Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Óflokkað’ Category

Sundahöfn við upptökustað

Fimmtudaginn 30. desember 2010 dýfði ég hljóðnemum í sjóinn í Sundahöfn. Ekki var við neinu merkilegu að búast. Þrjú skip voru í höfn, Wilson Brugge, Dettifoss og Goðafoss. Vélahljóð frá ljósavélum yfirgnæfði allt. Heyra mátti að dælur fóru í gang í skipunum og einstaka bank, líklega þegar einhverju var slegið utan í skipssíðuna. Í gegn um háfaðan má svo greina nokkra skelli sem liklega koma frá einhverri skel, hugsanlega kræklingi. Það var ekki fyrr en heim var komið og Spectrogram forrit hafði gert hljóðritið sýnilegt að það sást eitthvert undarlegt hljóð á 50Khz.
Þess skal getið, að börn með bestu heyrn ná líklega upp í 22Khz og miðaldra fólk yfirleitt ekki hærra en 14Khz. Þarna var því eitthvað sem var langt fyrir ofan heyranlega tíðni. Hljóðið var mjög reglulegt og aðeins bundið við afmarkaða tíðni eða á milli 48Khz til 51Khz. Var því óhugsandi að þetta kæmi frá einhverri skepnu. Það var því líklegt að einhver hefði gleymt að slökkva á dýptarmæli í þetta sinn. Miðað við stefnu virtist það koma frá Wilson Brugge.
Hljóðið var nokkuð áhugavert. Ég  ákvað því að nota tæknina til að gera hljóðið heyranlegt. Til þess þurfti að hreinsa út öll önnur hljóð og suð fyrir ofan og neðan 50 khz. Þá var tíðnin lækkuð með hraðabreyti þar til hljóðið var komið í 4khz. Við þetta lækkaði líka tifhraði hljóðsins svo nú heyrist tíst með löngu millibili í stað þess að vera u.þ.b. eitt á sekúndu.

_____________________________________

Undersea recording in Sundahöfn harbor.
Most of the audible sound was a noise from Motor Generators in the ships. When the recording was viewed in Spectrogram it was a notible 50kHz Echo Sounder signal.
Using pitch control the signal was downgraded to audible 4kHz. At the same time, all other sounds from ships engine and „digital sampling noise“ above 75kHz was erased.

Recorder: Korg MR1000  24bit/192khz
Mic: Aquarian H2a-XLR Hydrophone.
Pic: Canon 30D  (see more pictures and spectrogram)

Audible sound pollution in the Harbor.

Sækja mp3 skrá ( 192kbps / 4Mb )

Echo Sounder at 4kHz  (very slow activity).

Sækja mp3 skrá ( 192kbps / 5Mb )

Read Full Post »

Ekki er auðvelt að nálgast samanburð á hljóðnemum á netinu. Það er því ekkert grín þegar til stendur að fjárfesta í einhverjum slíkum. Sjálfur hef ég verið að leita að góðum og fyrirferðarlitlum MS hljóðnema. Flestir sem eiga að uppfylla þær kröfur eru ekki gefnir. Hvort sem MS uppsetningin muni samanstanda af tveimur hljóðnemum eða einum, þá er líklega Shure VP 88 nokkuð þekktur sem ódýr MS/steríó hljóðnemi. Þó hann sé mikill hlunkur þá freistar verðið til þess að honum sé gaumur gefinn. Í safni mínu er að finna Rode NT4 steríó hljóðnema sem er ögn ódýrari en Shure VP88. Hann er talinn nokkuð góður þó ég telji þrönga steríómyndina takmarka notkun hans.
Á dögunum fékk ég að prófa VP88. Við fyrstu kynni varð mér ljóst að ég var ekki að kynnast tímamótahljóðnema. Ég stillti hann á víða steríómynd og prófaði hann samhliða NT4. Stillti ég þeim báðum á sama stað á borði þar sem þeir lágu á púða. Í herberginu var lágt stillt útvarp í gangi í um þriggja metra fjarlægð. Veggklukka tifaði á vegg í tveggja metra fjarlægð og kæliskápur var í gangi í þriggja metra fjarlægð.
Hljóðnemarnir voru báðir tengdir við Sound device 305 formagnara þar sem slökt var á hljóðsíum og styrkur hafður í botni til að fá fram grunnsuðið. Tekið var upp á Korg MR1000 upptökutæki.
Sjálfur kynni ég svo hljóðnemana þar sem ég sit einn metra fyrir aftan þá.
Hljóðdæmið gefur ekki fullkomna mynd af þessum tveimur hljóðnemum en segir þó til um suð og næmni.

English summation:

Rode NT4 and Shure VP88 was placed in the same place. Connected to Sound device 305 preamp. All filters at zero and gain and faders at 100%.
You shold hear the radio at low level (3 meters away), clock on a wall (2 meters) and a refrigerator (3 meters)
This is not a perfect test, but will give some information about noise and sensitivity between this two mics.

