Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Fuglasöngur’

Mér hefur gengið erfiðlega að ná upptökum af svartþresti sem helgað hefur sér svæði í næsta garði við húsið mitt. Hvert skipti sem ég læðist út með upptökutækin heyrast viðvörunarhljóð og hann lætur sig hverfa. Yfirleitt tekur hann þá með sér aðra fugla svo garðurinn og næsta nágrenni verður fuglalaus jafnvel sólarhringum saman. Mér tókst þó á laugardegi að skjótast út með tækin og taka upp lítilsháttar fuglaþing. Það fjaraði þó fljótlega út eins og annað eftir að upptaka hófst. Í fjarska, í u.þ.b. 200-300 metra fjarlægð var einmana hrafn hugsanlega að biðla til maka. Varla mætti það seinna vera því þetta er sá tími sem hrafninn ætti að vera í bullandi tilhugalífi. Varptími hanns er upp úr miðjum apríl fram í byrjun maí.
Í upptökunni má heyra hvernig fuglasöngurinn fjarar út en í staðinn má heyra vængjaþyt. Fyrir utan stanslausan bílanið má heyra í bjöllu kattar, strengjaslátt fánastangar, börn á hlaupum á milli húsa og hurðaskelli svo fátt eitt sé nefnt.
Tekið var upp í  24bit/44Khz  á Olympus LS10 með Telinga parabólu. Í henni voru MMaudio lavalier sterio hljóðnemar. Notast þurfti við lágtíðnisíu á 82Hz til að lækka í þrúgandi bílaumferð og lítilsháttar vindkviðum sem komu af og til. Myndin er tekin á upptökustað
Sækja skrá.  (192kbps/21Mb)

Read Full Post »

Á Seltjarnarnesi er að finna kríuvarp sem laðar að sér ýmsa fugla s.s. grágæsir, spóa, hrossagauka og golfara. Er þetta nes eitt af náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins, ekki síst vegna fjölskrúðugs fuglalífs. Það er líklegt að þessi náttúruperla væri ekki til ef á nesinu væri ekki víðáttumikill golfvöllur. Ólíkt golfvöllum sunnar á jörðinni, þá geta íslenskir golfvellir beinlínis bætt aðbúnað manna og dýra í sátt við náttúruna. Ekki þarf að sólunda dýrmætu vatni til að vökva íslenska golfvelli og á meðan golf er talin sem góð og gild snobbíþrótt verður ekki byggt og malbikað á slíkum stöðum. Dýra- og fuglalíf verður því nokkuð fjölskrúðugt þó innan borgarmarka sé.
Upptakan sem hér má heyra var tekin upp undir miðju skýlinu sem sjá má á myndinni, milli kl 9:00 og 10:00, 17. júní 2009. Tekið var upp í 192Khz /24bit á Korg MR1000 með ME62 hljóðnema sem vísuðu 90° hvor frá öðrum út á völlinn.
Vara skal við þeim hvellum sem heyrast í upptökunni. Þeir geta sprengt hátalara. Ekki er vitað hverjir þeir menn eru sem tala í upptökunni og líklegt að þeir hafi aldrei vitað að upptaka hafi farið fram. Hér er tilvalin upptaka fyrir gólfara sem bíða spenntir eftir sumrinu.
Sækja mp3 skrá (192kbps / 30,3Mb)

Read Full Post »

