Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Korg MR1000’

P1010236_Thjodfundur

Efnt var til Þjóðfundar 14. nóvember 2009 í Laugardalshöll. Í heilan dag vann mikill fjöldi fólks að því að reyna að bæta íslenskt samfélag með skapandi hugmyndavinnu. Umfjöllunarefnið var m.a. lýðræði, heiðarleiki, velferð, virðing, ábyrgð, sjálfbærni, kærleikur, frelsi, jöfnuður, fjölskyldan, atvinnulíf, menntamál, umhverfismál, samfélag og stjórnsýsla. Á fundinn kom 1231 þátttakandi, og var fundurinn í alla staði ákaflega vel skipulagður nema að einu leyti. Þegar upptakan fór fram kl 15:00, stóð vinna sem hæst við öll borð, en fyrir utan Höllina voru nokkrir leðurklæddir lögregluþjónar í óðaönn að skrifa sektarmiða á tugi, ef ekki hundruð bíla, sem lagt hafði verið út um allar koppagrundir í Laugardalnum. Þeir sem stóðu að undirbúningi Þjóðfundar, höfðu greinilega ekki tekið með í reikninginn að 1231 íslendingum fylgdu ámóta margir bílar. Almennt sagt, má gera alla hluti betur næst. Það má því senda playstationleik niður á lögreglustöð næst þegar blásið verður til Þjóðfundar. Það lýsir líklega þjóðarsálinni best að aðeins 19 reiðhjól stóðu fyrir utan Höllina meðan á fundinum stóð. Einkennilegt, þar sem úti ríkti einstök veðurblíða, og væntanlega voru flestir þátttakendur af höfuðborgarsvæðinu. Það var því ekki sjálfbær eða vistvænn hópur, sem þarna fundaði. Upptakan fór fram með þeim hætti að genginn var einn hringur um salinn með Rode NT4 hljóðnema. Tekið var upp í 24bit / 192kHz WAV sniði á Korg MR1000.Myndin er tekin á Þjóðfundinum.

Sækja MP3 krá (192kbps / 5,3Mb)

Read Full Post »

Horft frá Skeljanesi
Rétt sunnan við Skeljanes í Skerjafirði er lítil vík. Í upphafi síðari heimsstyrjaldar á síðustu öld kom breski herinn þar fyrir viðlegukanti í tengslum við lagningu flugvallarins í Vatnsmýri. Síðar hafði olíufélagið Shell þar birgðaaðstöðu og olíugeyma sína. Í dag hefur Shell flust út í Örfirisey og því er þarna að finna litið spillta fjöru þar sem mannvirki hafa hægt og sígandi verið að hverfa í tímans rás. Þar sem ein braut flugvallarins nær þarna út að sjó hefur ekki verið lagður bílvegur fyrir enda hennar með fjöruborðinu. Óvenju hljótt er því á þessum stað miðað við ýmsa staði í nágrenni Reykjavíkur. Þó má greina þungan nið bílaumferðarinnar sem hávært grunnsuð. Hávaðinn frá bílaumferð í borginni er reyndar slíkur að hann má greina við Bláfjöll og Hengil.  Fáir veita þessum hávaða athygli. Meðvitað og ómeðvitað er þessi hávaði þó ein ástæða þess að marga dreymir um að eiga sumarbústað langt utan borgarmarkanna til þess eins að njóta kyrrðar.  Talið er að hávaði sem fylgir bílaumferð sé einn helsti streituvaldur nútímans á Vesturlöndum.
Við upptöku þessarar hljóðritunar var nauðsynlegt að nota lágtíðnisíur til þess að draga niður í lægstu tíðninni frá umferðinni sem fáir heyra en hefur truflandi áhrif á upptökur.
Upptakan fór fram 25. janúar 2009 kl. 22:30.  Hljóðnemum var stillt upp í flæðarmálinu og má heyra að hægt og rólega fjarar undan þeim. Tekið var upp í DSD 1 Bit/5,644 MHz, með Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni.
Myndin er tekin í umræddri fjöru. Horft er til suðurs á Kársnes.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 20,8Mb)

