Þennan föstudag fyrir tæpum 2000 árum telja kristnir menn að Jesú hafi verið krossfestur. Það var fátt sem minnti á þann atburð 3. apríl 2010 þegar ég var staddur á Ísafirði. Ég gerði mér þó ferð að kirkjugarðinum í Engidal við Skutulsfjörð þar sem finna mátti nokkurt safn af krossum á leiðum kristinna manna. Því má segja að það hafi verið nokkuð táknræn ferð þó tilefnið hafi fyrst og fremst verið að forðast vélarhljóð nærri mannabyggðum.
Mikið vetrarríki ríkti þennan dag með talsverðu frosti. Gekk á með hvössum, dimmum hríðarbyljum og skafrenningi. Það var því ærið tilefni til að reyna að fanga andrúmsloftið í kirkjugarðinum sem eflaust öllum lifandi verum hefði þótt kuldaleg upplifun.
Tekið var upp á Korg MR1000 í 24bit/192Khz. Hljóðnemar voru Sennheiser ME64 í Rode Blimp vindhlífum sem voru í u.þ.b. 80°.
Helst heyrist í vindinum sem leikur um runnahríslur garðsins. Borði á kransi blaktir á nýtekinni gröf og strengur klappar fánastöng í fjarska. Þá sígur hljóðmaður öðru hvoru hor í nös þar sem hann hírist skjálfandi bak við húsvegg kapellunar í garðinum. Það sem líklega heyrist aðeins sem lágvært suð hér á netútgáfu þessarar upptöku eru snjókornin sem strjúkast við snjóbreiðuna í skafrenningnum.
Á meðan á upptöku stóð fennti upptökutækið nærri í kaf. Upptökunni lauk þegar þrífóturinn sem hljóðnemarnir stóðu á fauk um koll. Það er þó ekki látið fylgja hér.
Ljósmyndin er tekin á upptökustað.
Sækja MP3 skrá. 192kbps / 29Mb
Mér verður hrollkalt að hlusta á þetta. Held að ég fari í lopapeysu og setji upp húfu! Ég hef aldrei notað ME64 til þess að hljóðrita vind. Kannski ég hugi að þessum rode Limp-hlífum.
Mér datt það fyrst í hug þegar ég heyrði upptökuna eftir að heim var komið hvort ekki mætti nota hana á skrifstofum sem að staðaldri notuðu kælibúnað á sumrin. Það væri allavega tilraunarinnar virði 🙂
Ég notaði ME64 ekki af góðu. Var að reyna forðast bílaháfaðann frá þéttbylinu án þess þó að nota ME66. Hefði helst viljað nota ME62 í þessari upptöku. Þá hefðu heyrst betur í snjókornunum sem strukust eftir jörðini, en þá liklega minna í vindhviðunum frá runnunum. Þetta var í raun staður til að eiga upptökur af með öllum hausum ME62, 64 og 66.
Blimp vinhlífin er mjög góð eins og greinilega kom fram í þessari upptöku. Ekki spillir svo verðið, en þetta er ódýrasta vindhlifin á markaðnum. Á henni eru smávægilegir hönnunar gallar en maður sættir sig við þá vegna verðsins. Það fer helst í taugarnar á manni hvað svona Zeppelin hlifar eru fyrirferðamikilar. Hef ég séð vindhlif frá DPA, að mig minnir, sem maður opnar eins og regnhíf eða lampaskerm. Það fer því ekkert fyrir henni í flutningi. Hún er auk þess regnheld sem ekki er hægt að segja um allar óvarðar Zeppelin vindhlifar. Verðið á DPA vindhlifinni er hinsvegar alveg út úr korti svo hún verður bara blautur draumir um ókomna framtíð.
En hver gargar svona upp þegar flugvélin flýgur hjá? Þú eða einhver zombie pirraður yfir að grafarrónni var raskað?
Það var nett pirraður Zombie 🙂
[…] between blizzard storms. Another sound image was recorded day before Úlfsá in next valley. It is Föstudagurinn langi árið 2010 ( Good Friday 2010) Recorder: Korg MR1000 24bit/192Khz Mic: Sennheiser ME63 in Blimp. NOS setup […]