Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Sennheiser MKE 2’

Tvö ár eru liðin frá sýndargóðæri og bankahruni frjálshyggjumanna sem meirihluti þjóðarinnar kaus inn á þing hvað eftir annað. Á þessum tveimur árum sem liðin eru hefur vinstri stjórn átt í fullu fangi með að vinna úr afleiðingum hrunsins. Rúmlega helmingur alþingismanna er ófær um að taka á vandanum. Margir af þeim tóku virkan þátt í að knésetja samfélagið auk þess að vera í bullandi afneitun á því sem gerst hefur. Sama má segja um rúman helming þjóðarinnar.
Afleiðing hrunsins er niðurskurður á öllum sviðum sem fáir hafa skilning á.
Atvinnuleysi er orðið með því mesta sem mælst hefur á Íslandi eða álíka og í dæmigerðu vestrænu samfélagi,
Gríðarlega mikið sparifé hefur tapast, bæði hjá venjulegu fólki og bröskurum. Kaupmáttur hefur minnkað svo fólk verður að láta af fyrri neysluvenjum, sem reyndar fyrir hrun var orðin hjá mörgum hreinasta geggjun. Margir eru því í sárum eftir að hafa komist að því að sýndarheimur fyrri ára stefndi þeim aðeins að feigðarósi.
Skuldir fyrirtækja, heimila og einstaklinga hafa stökkbreyst svo að jafnvel verstu fjármálaafglapar hafa tekið eftir því að eitthvað fór úrskeiðis. Bæði stórir sem smáir skuldarar standa því frammi fyrir því að lenda í ævilöngu skuldafangelsi.
Fólk mætti af misjöfnum hvötum á Austurvöll 4. október 2010 til að mótmæla ástandinu við þingsetningu Alþingis. En segja má að flestir mótmælendur vildu að þingmenn hefðu átt að vera búnir að leysa vanda þjóðarinnar.
Hér er á ferðinni upptaka sem tekin var upp á einum fjölmennustu mótmælum Íslandssögunar, en talið er að u.þ.b. 8 þúsund manns hafi mætt á svæðið.
Upptakan hefst aftan og austan við Skólabrú 1. Gengið er þaðan inn í mannþröngina á Austurvelli til móts við Templarasund og í lok upptökunnar er gengin sama leið til baka. Tekið var upp á Korg MR1000 á 24bit/192khz. Notast er við Sennheiser MKE 2 Gold hljóðnema í Binaural uppsetningu.
Myndir frá þessum atburði voru teknar á Olympus Z4040 og Nokia N82
Fréttir frá atburðinum má sjá hér og hér og hér og hér.

Sækja mp3 skrá.  (192kpbs / 34Mb)

Read Full Post »

Hljóðfæraleikarar fjölmenntu á efstu hæð á Highlander á Lækjargötu 10, þann 15. júlí 2010.
Enginn virtist í stuði fyrst til að byrja með. En þegar fór að líða á kvöldið þá duttu menn í gírinn og þá birtust söngvarar, einn innlendur sem áður hefur sungið með þessum hópi og tveir erlendir ferðamenn sem óvart voru á staðnum.
Heyra má bluegrass, keltneska og skandinavíska tónlist að þessu sinni.
Sá hluti upptökunnar sem hér heyrist er frá seinni hluta kvöldins þegar menn voru komnir í gírinn og söngvarar voru farnir að þenja sig.
Upptakan þetta kvöld var á margan hátt ekki eins góð og þegar tekið er upp á neðri hæð kráarinnar. Stafar það helst af því að mikill umferðarhávaði kom inn um opna glugga, rýmið er stærra en niðri og fleiri hljóðfæraleikarar, sem voru í talsverðri fjarlægð. Það er því nokkur gjallandi í upptökunni.
Tekið var upp á Korg MR1000 með Sound device 302 formagnara í 24bit/192Khz. Hljóðnemarnir voru Sennheiser MKE-2 Gold Lavalier og uppsetning þeirra Binaural. Að vanda þá voru hljóðnemarnir festir við gleraugaspangir mínar rétt við eyrun. Það má því mæla með að fólk noti góð heyrnartól þegar hlustað er á upptökuna sem og aðrar Binaural upptökur.
Myndir frá þessu kvöldi má sjá hér.
Aðrar upptökur með þessum hljóðfæraleikurum má svo heyra hér.
Þess skal getið að þeir sem áhuga hafa á að spreita sig við að spila svona tónlist eru velkomir í þennan hóp en hann æfir flest fimmtudagskvöld á Highlander.

Sækja mp3 skrá (192kbps /  31,8Mb)

Sækja mp3 skrá (192kbps / 29,2Mb)

Read Full Post »

Svartþröstum virðist fjölga hér á landi. Eru þó vart meira en 20 ár frá því hann fór að verpa hér á landi. Fyrst tók ég eftir honum fyrir u.þ.b. fjórum árum í Vogahverfinu þegar ég átti þar leið um snemma á morgnana.
Svartþrösturinn er venjulega felugjarn nema syngjandi karlfuglinn á vorin, sem þá hreykir sér í trjátoppum. Hefur hann afar háværan en fagran söng sem oft getur verið unun á að hlýða.
Í vetur gerðist það að svartþöstur fór að venja komur sínar í garðinn hjá mér og svo verpti hann í nágrenninu í vor. Hann hefur átt það til að taka söngaríur með slíkum afköstum að skógarþrösturinn er svo gott sem hættur að láta í sér heyra í hverfinu.
Oft heyrist í fuglinum en þó er erftitt að hljóðrita sönginn. Um leið og ég birtist í garðinum þá þagnar hann eða fer langt í burtu til að syngja. Um daginn tókst mér samt að taka upp sönginn í fuglinum klukkan þrjú að morgni þar sem hann var í hvarfi við laufþykknið í næsta garði. En það stóð heima, þegar ég komst í sjónfæri við hann, þá þagnaði hann eftir þrjú síðustu versin í meðfylgjandi hljóðriti.
Þar sem ég hef tekið eftir því að söngur svartþrasta er mismunandi eftir hverfum þá er líklegt að ég muni koma með önnur hljóðdæmi síðar.
Tekið var upp á Korg MR1000 í 24bit/192Khz, Sound Device 302 formagnara, Telinga parabólu með Sennheiser MKE 2 lavalier hjóðnemum.
Myndin er tekin nokkrum dögum síðar, liklega af kvennfugli.

Sækja MP3 skrá (192kbps/13Mb)

Read Full Post »