Snorri Sigfús Birgisson (f. 1945) stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. Þá tók við framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum og tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen og hjá Ton de Leeuw í Amsterdam. Veturinn 1978-79 bjó hann í París og árið eftir í London þar sem hann kenndi á píanó. Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan 1980. Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Hymni fyrir strengjasveit var saminn árið 1982 fyrir Nýju strengjasveitina og frumflutt undir stjórn höfundar á tónleikum í Bústaðakirkju. Verkið samanstendur af 11 köflum sem allir eru í mixólýdískri tóntegund, mjög stuttir og hægir. Flutningur verksins er hér tileinkaður minningu Önnu Snorradóttur, móður tónskáldsins.
Upptakan sem hér má heyra með leyfi höfundar, er flutt af Sinfóníuhljómsveit áhugamanna 7. febrúar 2010 í Seltjarnarneskirkju. Var hún tekin upp í DSD 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 og Sound device 305 formagnara. Tveimur SE4400 hljóðnemum (sterio) og einum SE4 (miðju), sem allir voru staðsettir á einni 2,5 metra hárri súlu framan við stjórnandann Oliver Kentish.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 22.9mb)
Þetta er fallegt hljóðrit, Magnús, og jafnvægið gott. Það á vel við að birta þetta ágæta verk í minningu Önnu Snorradóttur, hinnar mikilhæfu og góðu konu.