Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Korg MR1000’

Fyrir rétt rúmum mánuði, þann 4. maí, hljóðritaði ég fuglasöng við golfskálann á Seltjarnarnesi. Þá heyrðist ekkert í kríu, aðeins í gæsum, mó- og vaðfuglum.
Þann 10. júní mætti ég í annað sinn með upptökutækin. Var krían þá komin á Nesið, fremur hávær og ákaflega árásargjörn eins og vera ber.
Hljóðnemum var nú aftur komið fyrir á sama stað og á sama tíma, þ.e. norðan golfskálans, rétt eftir miðnætti.
Á þessari stundu er margæsin farin til Svalbarða, Grænlands og Kanada og krían komin í hennar stað. Lítið heyrist í öðrum fuglum þó þeir hafi verið allt um kring. Krían var greinilega búin að hertaka Nesið og sætti sig við nærveru mannsins svo lengi sem hann héldi sig innan þeirra marka sem henni þóknaðist og honum bar.
Heldur lægri sjávarstaða var þann 10. júní en 4. maí. Því heyrist með öðrum hætti í öldunni.
Tekið var upp í 24bit/192Khz á Korg MR1000 með tveimur Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni sem vísða var til norðurs.
Myndin er tekin á meðan á upptöku stóð.

Sækja mp3 skrá (192kbps/31Mb)

Read Full Post »

Svartþröstum virðist fjölga hér á landi. Eru þó vart meira en 20 ár frá því hann fór að verpa hér á landi. Fyrst tók ég eftir honum fyrir u.þ.b. fjórum árum í Vogahverfinu þegar ég átti þar leið um snemma á morgnana.
Svartþrösturinn er venjulega felugjarn nema syngjandi karlfuglinn á vorin, sem þá hreykir sér í trjátoppum. Hefur hann afar háværan en fagran söng sem oft getur verið unun á að hlýða.
Í vetur gerðist það að svartþöstur fór að venja komur sínar í garðinn hjá mér og svo verpti hann í nágrenninu í vor. Hann hefur átt það til að taka söngaríur með slíkum afköstum að skógarþrösturinn er svo gott sem hættur að láta í sér heyra í hverfinu.
Oft heyrist í fuglinum en þó er erftitt að hljóðrita sönginn. Um leið og ég birtist í garðinum þá þagnar hann eða fer langt í burtu til að syngja. Um daginn tókst mér samt að taka upp sönginn í fuglinum klukkan þrjú að morgni þar sem hann var í hvarfi við laufþykknið í næsta garði. En það stóð heima, þegar ég komst í sjónfæri við hann, þá þagnaði hann eftir þrjú síðustu versin í meðfylgjandi hljóðriti.
Þar sem ég hef tekið eftir því að söngur svartþrasta er mismunandi eftir hverfum þá er líklegt að ég muni koma með önnur hljóðdæmi síðar.
Tekið var upp á Korg MR1000 í 24bit/192Khz, Sound Device 302 formagnara, Telinga parabólu með Sennheiser MKE 2 lavalier hjóðnemum.
Myndin er tekin nokkrum dögum síðar, liklega af kvennfugli.

Sækja MP3 skrá (192kbps/13Mb)

Read Full Post »