Það var líklega um hvítasunnu 1985 sem við fórum nokkur saman í tjaldútilegu að Laugarvatni. Að sjálfsögðu hafði ég með mér Sony TC-D5 upptökutæki og ME20 hljóðnema. Þegar klukkan var farin að nálgast 4 að morgni rölti ég til suðurs frá tjaldsvæðinu austur af Laugarvatni og hóf upptöku líklega um 500 metra frá veginum. Á meðan á því stóð steinsofnaði ég á milli þúfna.
Hér er á ferðinni mjög lágstemmd upptaka sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir mér sem borgarbúa, er þessi samsetning fuglasöngs ein sú besta sem völ er á.  Mér hefur oft gengið illa síðustu ár að ná hljóðum í spóa án þess að hann hafi gefið frá sér viðvörunarhljóð. Sama gildir um vængjaþytinn í hrossagauk. Hann er ekki að finna hvar sem er.  Hér eru bæði spóar og hrossagaukar í sínu besta skapi en á móti virðist sem ég hafi verið mjög nærri hreiðri músarindils. Hvell viðvörunartíst frá honum skera svolítið í eyrun. Ekki síst þar sem upptökutæki þessa tíma ráða ekki vel við þessa háu tíðni. Músarindillinn skoppar hér á milli greina í lágu kjarri sem þá mátti finna á einstaka stað á þessu svæði. Heyra má í öðrum fuglum eins og þröstum og hröfnum. Tekið var upp á TDK MA90 kassettu. Er það líklega henni að þakka að upptakan hefur geymst svona vel í öll þessi ár. Öll upptakan er nú yfirfærð í 24bita og 48Khz.
Myndin er frá Laugarvatni og frá svipuðum tíma og þegar upptakan fór fram. Upptökustaðurinn var nærri kjarrinu sem sjá má lengst til hægri á myndinni. Á myndinni má líka sjá gamla gufubaðið á Laugarvatni, sem var alveg einstakt á heimsvísu, en sauðheimskum kapitalistum tókst að rífa það rétt fyrir hrun. Þeir höfðu hugmyndir um að reysa þar andstyggilegt nútímabaðhús svo hægt væri að féfletta almenning með einhverjum “2007 glæsileika”. Vonandi hafa heimamenn rænu á því að endurreisa gömlu gufuna svo hún verði aftur aðgengileg almenningi.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 23Mb)

Read Full Post »

Barðaströnd sumarið 2008

Í lok júní 2008 dvaldist ég um vikutíma við Bjarkarholt við minni Mórudals á Barðaströnd. Var það ákaflega rólegur tími enda ekki mikil bílaumferð eftir Barðastrandarvegi (62). Þann 24 júní vaknaði ég um kl. 6 til að hljóðrita fyrir utan hús. Mikið var um mófugla, vaðfugla og spörfugla. Uppi í klettum fjallanna umhverfis mátti greinilega heyra mikið mávahjal. Má greinilega heyra hvað það eru mikil lífsgæði að hafa ekki bíla í sínu nánasta umhverfi.
Hér er á ferðinni mjög lágstemmd upptaka. Það gæti því þurft að hækka svolítið þegar hlustað er á hana. Þetta er líklega síðasta upptakan sem ég tók upp á Sony TC-D5M kassettutækið áður en ég fór að tileinka mér stafræna upptökutækni. Það má því heyra talsvert grunnsuð en það suð mælist u.þ.b. -60 db í kassettutækjum á meðan það er rúmlega -100 db á stafrænum tækjum. Tekið var upp á That´s MR-X90pro metal kassettu. Hljóðnemar voru Sennheiser ME62 og snúrur 1,5 metra langar CAT6 strengir. Heildarlengd upptökunnar eru 45 mínútur. Nú er hún komin í stafrænt form, 44.1 kHz / 16 bit. Myndin er tekin rétt hjá þeim stað þar sem upptakan fór fram.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 15,5Mb)

Read Full Post »

vesturdalur600

Það var heiðskírt og sólin var að gægjast upp fyrir sjóndeildarhringinn við Jökulsárgljúfur. Klukkan var 4:30 12.júlí 2009. Í Vesturdal liðast lítill, tær lækur í átt að Jökulsá á leið sinni til sjávar. Ofar í dalnum sváfu allir fasta svefni á tjaldsvæðinu. Það ríkti því dásamleg þögn.  Aðeins heyrðist seytlið í læknum og einstaka tíst í fuglum. Tekið var upp á Korg MR1000 í 24 bit/198 kHz. Hljóðnemar voru tveir Sennheiser  ME62 í 80° horni. Snúrur voru CAT6 1,5 metrar. Heildarlengd upptökunnar er 45 mínútur. Myndin er tekin á upptökustað

Sækja MP3 skrá (128kbps / 5mb)

Read Full Post »

« Newer Posts