
Vorið 2009 var fremur kalt með köldum norðanáttum. Fuglalíf var því ekki með neinum ágætum þetta vor. Ugglaust brást varp hjá mörgum fuglum, þó að ekki bæri mikið á því á Seltjarnarnesi. Milli kl. 5 og 6 hinn 12. júní, fór ég út á Nes og hljóðritaði hljóð æðarfugls í fjöruborðinu. Allhvöss norðanátt var á Nesinu, svo að í upphafi gekk erfiðlega að finna hljóðnemunum stað, til að vindurinn heyrðist ekki á upptökunum. Besti staðurinn reyndist vera suðurströndin í skjóli við grjótgarð og melgresi. Í flæðarmálinu voru kollur með nokkra unga og blikar, sem voru að atast sín á milli og í kollunum. Það kom mér á óvart, hversu nálægt ég gat komist fuglunum án þess að það hefði truflandi áhrif á þá. Upptakan hefst með því, að ég set upp hljóðnemanna þar sem hópur æðarfugla er í fæðuleit með buslugangi. Þegar líður á upptökuna, færðust flestir fuglarnir austar með ströndinni (til vinstri) og skriðu þar á land. Upptakan verður því hljóðbærari eftir því sem á líður. Notast var við tvo Sennheiser ME66 hljóðnema, sem klæddir voru Rycote Softy vindhlífum og stillt upp í ca. 100°. Tekið var upp í 24 bit / 192kHz á Korg MR1000. Upptakan, sem hér heyrist, er líklega besti samfelldi kafli allrar upptökunnar þar eð vindur hafði ekki truflandi áhrif. Þegar líður á upptökuna fjarar undan hljóðnemunum. Myndin er tekin á upptökustað.
Sækja MP3 skrá (192kbps /31Mb)
Skildu eftir svar - Enter your comment