
Fátt er skemmtilegra en að liggja einn í fjallaskála, finna vindinn skekja skálann og rigninguna berja rúðurnar. Það gefur manni sterka tilfinningu fyrir náttúrunni, ekki síst eftir langt og erfitt ferðalag þar sem maður hefur ekki verið truflaður af vélum eða stórkallalegum mannvirkjum.
Það er sjaldgæft að veður séu slæm á höfuðborgarsvæðinu, en slikar stundir eru til og þá fer maður sjaldnast út að tilefnislausu. Tilfinningin er heldur aldrei sú sama og á fjöllum. En þó, það er eitthvað rólegt við það að hlusta á rok og rigningu berja rúðurnar.
Þann 11. desember 2009 var leiðinda veður í höfuðborginni. Það gaf tilefni til hljóðritunar þó það væri ekkert aftakaveður.
Stillti ég upp tveimur ME64 hljóðnemum í svefnherberginu og tók upp í 16Bit / 44.1Khz. Veðrið var að mestu gengið niður þegar upptakan fór fram um kl 14:30. Heyra má í upptökuni háværan grunnsón. Er hann að mestu tilkominn frá bílaumferð en bæði Miklabraut og Reykjanesbraut eru í u.þ.b. kílómeters fjarlægð. Rokið í trjánum á þó eitthvað í þessum hávaða líka. Þar sem hljóðnemarnir voru nálægt rúðum þá má greinilega heyra hávaðan að utan “sóna” með holum hljómi á milli tvöföldu rúðunnar. Þá má líka heyra í vekjaraklukkuni sem var á náttborðinu þar nærri. Myndin er tekin út um gluggann á meðan á upptöku stóð.
Sækja Mp3 skrá. (192kbps / 8,8Mb)
Skildu eftir svar - Enter your comment