Sækja mp3 skrá.   (192kbps / 1,83Mb)

Read Full Post »

Vorið 2007 kom öflugasti krani Íslands til landsins. Er hann af gerðinni Gottwald HMK6407 og gegnir nafninu Jötunn. Vegur hann 420 tonn með lyftigetu 110 tonn á 22 radius-metrum og 40 tonn á 51 metrum. Sjálfur skagar hann u.þ.b. upp í 80 metra hæð með fullreista bómu. Hann getur því tekið á sig talsverðan vind þótt hann sé með grindarbómu.
Þá fáu daga sem vindur hreyfist í Reykjavík má heyra mikinn hvin við hafnarkranana. Þann 21. janúar 2010 gerði svolítið rok, en þó ekki meira en svo að hægt var að fara upp í  Jötun án þess að fjúka af 5 metra háum undirvagni hanns. Í turni kranans er nokkuð hár stigagangur sem liggur að stjórnklefanum. Á þennan turn spilar vindurinn oft á tíðum fjölskrúðugt tónverk í bland við mismunandi titring á þennan heljarmikla járnmassa. Upplifunin getur því verið eins og í góðu THX bíói.
Því miður er ekki hægt að skila þessum titringi í gegnum hljóðupptökuna en þegar upptakan fór fram tók turninn oft upp á því að titra á lágri tíðni í hressilegustu hviðunum. Í upptökunni má heyra það helst í bassanum en önnur hljóð koma líklega frá bómu, handriði, vírum og kösturum utandyra.
Þegar vindur er sem minnstur má heyra í loftræstikerfi töfluklefans sem staðsettur er u.þ.b. 15 metrum fyrir neðan upptökustað.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz með MMaudio hljóðnema og tækið látið ganga í klukkutíma.
Veðurhæðin hafði talsvert gengið niður þegar upptakan fór fram. Vindurinn hafði reyndar ekki verið meiri en svo að ekket hafði fokið á Sundahafnarsvæðnu þennan dag. Það verður því gerð önnur tilraun til að taka upp á sama stað í verra veðri.
Myndin er af stigaganginum en upptakan fór fram í eftsu tröppum.
Sækja MP3 skrá.  (192kbps / 24,3Mb)

Read Full Post »

Rofagámur í Jaka

Tuttugu og fimm ár eru liðin frá því að fyrsti gámakrani Eimskipafélagsins í Sundahöfn, var vígður við hátíðlega athöfn. Kraninn var reistur sumarið 1984 og var ákveðið að hann skyldi hljóta nafnið „Jakinn“. Með nafninu var verið að heiðra Guðmund J. Guðmundsson, fyrrum formann Dagsbrúnar, sem áratugum saman hafði verið í forystu fyrir reykvíska hafnarverkamenn og hafði hlotið viðurnefnið „Jaki“, sennilega vegna þess að millinafn hans var ávallt stytt með bókstafnum J eingöngu. Í frétt Morgunblaðsins um nafngiftina sagði meðal annars árið 1984: “Hlýtur það að teljast réttnefni því að með krananum er hægt að lyfta 32,5 tonnum í hverri færslu. Reiknað er með að full afkastageta verði 20-30 gámar á klukkustund”. Jakinn er 53 metra hár, vegur 450 tonn og hefur lyft tæplega einni og hálfri milljón gáma á þessum árum, eða sem nemur tæplega fimm gámum á hvern núlifandi Íslending. Með tilkomu hans tók gámavæðing íslenskra skipaflutninga mikið stökk.
Þó að 25 ár séu ekki langur tími er það þó langur tími í þróun hafnarkrana. Rafstýring „Jakans“ byggist á Ward-Leonard DC (rakstraums) stýringum. Afl hans er 0,5MW. Í dag eru hafnarkranar tölvustýrðir með PLC stýrieiningum og hraðabreytum. Ekki þykir óeðlilegt að þeir geti lyft rúmlega 100 tonnum og afl þeirra getur farið upp í 3MW.
Upptakan sem hér er að finna var gerð í gámi inni í vélahúsi „Jakans“. Þar er allur stýribúnaður hans sem byggist á mörgum spólurofum og stórum DC-rofum (rakstraumsrofum). Hljóðdæmið lýsir ágætlega ótal rofasmellum sem fylgja því að færa einn gám frá vagni yfir í skip og aftur í land. Tekið var upp í 44.1 kHz/16 bit með Rode NT2A hljóðnemum. Ljósmyndin var tekin við þetta tækifæri.
Sækja Mp3 skrá (192kbps / 4,3Mb)

Read Full Post »

Það hefur tekið þó nokkurn tíma að koma þessari síðu af stað. Aðallega er það vegna leti, þó hefur nú blessuð „kreppan“ gefið mér tíma til að sinna áhugamálum fremur en eintómu brauðstriti. Vefsíðan mun útvarpa og birta myndir af því í mannlíf, umhverfi og náttúra hefur upp á að bjóða. Hversdagslegustu hlutir geta oft á tíðum verið afar merkilegir ef við gefum okkur aðeins tíma til að nota skynfærin. Ég vona því að Hljóðmynd muni gefa einhverjum tilefni til að staldra við og njóta.

Read Full Post »

« Newer Posts