Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Music’

Snorri Sigfús Birgisson (f. 1945) stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. Þá tók við framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum og tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen og hjá Ton de Leeuw í Amsterdam. Veturinn 1978-79 bjó hann í París og árið eftir í London þar sem hann kenndi á píanó. Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan 1980. Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Hymni fyrir strengjasveit var saminn árið 1982 fyrir Nýju strengjasveitina og frumflutt undir stjórn höfundar á tónleikum í Bústaðakirkju. Verkið samanstendur af 11 köflum sem allir eru í mixólýdískri tóntegund, mjög stuttir og hægir. Flutningur verksins er hér tileinkaður minningu Önnu Snorradóttur, móður tónskáldsins.
Upptakan sem hér má heyra með leyfi höfundar, er flutt af Sinfóníuhljómsveit áhugamanna 7. febrúar 2010 í Seltjarnarneskirkju. Var hún tekin upp í DSD 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 og Sound device 305 formagnara. Tveimur SE4400 hljóðnemum (sterio) og einum SE4 (miðju), sem allir voru staðsettir á einni 2,5 metra hárri súlu framan við stjórnandann Oliver Kentish.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 22.9mb)

Read Full Post »

Húsið byggði Þorsteinn Tómasson járnsmiður á árunum 1877-1878, á lóð norðan við bæinn Lækjarkot. Steinsmiðirnir Jónas og Magnús Guðbrandssynir hlóðu húsið og eru líklega einnig höfundar þess. Húsið var allt hlaðið úr íslensku grágrýti sem fengið var úr Skólavörðuholti, en kalkið til bindingar kom úr Esjunni. Er þetta eitt elsta íbúðarhúsið úr slíku byggingarefni í borginni. Árið 1884 var húsið lengt til suðurs og gerður inngangur með steintröppum á austurhlið. Einnig var þá búið að gera inngönguskúr úr grjóti við vesturhlið, en fyrir var inngangur á norðurgafli. Eftir það voru tvær íbúðir í húsinu og ekki innangengt milli þeirra. Árið 1905 var búið að setja kvist í gegnum húsið og þá voru komnir á það tveir inngönguskúrar, báðir við vesturhlið. Einhvern tímann síðar hefur kjallaraglugga verið breytt í dyr, en að öðru leyti er húsið lítið breytt.
Afkomendur Þorsteins Tómassonar bjuggu í húsinu fram yfir 1980 en þar hófu einnig rekstur nokkur fyrirtæki sem enn eru starfandi. Árið 1879 var Ísafoldarprentsmiðja þar til húsa og var þá sett þar upp fyrsta hraðpressan hérlendis. Breiðfjörðsblikksmiðja hóf starfsemi í húsinu árið 1902 og Sindri árið 1924. Árin 1904-1922 var verslunin Breiðablik í kjallara hússins en síðar var þar skóvinnustofa. Árið 1991 var húsið friðað að ytra byrði og hafa síðan verið gerðar ýmsar endurbætur sem hafa m.a. miðað að því að færa glugga til upprunalegs horfs. Einnig hafa verið gerðar nokkrar breytingar innanhúss og íbúðarhúsnæðinu verið breytt í veitingahús undir nafninu Highlander.
Á fimmtudögum hin síðustu misseri, hafa nokkrir tónlistarmenn haft þar „open session“, þar sem spiluð er t.d. keltnesk tónlist. Þegar ég kom þangað 29. janúar 2010 var samankominn fjöldi hljóðfæaraleikara frá ýmsum löndum. Fyrir utan Íslendingana voru komnir þar hljóðfæraleikarar frá Írlandi, Skotlandi og Noregi. Upptakan byrjar í miklu svaldri þar sem húsið var fullt af gestum.
Þá rúma tvo tíma sem upptakan stóð yfir minnkaði skvaldrið og ég komst nær hljóðfærunum og tónlistin varð greinilegri. Það sem hér má heyra eru aðeins fyrstu 19 mínúturnar í talsverðu skvaldri. Afgangurinn af upptökunni mun því heyrast í nokkrum færslum. Tekið var uppí 24bit/44Khz á Olympus LS10 og MMaudio Binaural hljóðnema.
Sækja Mp3 skrá.  (192kbps / 26,7Mb)

Read Full Post »

Skálholt77-78 (28)

Þá er komið að því að setja fyrsta efnið inn á vefinn. Hér er á ferðinni upptaka frá því 1978. Sá sem syngur er Þorleifur Magnús Magnússon (Brói), sonur Laufeyjar Jakobsdóttur, “Ömmu” í Grjótaþorpi, sem bjargaði mörgum ofurölvi unglingnum á þessum árum.  Upptakan er líklega frá því í febrúar 1978 og tekin upp í Skálholtsskóla þar sem við báðir, Brói og ég, stunduðum nám veturinn 1977-1978. Tekið var upp á Kenwood KX520 kassettutæki með dynamískum Kenwood MC501 hljóðnemum. Á þessum árum voru kassettur mjög dýrar. Því var oftast nær tekið upp á mjög lélegar kassettur eins og heyra má á upptökunni.

Sækja MP3 skrá (128kbps / 5mb)

Read Full Post »

« Newer Posts