Tuttugu og fimm ár eru liðin frá því að fyrsti gámakrani Eimskipafélagsins í Sundahöfn, var vígður við hátíðlega athöfn. Kraninn var reistur sumarið 1984 og var ákveðið að hann skyldi hljóta nafnið „Jakinn“. Með nafninu var verið að heiðra Guðmund J. Guðmundsson, fyrrum formann Dagsbrúnar, sem áratugum saman hafði verið í forystu fyrir reykvíska hafnarverkamenn og hafði hlotið viðurnefnið „Jaki“, sennilega vegna þess að millinafn hans var ávallt stytt með bókstafnum J eingöngu. Í frétt Morgunblaðsins um nafngiftina sagði meðal annars árið 1984: “Hlýtur það að teljast réttnefni því að með krananum er hægt að lyfta 32,5 tonnum í hverri færslu. Reiknað er með að full afkastageta verði 20-30 gámar á klukkustund”. Jakinn er 53 metra hár, vegur 450 tonn og hefur lyft tæplega einni og hálfri milljón gáma á þessum árum, eða sem nemur tæplega fimm gámum á hvern núlifandi Íslending. Með tilkomu hans tók gámavæðing íslenskra skipaflutninga mikið stökk.
Þó að 25 ár séu ekki langur tími er það þó langur tími í þróun hafnarkrana. Rafstýring „Jakans“ byggist á Ward-Leonard DC (rakstraums) stýringum. Afl hans er 0,5MW. Í dag eru hafnarkranar tölvustýrðir með PLC stýrieiningum og hraðabreytum. Ekki þykir óeðlilegt að þeir geti lyft rúmlega 100 tonnum og afl þeirra getur farið upp í 3MW.
Upptakan sem hér er að finna var gerð í gámi inni í vélahúsi „Jakans“. Þar er allur stýribúnaður hans sem byggist á mörgum spólurofum og stórum DC-rofum (rakstraumsrofum). Hljóðdæmið lýsir ágætlega ótal rofasmellum sem fylgja því að færa einn gám frá vagni yfir í skip og aftur í land. Tekið var upp í 44.1 kHz/16 bit með Rode NT2A hljóðnemum. Ljósmyndin var tekin við þetta tækifæri.
Sækja Mp3 skrá (192kbps / 4,3Mb)
Skildu eftir svar - Enter your comment