hefur svo á allan hátt mjög skaðleg áhrif á borgarsamfélög.
Upptakan sem hér má heyra, var gerð fyrir miðju húsi á efri hæð Kringlunar, sama dag og forsetinn Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta icesave lögin frá Alþingi. Fyrir utan fótatak og spjall fólks má einnig heyra í vinnuliftu sem starfsmenn Kringlunar notuðu til að taka niður jólaskraut.
Upptakan er gerð á Olympus LS10 í 24bit / 96Khz með MMaudio lavalier hljóðnemum sem festir voru á gleraugnaspangir mínar við eyrun (Binaural upptaka).
Myndin er tekin á Nokia síma á meðan á upptökum stóð.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 17Mb)

Read Full Post »