Nú er vika liðin frá útgáfu Hrunaskýrslunar. Tók nokkurn veginn sex sólarhringa að lesa hana. Lýsir hún ótrúlega vel afglöpum, fávitaskap og stjórnleysi sem og græðgi íslenskra broddborgara. Voru það leikarar í Borgarleikhúsinu sem tóku að sér þennan lestur. Þó mikið af þessum lestri teljist leiðindamas þá má líka finna mörg gullkorn sem hafa skemmtanagildi. Skýrslan birti ekki bara þurrar hagtölur, heldur var orðalag ýmissa hrunameistara úr yfirheyrslum settar beint fram í skýrsluni. Skýrslan er því á köflum eins og skemmtilegur reifari eða farsi.
Ég mætti í Borgarleikhúsið á laugardagskvöldi u.þ.b. 6 klukkustundum áður en lestri lauk. Nokkrir áheyrendur voru á staðnum og má heyra þá flissa á völdum stöðum í lestrinum og vera á rápi. Þá má heyra í bakgrunni tónlist frá yfirstandandi leiksýningu. Sá sem fyrst les í þessari hljóðmynd er Hallur Ingþórsson síðan tekur Jón Páll við. Upplesturinn er fremur gjallandi. Stafar það af því að lesturinn var magnaður fram í hátalara. Hefst hljóðmyndin á því að ég geng utan frá andyri leikhússins inn í herbergið þar sem lesturinn fór framm. Staldra þar við í 24 mínútur og geng þaðan út aftur.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz. Hljóðnemar voru MMaudio binaural.
Einu og hálfu ári frá bankahruninu hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar. Helmingur íslensku þjóðarinnar hefur alla tíð verið í bullandi afneitun og aldrei trúað því sem gerðist í október 2008. Í stjórnleysinu sem ríkt hefur bæði fyrir og eftir hrun hefur fjöldi fólks stundað rányrkju og annað svínarí í sinni einlægu græðgi.
En mánudaginn 12. apríl 2010 kl. 10:30 var afrakstur Rannsóknarnefndar Alþingis gefinn út í nærri 3000 síðna hrunaskýrslu. Hrunameistarinn og frjálhyggjupostulinn Davíð Oddson var þá flúinn land með öðrum skúrkum sem sumir, dagana áður, hreynsuðu hundruð milljónir króna af reikningum til að koma þeim undan réttvísinni
Hljóðmyndin sem hér heyrist var tekin upp fyrir framan Alþingishúsið síðdegis 22. janúar 2009, daginn eftir þá örlagaríku nótt þar sem minnstu munaði að götur Reykjavíkur hefðu verið þaktar blóði. Er hún ágætis dæmi um búsáhaldabyltinguna þegar hún lét hæst að sér kveða. Ef allt þetta skynsama fólk hefði ekki flykkst út á götur og mótmælt með þessum hætti þá hefðu allir hrunameistar Landráðaflokkana setið áfram við völd eins og ekkert hefði í skorist. Að sama skapi er óvíst hvort hrunaskýrslan hefði nokkurn tíma litið dagsins ljós.
Tekið var upp í DSF sniði 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 með Sennheiser ME62 sem mynduðu 90°horn á T-stöng. Upptakan hefst þar sem komið er frá Dómkirkjuni. Farið er inn í mannþröngina framan við Alþingishúsið, gengnir nokkrir hringir og þaðan frá aftur.
Myndin var tekin sunnudaginn fyrir útgáfu skýrslunnar. Er hún tekin á þeim stað sem upptakan fór fram, framan við Alþingishúsið sem hefur verið vinnustaður mestu og verstu stjórnmálaafglapa Íslandssögunnar. Þá er vert að benda á eldri Hljóðmyndafærslu sem tekin var 24. janúar 2009 sem sýnir að krafan um stjórnarskipti varð sífellt háværari.
