
Mér hefur gengið erfiðlega að ná upptökum af svartþresti sem helgað hefur sér svæði í næsta garði við húsið mitt. Hvert skipti sem ég læðist út með upptökutækin heyrast viðvörunarhljóð og hann lætur sig hverfa. Yfirleitt tekur hann þá með sér aðra fugla svo garðurinn og næsta nágrenni verður fuglalaus jafnvel sólarhringum saman. Mér tókst þó á laugardegi að skjótast út með tækin og taka upp lítilsháttar fuglaþing. Það fjaraði þó fljótlega út eins og annað eftir að upptaka hófst. Í fjarska, í u.þ.b. 200-300 metra fjarlægð var einmana hrafn hugsanlega að biðla til maka. Varla mætti það seinna vera því þetta er sá tími sem hrafninn ætti að vera í bullandi tilhugalífi. Varptími hanns er upp úr miðjum apríl fram í byrjun maí.
Í upptökunni má heyra hvernig fuglasöngurinn fjarar út en í staðinn má heyra vængjaþyt. Fyrir utan stanslausan bílanið má heyra í bjöllu kattar, strengjaslátt fánastangar, börn á hlaupum á milli húsa og hurðaskelli svo fátt eitt sé nefnt.
Tekið var upp í 24bit/44Khz á Olympus LS10 með Telinga parabólu. Í henni voru MMaudio lavalier sterio hljóðnemar. Notast þurfti við lágtíðnisíu á 82Hz til að lækka í þrúgandi bílaumferð og lítilsháttar vindkviðum sem komu af og til. Myndin er tekin á upptökustað
Sækja skrá. (192kbps/21Mb)
Þetta er eðlilegt en umfram allt stórskemmtilegt hljóðrit. Til hamingju með parabóluna.
Ég hef orðið fyrir þeirri reynslu að nauðsynlegtsé að setja upp hljóðnema og láta hann eða þá standa úti í garði eða á svölunum í 2-3 daga til þess að fuglarnir venjist þeim.
Ég er svo sem ekki sérlega ánægður með þessa hljóðmynd. Upptakan er þó mun skemmtilegri í fullum gæðum. Hún er ágætis tilraun með parabóluna. Henni fylgja heilmikil fræði og pælingar þegar kemur að staðsetningu og gerð hljóðnema ofl. Gaman af því.
Það kæmi mér ekki á óvart ef ég þyrfti að skilja hljóðnemana eftir úti. Blimp vindhlífarnar sem dæmi, eru eins og tveir stórir, feitir og vel loðnir kettir. Mér hefur því ekki undrað þó fuglar hafi látið sig hverfa. Ég bjóst þó við að Parabólan breytti því eitthvað en það virðist ekki vera. Nú er liðinir 6 dagar frá því ég tók upp þessa hljóðmynd, en ég hef ekki svo mikið sem séð né heyrt í einu fugli síðan.
Ég vona að þetta verði ekki svona hjá mér næstu þrjá til sex mánuði. Hljóðmyndarvertíðin er rétt að hefjast.