Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Olympus LS10’

Laugardagur 6. mars 2010 var merkilegur dagur. Þá stóð þjóðin frammi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort breyta ætti lögum um ríkisábyrgð til samræmis við icesave samningana frá því í júní og október 2009. Sama dag stóðu grasrótarhreyfingar fyrir fjöldagöngu frá Hlemmi um Laugaveg að Austurvelli. Mættu þangað um þúsund manns sem stofnuðu Alþingi götunnar.
Hljóðmyndin sem hér má heyra er af stuðningsyfirlýsingum sem borist hafa víða utan úr heimi. Tekið var upp á Olympus LS10 og MMaudio Binaural hljóðnema í 24bit/98Khz.
Umtalsverður vindur var á Austurvelli því þurfti að nota lágtíðnisíu (82Hz). Upptakan er því fremur grunn. Myndin er tekin á NokiaN82 síma frá þeim stað sem upptakan fór fram.
Sækja Mp3 skrá.  (192Kbps / 7,4Mb)

Read Full Post »

Á fimmtudögum mætir fólk með hljóðfæri á veitingahúsið Highlander að Lækjargötu 10 til að spilað af hjartans list, þá helst keltneska tónlist. Þangað mætir alltaf viss kjarni góðra spilara. Þá sýna sig líka byrjendur og þaulvanir snillingar. Það var fremur kalt úti þann 18. febrúar 2010 þegar ég mætti með upptökutæki.  Voru þar mættir fimm hljóðfæraleikarar. Var því fremur fámennt en góðmennt fyrst í stað. Síðar um kvöldið bættist annar við í hópinn sem bæði syngur og flautar lystavel. Verður það efni síðar sett á vefinn. Tekið var upp á Olympus LS10 í 48Khz/24bit. á MMaudio Binaural hljóðnema. Finna má fleiri upptökur frá veitingastaðnum Highlander á þessum vef.  Hljóðmyndin tekur 32 mínútur í spilun.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 45mb)

Read Full Post »

Vorið 2007 kom öflugasti krani Íslands til landsins. Er hann af gerðinni Gottwald HMK6407 og gegnir nafninu Jötunn. Vegur hann 420 tonn með lyftigetu 110 tonn á 22 radius-metrum og 40 tonn á 51 metrum. Sjálfur skagar hann u.þ.b. upp í 80 metra hæð með fullreista bómu. Hann getur því tekið á sig talsverðan vind þótt hann sé með grindarbómu.
Þá fáu daga sem vindur hreyfist í Reykjavík má heyra mikinn hvin við hafnarkranana. Þann 21. janúar 2010 gerði svolítið rok, en þó ekki meira en svo að hægt var að fara upp í  Jötun án þess að fjúka af 5 metra háum undirvagni hanns. Í turni kranans er nokkuð hár stigagangur sem liggur að stjórnklefanum. Á þennan turn spilar vindurinn oft á tíðum fjölskrúðugt tónverk í bland við mismunandi titring á þennan heljarmikla járnmassa. Upplifunin getur því verið eins og í góðu THX bíói.
Því miður er ekki hægt að skila þessum titringi í gegnum hljóðupptökuna en þegar upptakan fór fram tók turninn oft upp á því að titra á lágri tíðni í hressilegustu hviðunum. Í upptökunni má heyra það helst í bassanum en önnur hljóð koma líklega frá bómu, handriði, vírum og kösturum utandyra.
Þegar vindur er sem minnstur má heyra í loftræstikerfi töfluklefans sem staðsettur er u.þ.b. 15 metrum fyrir neðan upptökustað.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz með MMaudio hljóðnema og tækið látið ganga í klukkutíma.
Veðurhæðin hafði talsvert gengið niður þegar upptakan fór fram. Vindurinn hafði reyndar ekki verið meiri en svo að ekket hafði fokið á Sundahafnarsvæðnu þennan dag. Það verður því gerð önnur tilraun til að taka upp á sama stað í verra veðri.
Myndin er af stigaganginum en upptakan fór fram í eftsu tröppum.
Sækja MP3 skrá.  (192kbps / 24,3Mb)

Read Full Post »