Í lok apríl og byrjun maí gerði ég nokkrar tilraunir til að hljóðrita fuglalíf á Seltjarnarnesi. Ég gafist upp á því vegna stanslausrar bílaumferðar fram og til baka út á nesið. Það var líka fjöldi fólks sem virtist stunda sína útiveru á Nesinu, ekki síst við Bakkatjörn, með því að sitja í bílunum í vegkantinum með bílvélina í gangi. Það heyrðist því fátt annað en drunur og innspítingar í bílvélum og miðstöðvum þau skiptin sem ég gerði mér ferð á Nesið með upptökutækin.
Rétt fyrir miðnætti þriðjudaginn 4. maí fór ég út á Seltjarnarnes. Gekk á með súld af og til svo búast mátti við fáu fólki eða bílum fram Nesið svona seint um kvöld. Hljóðnemunum var komið fyrir í lítilli laut norðan við golfskálann svo að sem minnst heyrðist í bílum sem kæmu út á nesið. Það var heppilegt því fjórir bílar komu í erindisleysu fram á Nesið á meðan á upptöku stóð og án þess að það truflaði upptökuna að ráði. Besti tíminn fyrir upptöku hefði verið snemma morguns milli kl. þrjú og sjö en það er vart boðlegt vinnandi fólki.
Það sem einkennir þessa upptöku er fjölskrúðugt fuglalíf; vaðfuglar, endur og gæsir og greinilegt að krían er enn ókomin. Hrossagaukurinn er áberandi og hefði getað heyrst betur í honum ef hann hefði ekki haldið sig mestu sunnan við golfskálann á meðan á upptöku stóð. Þá heyrist í regndropum falla sem og af og til í misstórum úthafsöldum skella í fjörunni handan grjótgarðsins sem umlykur Nesið á alla vegu.
Upptakan er tekin frá kl. 23:00 til 23:30. Í hálftíma eftir það kæfðu vélar frá kaupskipi á útleið þögnina með þungum drunum fram yfir miðnætti. Er sá hluti upptökunnar ekki færður hér til eyrna.
Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 í Blimp vindhlífum sem vísuðu í u.þ.b. 90° til norðurs. Tekið var upp á Korg MR1000 í 192Khz/24bit. Myndin er tekin nærri tökustað á meðan á upptöku stóð.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 44Mb)

Read Full Post »

Einu og hálfu ári frá bankahruninu hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar. Helmingur íslensku þjóðarinnar hefur alla tíð verið í bullandi afneitun og aldrei trúað því sem gerðist í október 2008.  Í stjórnleysinu sem ríkt hefur bæði fyrir og eftir hrun hefur fjöldi fólks stundað rányrkju og annað svínarí í sinni einlægu græðgi.
En mánudaginn 12. apríl 2010 kl. 10:30 var afrakstur Rannsóknarnefndar Alþingis gefinn út í nærri 3000 síðna hrunaskýrslu. Hrunameistarinn og frjálhyggjupostulinn Davíð Oddson var þá flúinn land með öðrum skúrkum sem sumir, dagana áður, hreynsuðu hundruð milljónir króna af reikningum til að koma þeim undan réttvísinni
Hljóðmyndin sem hér heyrist var tekin upp fyrir framan Alþingishúsið síðdegis 22. janúar 2009, daginn eftir þá örlagaríku nótt þar sem minnstu munaði að götur Reykjavíkur hefðu verið þaktar blóði. Er hún ágætis dæmi um búsáhaldabyltinguna þegar hún lét hæst að sér kveða. Ef allt þetta skynsama fólk hefði ekki flykkst út á götur og mótmælt með þessum hætti þá hefðu allir hrunameistar Landráðaflokkana setið áfram við völd eins og ekkert hefði í skorist. Að sama skapi er óvíst hvort hrunaskýrslan hefði nokkurn tíma litið dagsins ljós.
Tekið var upp í DSF sniði 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 með Sennheiser ME62 sem mynduðu 90°horn á T-stöng. Upptakan hefst þar sem komið er frá Dómkirkjuni. Farið er inn í mannþröngina framan við Alþingishúsið, gengnir nokkrir hringir og þaðan frá aftur.
Myndin var tekin sunnudaginn fyrir útgáfu skýrslunnar. Er hún tekin á þeim stað sem upptakan fór fram, framan við Alþingishúsið sem hefur verið vinnustaður mestu og verstu stjórnmálaafglapa Íslandssögunnar. Þá er vert að benda á eldri Hljóðmyndafærslu sem tekin var 24. janúar 2009 sem sýnir að krafan um stjórnarskipti varð sífellt háværari.
Sækja mp3 skrá.  192kbps / 25,6Mb