Þennan föstudag fyrir tæpum 2000 árum telja kristnir menn að Jesú hafi verið krossfestur. Það var fátt sem minnti á þann atburð 3. apríl 2010 þegar ég var staddur á Ísafirði. Ég gerði mér þó ferð að kirkjugarðinum í Engidal við Skutulsfjörð þar sem finna mátti nokkurt safn af krossum á leiðum kristinna manna. Því má segja að það hafi verið nokkuð táknræn ferð þó tilefnið hafi fyrst og fremst verið að forðast vélarhljóð nærri mannabyggðum.
Mikið vetrarríki ríkti þennan dag með talsverðu frosti. Gekk á með hvössum, dimmum hríðarbyljum og skafrenningi. Það var því ærið tilefni til að reyna að fanga andrúmsloftið í kirkjugarðinum sem eflaust öllum lifandi verum hefði þótt kuldaleg upplifun.
Tekið var upp á Korg MR1000 í 24bit/192Khz. Hljóðnemar voru Sennheiser ME64 í Rode Blimp vindhlífum sem voru í u.þ.b. 80°.
Helst heyrist í vindinum sem leikur um runnahríslur garðsins. Borði á kransi blaktir á nýtekinni gröf og strengur klappar fánastöng í fjarska. Þá sígur hljóðmaður öðru hvoru hor í nös þar sem hann hírist skjálfandi bak við húsvegg kapellunar í garðinum. Það sem líklega heyrist aðeins sem lágvært suð hér á netútgáfu þessarar upptöku eru snjókornin sem strjúkast við snjóbreiðuna í skafrenningnum.
Á meðan á upptöku stóð fennti upptökutækið nærri í kaf. Upptökunni lauk þegar þrífóturinn sem hljóðnemarnir stóðu á fauk um koll. Það er þó ekki látið fylgja hér.
Tvennt var það sem gerðist 21. mars 2010. Þá hófts gos í Eyjafjallajökli og Johann Sebastian Bach (1685-1750) hefði orðið 325 ára gamalla ef honum hefði enst ævin. Þann dag hélt Sinfóníuhljómsveit áhugamannatónleika í Seltjarnarneskirkju og kom Bach þar við sögu. Bach samdi margar kantötur, þ.e. tónverk í nokkrum þáttum með tónlesi á milli. Margar þeirra eru fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit, sumar eingöngu fyrir einsöngvara og hljómsveit. Þær voru flestar samdar fyrir tiltekin tilefni svo sem kirkjuathafnir eða hátíðir. Varðveist hafa 195 kirkjulegar kantötur og allmargar um veraldleg efni. Kantatan númer BWV82, sem hér má heyra seinni hlutann af, var samin í Leipzig þar sem Bach var kantor í Tómasarkirkjunni frá 1723 til dauðadags 1750. Kantorsstaðan var mikil virðingarstaða því kantorinn stýrði öllum tónlistarflutningi í höfuðkirkjum borgarinnar.
Kantatan var samin fyrir kirkjuhátíð 2. febrúar 1727 til að minnast hreinsunar Maríu, þegar hún færði Jesú nýfæddan í musterið í Jerúsalem og færði fórn. Ekki er þó auðvelt að sjá samhengi milli texta kantötunnar og tilefnisins. Verkið er samið fyrir bassasöngvara, óbó og strengjasveit með fylgirödd. Til er seinni útgáfa af kantötunni fyrir sópran, fautu og strengi.
Í textanum er fallað um dauðann og þá hvíld sem hann veitir lífsþreyttum manni.
Tekið var upp í DSD sniði 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 og Sound Device 305, 3ja rása mixer. Notast var við tvo SE-4400a hljóðnema (cardioid) sem staðsettir voru í 2,5 metra hæð yfir miðri hljómsveitinni. Michael syngur hins vegar í Rode NT2000 hljóðnema (fig.8) við hlið stjórnandans.
Það er fremur erfitt að ná góðum upptökum af heilli sinfóníuhljómsveit með aðeins þremur hljóðnemum, ekki síst þegar hljómsveitinni er ekki stillt upp fyrir þessa þrjá hljóðnema. Hér tekst þó hæfilega vel til. Bæði Oliver og Michael gáfu leyfi fyrir því að þessi upptökubútur færi á vefinn.