Read Full Post »

Rofagámur í Jaka

Tuttugu og fimm ár eru liðin frá því að fyrsti gámakrani Eimskipafélagsins í Sundahöfn, var vígður við hátíðlega athöfn. Kraninn var reistur sumarið 1984 og var ákveðið að hann skyldi hljóta nafnið „Jakinn“. Með nafninu var verið að heiðra Guðmund J. Guðmundsson, fyrrum formann Dagsbrúnar, sem áratugum saman hafði verið í forystu fyrir reykvíska hafnarverkamenn og hafði hlotið viðurnefnið „Jaki“, sennilega vegna þess að millinafn hans var ávallt stytt með bókstafnum J eingöngu. Í frétt Morgunblaðsins um nafngiftina sagði meðal annars árið 1984: “Hlýtur það að teljast réttnefni því að með krananum er hægt að lyfta 32,5 tonnum í hverri færslu. Reiknað er með að full afkastageta verði 20-30 gámar á klukkustund”. Jakinn er 53 metra hár, vegur 450 tonn og hefur lyft tæplega einni og hálfri milljón gáma á þessum árum, eða sem nemur tæplega fimm gámum á hvern núlifandi Íslending. Með tilkomu hans tók gámavæðing íslenskra skipaflutninga mikið stökk.
Þó að 25 ár séu ekki langur tími er það þó langur tími í þróun hafnarkrana. Rafstýring „Jakans“ byggist á Ward-Leonard DC (rakstraums) stýringum. Afl hans er 0,5MW. Í dag eru hafnarkranar tölvustýrðir með PLC stýrieiningum og hraðabreytum. Ekki þykir óeðlilegt að þeir geti lyft rúmlega 100 tonnum og afl þeirra getur farið upp í 3MW.
Upptakan sem hér er að finna var gerð í gámi inni í vélahúsi „Jakans“. Þar er allur stýribúnaður hans sem byggist á mörgum spólurofum og stórum DC-rofum (rakstraumsrofum). Hljóðdæmið lýsir ágætlega ótal rofasmellum sem fylgja því að færa einn gám frá vagni yfir í skip og aftur í land. Tekið var upp í 44.1 kHz/16 bit með Rode NT2A hljóðnemum. Ljósmyndin var tekin við þetta tækifæri.
Sækja Mp3 skrá (192kbps / 4,3Mb)

Read Full Post »

21012009766

Þann 24. janúar 2009 fór ég með hljóðnema niður á Austurvöll og tók upp stemninguna. Ræsti ég tækið austur undir Dómkirkjunni og gekk inn í mannþröngina framan við Alþingishúsið. Þar héldu allir á sér hita með taktföstum búsáhaldaslætti og trylltum vígadansi. Mátti þar m. a. sjá verðandi ráðherra í næstu ríkisstjórn. Upptakan stóð yfir í rúma klukkustund en því miður misheppnaðist hún gersamlega. Aðeins tíu fyrstu mínúturnar voru áheyrilegar. Notast var við Korg MR1000 og tvö stykki Sennheiser ME62 á T-spöng með 90° horn. Eftir fikt kvöldið áður gleymdust í hljóðnemunum ónýtar rafhlöður og þótt kveikt væri á Phantom power á upptökutækinu þá varð það ekki til þess að yfirtaka spennuna frá þessum ónýtu rafhlöðum. Hljóðdæmið hér fyrir neðan er því besti hluti þessarar upptöku. Myndin er tekin á Nokia síma, 21. janúar 2009 við Alþingishúsið rétt fyrir kl. 1. Síðar hefur komið í ljós að á þeirri stundu var lögreglan hársbreidd frá því að ganga til bols og höfuðs á mótmælendum. Það hefði endað með subbulegu blóðbaði.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 17,5mb)

Read Full Post »

« Newer Posts