Read Full Post »

Þennan föstudag fyrir tæpum 2000 árum telja kristnir menn að Jesú hafi verið krossfestur. Það var fátt sem minnti á þann atburð 3. apríl 2010 þegar ég var staddur á Ísafirði. Ég gerði mér þó ferð að kirkjugarðinum í Engidal við Skutulsfjörð þar sem finna mátti nokkurt safn af krossum á leiðum kristinna manna. Því má segja að það hafi verið nokkuð táknræn ferð þó tilefnið hafi fyrst og fremst verið að forðast vélarhljóð nærri mannabyggðum.
Mikið vetrarríki ríkti þennan dag með talsverðu frosti. Gekk á með hvössum, dimmum  hríðarbyljum og skafrenningi. Það var því ærið tilefni til að reyna að fanga andrúmsloftið í kirkjugarðinum sem eflaust öllum lifandi verum hefði þótt kuldaleg upplifun.
Tekið var upp á Korg MR1000 í 24bit/192Khz. Hljóðnemar voru Sennheiser ME64 í Rode Blimp vindhlífum sem voru í u.þ.b. 80°.
Helst heyrist í vindinum sem leikur um runnahríslur garðsins. Borði á kransi blaktir á nýtekinni gröf og strengur klappar fánastöng í fjarska. Þá sígur hljóðmaður öðru hvoru hor í nös þar sem hann hírist skjálfandi bak við húsvegg kapellunar í garðinum.  Það sem líklega heyrist aðeins sem lágvært suð hér á netútgáfu þessarar upptöku eru snjókornin sem strjúkast við snjóbreiðuna í skafrenningnum.
Á meðan á upptöku stóð fennti upptökutækið nærri í kaf. Upptökunni lauk þegar þrífóturinn sem hljóðnemarnir stóðu á fauk um koll. Það er þó ekki látið fylgja hér.
Ljósmyndin er tekin á upptökustað.
Sækja MP3 skrá.  192kbps / 29Mb

Read Full Post »

Tvennt var það sem gerðist 21. mars 2010. Þá hófts gos í Eyjafjallajökli og  Johann Sebastian Bach (1685-1750) hefði orðið 325 ára gamalla ef honum hefði enst ævin. Þann dag hélt Sinfóníuhljómsveit áhugamanna tónleika í Seltjarnarneskirkju og kom Bach þar við sögu.  Bach samdi margar kantötur, þ.e. tónverk í nokkrum þáttum með tónlesi á milli. Margar þeirra eru fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit, sumar eingöngu fyrir einsöngvara og hljómsveit. Þær voru flestar samdar fyrir tiltekin tilefni svo sem kirkjuathafnir eða hátíðir. Varðveist hafa 195 kirkjulegar kantötur og allmargar um veraldleg efni. Kantatan númer BWV82, sem hér má heyra seinni hlutann af, var samin í Leipzig þar sem Bach var kantor í Tómasarkirkjunni frá 1723 til dauðadags 1750. Kantorsstaðan var mikil virðingarstaða því kantorinn stýrði öllum tónlistarflutningi í höfuðkirkjum borgarinnar.
Kantatan var samin fyrir kirkjuhátíð 2. febrúar 1727 til að minnast hreinsunar Maríu, þegar hún færði Jesú nýfæddan í musterið í Jerúsalem og færði fórn. Ekki er þó auðvelt að sjá samhengi milli texta kantötunnar og tilefnisins. Verkið er samið fyrir bassasöngvara, óbó og strengjasveit með fylgirödd. Til er seinni útgáfa af kantötunni fyrir sópran, fautu og strengi.
Í textanum er fallað um dauðann og þá hvíld sem hann veitir lífsþreyttum manni.
Hér er það Michael Jón Clarke sem singur en Oliver Kentish stjórnar.
Tekið var upp í DSD sniði 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 og Sound Device 305, 3ja rása mixer. Notast var við tvo SE-4400a hljóðnema (cardioid) sem staðsettir voru í 2,5 metra hæð yfir miðri hljómsveitinni. Michael syngur hins vegar í Rode NT2000 hljóðnema (fig.8) við hlið stjórnandans.
Það er fremur erfitt að ná góðum upptökum af heilli sinfóníuhljómsveit með aðeins þremur hljóðnemum, ekki síst þegar hljómsveitinni er ekki stillt upp fyrir þessa þrjá hljóðnema. Hér tekst þó hæfilega vel til. Bæði Oliver og Michael gáfu leyfi fyrir því að þessi upptökubútur færi á vefinn.
Sækja mp3 skrá.  192kbps / 20.4Mb