Mér hefur gengið erfiðlega að ná upptökum af svartþresti sem helgað hefur sér svæði í næsta garði við húsið mitt. Hvert skipti sem ég læðist út með upptökutækin heyrast viðvörunarhljóð og hann lætur sig hverfa. Yfirleitt tekur hann þá með sér aðra fugla svo garðurinn og næsta nágrenni verður fuglalaus jafnvel sólarhringum saman. Mér tókst þó á laugardegi að skjótast út með tækin og taka upp lítilsháttar fuglaþing. Það fjaraði þó fljótlega út eins og annað eftir að upptaka hófst. Í fjarska, í u.þ.b. 200-300 metra fjarlægð var einmana hrafn hugsanlega að biðla til maka. Varla mætti það seinna vera því þetta er sá tími sem hrafninn ætti að vera í bullandi tilhugalífi. Varptími hanns er upp úr miðjum apríl fram í byrjun maí.
Í upptökunni má heyra hvernig fuglasöngurinn fjarar út en í staðinn má heyra vængjaþyt. Fyrir utan stanslausan bílanið má heyra í bjöllu kattar, strengjaslátt fánastangar, börn á hlaupum á milli húsa og hurðaskelli svo fátt eitt sé nefnt.
Tekið var upp í 24bit/44Khz á Olympus LS10 með Telinga parabólu. Í henni voru MMaudio lavalier sterio hljóðnemar. Notast þurfti við lágtíðnisíu á 82Hz til að lækka í þrúgandi bílaumferð og lítilsháttar vindkviðum sem komu af og til. Myndin er tekin á upptökustað
Laugardagur 6. mars 2010 var merkilegur dagur. Þá stóð þjóðin frammi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort breyta ætti lögum um ríkisábyrgð til samræmis við icesave samningana frá því í júní og október 2009. Sama dag stóðu grasrótarhreyfingar fyrir fjöldagöngu frá Hlemmi um Laugaveg að Austurvelli. Mættu þangað um þúsund manns sem stofnuðu Alþingi götunnar.
Hljóðmyndin sem hér má heyra er af stuðningsyfirlýsingum sem borist hafa víða utan úr heimi. Tekið var upp á Olympus LS10 og MMaudio Binaural hljóðnema í 24bit/98Khz.
Umtalsverður vindur var á Austurvelli því þurfti að nota lágtíðnisíu (82Hz). Upptakan er því fremur grunn. Myndin er tekin á NokiaN82 síma frá þeim stað sem upptakan fór fram.
Á fimmtudögum mætir fólk með hljóðfæri á veitingahúsið Highlander að Lækjargötu 10 til að spilað af hjartans list, þá helst keltneska tónlist. Þangað mætir alltaf viss kjarni góðra spilara. Þá sýna sig líka byrjendur og þaulvanir snillingar. Það var fremur kalt úti þann 18. febrúar 2010 þegar ég mætti með upptökutæki. Voru þar mættir fimm hljóðfæraleikarar. Var því fremur fámennt en góðmennt fyrst í stað. Síðar um kvöldið bættist annar við í hópinn sem bæði syngur og flautar lystavel. Verður það efni síðar sett á vefinn. Tekið var upp á Olympus LS10 í 48Khz/24bit. á MMaudio Binaural hljóðnema. Finna má fleiri upptökur frá veitingastaðnum Highlander á þessum vef. Hljóðmyndin tekur 32 mínútur í spilun.
Á Seltjarnarnesi er að finna kríuvarp sem laðar að sér ýmsa fugla s.s. grágæsir, spóa, hrossagauka og golfara. Er þetta nes eitt af náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins, ekki síst vegna fjölskrúðugs fuglalífs. Það er líklegt að þessi náttúruperla væri ekki til ef á nesinu væri ekki víðáttumikill golfvöllur. Ólíkt golfvöllum sunnar á jörðinni, þá geta íslenskir golfvellir beinlínis bætt aðbúnað manna og dýra í sátt við náttúruna. Ekki þarf að sólunda dýrmætu vatni til að vökva íslenska golfvelli og á meðan golf er talin sem góð og gild snobbíþrótt verður ekki byggt og malbikað á slíkum stöðum. Dýra- og fuglalíf verður því nokkuð fjölskrúðugt þó innan borgarmarka sé.
