Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Birds’

Fyrir rétt rúmum mánuði, þann 4. maí, hljóðritaði ég fuglasöng við golfskálann á Seltjarnarnesi. Þá heyrðist ekkert í kríu, aðeins í gæsum, mó- og vaðfuglum.
Þann 10. júní mætti ég í annað sinn með upptökutækin. Var krían þá komin á Nesið, fremur hávær og ákaflega árásargjörn eins og vera ber.
Hljóðnemum var nú aftur komið fyrir á sama stað og á sama tíma, þ.e. norðan golfskálans, rétt eftir miðnætti.
Á þessari stundu er margæsin farin til Svalbarða, Grænlands og Kanada og krían komin í hennar stað. Lítið heyrist í öðrum fuglum þó þeir hafi verið allt um kring. Krían var greinilega búin að hertaka Nesið og sætti sig við nærveru mannsins svo lengi sem hann héldi sig innan þeirra marka sem henni þóknaðist og honum bar.
Heldur lægri sjávarstaða var þann 10. júní en 4. maí. Því heyrist með öðrum hætti í öldunni.
Tekið var upp í 24bit/192Khz á Korg MR1000 með tveimur Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni sem vísða var til norðurs.
Myndin er tekin á meðan á upptöku stóð.

Sækja mp3 skrá (192kbps/31Mb)

Read Full Post »

Í lok apríl og byrjun maí gerði ég nokkrar tilraunir til að hljóðrita fuglalíf á Seltjarnarnesi. Ég gafist upp á því vegna stanslausrar bílaumferðar fram og til baka út á nesið. Það var líka fjöldi fólks sem virtist stunda sína útiveru á Nesinu, ekki síst við Bakkatjörn, með því að sitja í bílunum í vegkantinum með bílvélina í gangi. Það heyrðist því fátt annað en drunur og innspítingar í bílvélum og miðstöðvum þau skiptin sem ég gerði mér ferð á Nesið með upptökutækin.
Rétt fyrir miðnætti þriðjudaginn 4. maí fór ég út á Seltjarnarnes. Gekk á með súld af og til svo búast mátti við fáu fólki eða bílum fram Nesið svona seint um kvöld. Hljóðnemunum var komið fyrir í lítilli laut norðan við golfskálann svo að sem minnst heyrðist í bílum sem kæmu út á nesið. Það var heppilegt því fjórir bílar komu í erindisleysu fram á Nesið á meðan á upptöku stóð og án þess að það truflaði upptökuna að ráði. Besti tíminn fyrir upptöku hefði verið snemma morguns milli kl. þrjú og sjö en það er vart boðlegt vinnandi fólki.
Það sem einkennir þessa upptöku er fjölskrúðugt fuglalíf; vaðfuglar, endur og gæsir og greinilegt að krían er enn ókomin. Hrossagaukurinn er áberandi og hefði getað heyrst betur í honum ef hann hefði ekki haldið sig mestu sunnan við golfskálann á meðan á upptöku stóð. Þá heyrist í regndropum falla sem og af og til í misstórum úthafsöldum skella í fjörunni handan grjótgarðsins sem umlykur Nesið á alla vegu.
Upptakan er tekin frá kl. 23:00 til 23:30. Í hálftíma eftir það kæfðu vélar frá kaupskipi á útleið þögnina með þungum drunum fram yfir miðnætti. Er sá hluti upptökunnar ekki færður hér til eyrna.
Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 í Blimp vindhlífum sem vísuðu í u.þ.b. 90° til norðurs. Tekið var upp á Korg MR1000 í 192Khz/24bit. Myndin er tekin nærri tökustað á meðan á upptöku stóð.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 44Mb)

Read Full Post »

« Newer Posts