Húsið byggði Þorsteinn Tómasson járnsmiður á árunum 1877-1878, á lóð norðan við bæinn Lækjarkot. Steinsmiðirnir Jónas og Magnús Guðbrandssynir hlóðu húsið og eru líklega einnig höfundar þess. Húsið var allt hlaðið úr íslensku grágrýti sem fengið var úr Skólavörðuholti, en kalkið til bindingar kom úr Esjunni. Er þetta eitt elsta íbúðarhúsið úr slíku byggingarefni í borginni. Árið 1884 var húsið lengt til suðurs og gerður inngangur með steintröppum á austurhlið. Einnig var þá búið að gera inngönguskúr úr grjóti við vesturhlið, en fyrir var inngangur á norðurgafli. Eftir það voru tvær íbúðir í húsinu og ekki innangengt milli þeirra. Árið 1905 var búið að setja kvist í gegnum húsið og þá voru komnir á það tveir inngönguskúrar, báðir við vesturhlið. Einhvern tímann síðar hefur kjallaraglugga verið breytt í dyr, en að öðru leyti er húsið lítið breytt.
Afkomendur Þorsteins Tómassonar bjuggu í húsinu fram yfir 1980 en þar hófu einnig rekstur nokkur fyrirtæki sem enn eru starfandi. Árið 1879 var Ísafoldarprentsmiðja þar til húsa og var þá sett þar upp fyrsta hraðpressan hérlendis. Breiðfjörðsblikksmiðja hóf starfsemi í húsinu árið 1902 og Sindri árið 1924. Árin 1904-1922 var verslunin Breiðablik í kjallara hússins en síðar var þar skóvinnustofa. Árið 1991 var húsið friðað að ytra byrði og hafa síðan verið gerðar ýmsar endurbætur sem hafa m.a. miðað að því að færa glugga til upprunalegs horfs. Einnig hafa verið gerðar nokkrar breytingar innanhúss og íbúðarhúsnæðinu verið breytt í veitingahús undir nafninu Highlander.
Á fimmtudögum hin síðustu misseri, hafa nokkrir tónlistarmenn haft þar „open session“, þar sem spiluð er t.d. keltnesk tónlist. Þegar ég kom þangað 29. janúar 2010 var samankominn fjöldi hljóðfæaraleikara frá ýmsum löndum. Fyrir utan Íslendingana voru komnir þar hljóðfæraleikarar frá Írlandi, Skotlandi og Noregi. Upptakan byrjar í miklu svaldri þar sem húsið var fullt af gestum.
Þá rúma tvo tíma sem upptakan stóð yfir minnkaði skvaldrið og ég komst nær hljóðfærunum og tónlistin varð greinilegri. Það sem hér má heyra eru aðeins fyrstu 19 mínúturnar í talsverðu skvaldri. Afgangurinn af upptökunni mun því heyrast í nokkrum færslum. Tekið var uppí 24bit/44Khz á Olympus LS10 og MMaudio Binaural hljóðnema.
Sækja Mp3 skrá.  (192kbps / 26,7Mb)

Read Full Post »