Upptakan sem hér má heyra var tekin upp undir miðju skýlinu sem sjá má á myndinni, milli kl 9:00 og 10:00, 17. júní 2009. Tekið var upp í 192Khz /24bit á Korg MR1000 með ME62 hljóðnema sem vísuðu 90° hvor frá öðrum út á völlinn.
Vara skal við þeim hvellum sem heyrast í upptökunni. Þeir geta sprengt hátalara. Ekki er vitað hverjir þeir menn eru sem tala í upptökunni og líklegt að þeir hafi aldrei vitað að upptaka hafi farið fram. Hér er tilvalin upptaka fyrir gólfara sem bíða spenntir eftir sumrinu.
Snorri Sigfús Birgisson (f. 1945) stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. Þá tók við framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum og tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen og hjá Ton de Leeuw í Amsterdam. Veturinn 1978-79 bjó hann í París og árið eftir í London þar sem hann kenndi á píanó. Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan 1980. Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Hymni fyrir strengjasveit var saminn árið 1982 fyrir Nýju strengjasveitina og frumflutt undir stjórn höfundar á tónleikum í Bústaðakirkju. Verkið samanstendur af 11 köflum sem allir eru í mixólýdískri tóntegund, mjög stuttir og hægir. Flutningur verksins er hér tileinkaður minningu Önnu Snorradóttur, móður tónskáldsins.
Upptakan sem hér má heyra með leyfi höfundar, er flutt af Sinfóníuhljómsveit áhugamanna 7. febrúar 2010 í Seltjarnarneskirkju. Var hún tekin upp í DSD 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 og Sound device 305 formagnara. Tveimur SE4400 hljóðnemum (sterio) og einum SE4 (miðju), sem allir voru staðsettir á einni 2,5 metra hárri súlu framan við stjórnandann Oliver Kentish.
Vorið 2007 kom öflugasti krani Íslands til landsins. Er hann af gerðinni Gottwald HMK6407 og gegnir nafninu Jötunn. Vegur hann 420 tonn með lyftigetu 110 tonn á 22 radius-metrum og 40 tonn á 51 metrum. Sjálfur skagar hann u.þ.b. upp í 80 metra hæð með fullreista bómu. Hann getur því tekið á sig talsverðan vind þótt hann sé með grindarbómu.
Þá fáu daga sem vindur hreyfist í Reykjavík má heyra mikinn hvin við hafnarkranana. Þann 21. janúar 2010 gerði svolítið rok, en þó ekki meira en svo að hægt var að fara upp í Jötun án þess að fjúka af 5 metra háum undirvagni hanns. Í turni kranans er nokkuð hár stigagangur sem liggur að stjórnklefanum. Á þennan turn spilar vindurinn oft á tíðum fjölskrúðugt tónverk í bland við mismunandi titring á þennan heljarmikla járnmassa. Upplifunin getur því verið eins og í góðu THX bíói.
Því miður er ekki hægt að skila þessum titringi í gegnum hljóðupptökuna en þegar upptakan fór fram tók turninn oft upp á því að titra á lágri tíðni í hressilegustu hviðunum. Í upptökunni má heyra það helst í bassanum en önnur hljóð koma líklega frá bómu, handriði, vírum og kösturum utandyra.
Þegar vindur er sem minnstur má heyra í loftræstikerfi töfluklefans sem staðsettur er u.þ.b. 15 metrum fyrir neðan upptökustað.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz með MMaudio hljóðnema og tækið látið ganga í klukkutíma.
Veðurhæðin hafði talsvert gengið niður þegar upptakan fór fram. Vindurinn hafði reyndar ekki verið meiri en svo að ekket hafði fokið á Sundahafnarsvæðnu þennan dag. Það verður því gerð önnur tilraun til að taka upp á sama stað í verra veðri.
Myndin er af stigaganginum en upptakan fór fram í eftsu tröppum.