Svartþröstum virðist fjölga hér á landi. Eru þó vart meira en 20 ár frá því hann fór að verpa hér á landi. Fyrst tók ég eftir honum fyrir u.þ.b. fjórum árum í Vogahverfinu þegar ég átti þar leið um snemma á morgnana.
Svartþrösturinn er venjulega felugjarn nema syngjandi karlfuglinn á vorin, sem þá hreykir sér í trjátoppum. Hefur hann afar háværan en fagran söng sem oft getur verið unun á að hlýða.
Í vetur gerðist það að svartþöstur fór að venja komur sínar í garðinn hjá mér og svo verpti hann í nágrenninu í vor. Hann hefur átt það til að taka söngaríur með slíkum afköstum að skógarþrösturinn er svo gott sem hættur að láta í sér heyra í hverfinu.
Oft heyrist í fuglinum en þó er erftitt að hljóðrita sönginn. Um leið og ég birtist í garðinum þá þagnar hann eða fer langt í burtu til að syngja. Um daginn tókst mér samt að taka upp sönginn í fuglinum klukkan þrjú að morgni þar sem hann var í hvarfi við laufþykknið í næsta garði. En það stóð heima, þegar ég komst í sjónfæri við hann, þá þagnaði hann eftir þrjú síðustu versin í meðfylgjandi hljóðriti.
Þar sem ég hef tekið eftir því að söngur svartþrasta er mismunandi eftir hverfum þá er líklegt að ég muni koma með önnur hljóðdæmi síðar.
Tekið var upp á Korg MR1000 í 24bit/192Khz, Sound Device 302 formagnara, Telinga parabólu með Sennheiser MKE 2 lavalier hjóðnemum.
Myndin er tekin nokkrum dögum síðar, liklega af kvennfugli.
Sækja MP3 skrá (192kbps/13Mb)