Deila má um áhrif verslunarmiðstöðva á samfélagið og hvernig þær eru tilkomnar. Víst er að þær hafa drepið kaupmanninn á horninu og að þær eru byggðar af auðhringjum sem ætla sér að græða. Verslunarmiðstöðvar eru tilkomnar vegna samgöngustefnu yfirvalda. Allir verða að eignast bíl. Er því hiklaust logið að fólki að bíll sé nauðsynlegur um leið og stjórnvöld byggja sífellt fyrirferðarmeiri bílamannvirki. Er það gert á kostnað annarra samgangna svo að á endanum hefur fólk aðeins einn kost og það er að fara ferða sinna á einkabílum.
Hverjum er svo sem ekki sama. Bíllinn er diggur þjónn letinnar.
Fyrst fólk er á annað borð komið í bílinn þá gengur það ekki á inniskónum til kaupmannsins á horninu til að kaupa einn lítra af mjólk heldur ekur það 10 km í næstu verslunarmiðstöð, kaupir þar einn lítra af mjólk og ýmislegt annað sem það hefur jafnvel ekki þörf á. Andlit verslunarmiðstöðva eru víðáttumikil bílastæði eða klunnaleg bílastæðahús. Þangað fer því enginn nema á bíl.
Þegar inn er komið gerist það undraverða. Fólk losnar við púströrsfnikinn og hávaðann frá bílaumferðinni um leið og það fullnægir kaupgleðinni.
Veslunarmiðstöðvar eiga því stóran þátt í að eyðileggja vistvæna skipulagsheildir þéttbýlissvæða. Þær hvetja til aukinnar neyslu og til notkunar einkabíla sem hefur svo á allan hátt mjög skaðleg áhrif á borgarsamfélög.
Upptakan sem hér má heyra, var gerð fyrir miðju húsi á efri hæð Kringlunar, sama dag og forsetinn Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta icesave lögin frá Alþingi. Fyrir utan fótatak og spjall fólks má einnig heyra í vinnuliftu sem starfsmenn Kringlunar notuðu til að taka niður jólaskraut.
Upptakan er gerð á Olympus LS10 í 24bit / 96Khz með MMaudio lavalier hljóðnemum sem festir voru á gleraugnaspangir mínar við eyrun (Binaural upptaka).
Myndin er tekin á Nokia síma á meðan á upptökum stóð.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 17Mb)

Read Full Post »

Þegar ég var á barnsaldri var sjónvarp vart til á heimilum fólks. Tölvur voru svo í besta falli skilgreindar í mjög furðulegum vísindaskáldsögum.
Fyrir utan boltaleiki, sleðaskak, hornsílaveiði og dúfnarækt voru leikir því oft á tíðum “raunveruleika-leikir”. Lítið samfélag þar sem  finna mátti kaupmann, lækni, bónda, bílstjóra, gröfustjóra og heimavinnandi húsmóður. Þegar Víetnamstríðið komst svo í algleyming urðu stríðsleikir enn algengari þar sem barist var með heimasmíðuðum trébyssum.
Leikir voru í flestum tilfellum utandyra þar sem bílar ógnuðu ekki tilvist barna með sama hætti og í dag. Börn gátu því fengið nauðsynlega útrás með mikilli hreyfingu.
Í dag er börnum helst ekki hleypt út nema af “óábyrgum” foreldrum. Foreldrar kjósa helst að kyrrsetja börnin fyrir framan sjónvarp eða tölvur. Fylgikvillum hreyfingarleysis er svo oft á tíðum eytt með lyfjagjöfum.
Greinilega má heyra í leikjum barna að heimur þeirra er mótaður af kvikmyndum, tölvuleikjum og ýmsum vel markaðssettum plastleikföngum.
Hljóðdæmið sem hér má heyra er af syni mínum og tveimur frændum hans að leika sér með Bionicle stríðskörlum. Upptakan fór fram án þeirrar vitundar.
Tekið var upp á Olympus LS10 og á innbyggðu hljóðnemana í 16bit / 44,1Khz
Myndin er tekin af Bionicle leikföngum í skammarlega plastvæddu herbergi sonar míns.
Sækja Mp3 skrá.  (192kbps / 8,4Mb)

Read Full Post »

ovedur

Þann 11.desember 2008 gerði suðaustan hvell. Fylgdi þessu mikil rigning með mjög snörpum vindhviðum. Hófst veðrið um kl 18 og var því lokið um miðnætti. Milli kl 21:30 og 22 fór ég út á Sundahafnarsvæðið á verkstæðisbílnum og hljóðritaði ósköpin inni í bílnum.  Gámastæður höfðu fokið eins og pappakassar með tilheyrandi tjóni, þakklæðing á Vöruhóteli Eimskips hafði einnig skemmst. Þá var gámasvæðið allt meira og minna á floti þar sem niðurföllin höfðu ekki undan að svelgja regnvatnið. Það var því bæði hættulegt og skuggalegt að fara út í þennan veðurofsa. Upptakan er gerð á Olympus LS10 og á innbyggðu hljóðnemana í 44,1 kHz /16 bit sniði. Myndin er tekin í Sundahöfn við svipaðar veðuraðstæður.

Sækja MP3 skrá (128kbps / 4,6Mb)

Read Full Post »

« Newer Posts