Read Full Post »

Á Seltjarnarnesi er að finna kríuvarp sem laðar að sér ýmsa fugla s.s. grágæsir, spóa, hrossagauka og golfara. Er þetta nes eitt af náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins, ekki síst vegna fjölskrúðugs fuglalífs. Það er líklegt að þessi náttúruperla væri ekki til ef á nesinu væri ekki víðáttumikill golfvöllur. Ólíkt golfvöllum sunnar á jörðinni, þá geta íslenskir golfvellir beinlínis bætt aðbúnað manna og dýra í sátt við náttúruna. Ekki þarf að sólunda dýrmætu vatni til að vökva íslenska golfvelli og á meðan golf er talin sem góð og gild snobbíþrótt verður ekki byggt og malbikað á slíkum stöðum. Dýra- og fuglalíf verður því nokkuð fjölskrúðugt þó innan borgarmarka sé.
Upptakan sem hér má heyra var tekin upp undir miðju skýlinu sem sjá má á myndinni, milli kl 9:00 og 10:00, 17. júní 2009. Tekið var upp í 192Khz /24bit á Korg MR1000 með ME62 hljóðnema sem vísuðu 90° hvor frá öðrum út á völlinn.
Vara skal við þeim hvellum sem heyrast í upptökunni. Þeir geta sprengt hátalara. Ekki er vitað hverjir þeir menn eru sem tala í upptökunni og líklegt að þeir hafi aldrei vitað að upptaka hafi farið fram. Hér er tilvalin upptaka fyrir gólfara sem bíða spenntir eftir sumrinu.
Sækja mp3 skrá (192kbps / 30,3Mb)

Read Full Post »

Snorri Sigfús Birgisson (f. 1945) stundaði píanónám fyrst hjá Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjá Hermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. Þá tók við framhaldsnám í píanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum og tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen og hjá Ton de Leeuw í Amsterdam. Veturinn 1978-79 bjó hann í París og árið eftir í London þar sem hann kenndi á píanó. Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan 1980. Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Hymni fyrir strengjasveit var saminn árið 1982 fyrir Nýju strengjasveitina og frumflutt undir stjórn höfundar á tónleikum í Bústaðakirkju. Verkið samanstendur af 11 köflum sem allir eru í mixólýdískri tóntegund, mjög stuttir og hægir. Flutningur verksins er hér tileinkaður minningu Önnu Snorradóttur, móður tónskáldsins.
Upptakan sem hér má heyra með leyfi höfundar, er flutt af Sinfóníuhljómsveit áhugamanna 7. febrúar 2010 í Seltjarnarneskirkju. Var hún tekin upp í DSD 1bit/5,644Mhz á Korg MR1000 og Sound device 305 formagnara. Tveimur SE4400 hljóðnemum (sterio) og einum SE4 (miðju), sem allir voru staðsettir á einni 2,5 metra hárri súlu framan við stjórnandann Oliver Kentish.
Sækja MP3 skrá (192kbps / 22.9mb)

Read Full Post »

Fátt er skemmtilegra en að liggja einn í fjallaskála, finna vindinn skekja skálann og rigninguna berja rúðurnar. Það gefur manni sterka tilfinningu fyrir náttúrunni, ekki síst eftir langt og erfitt ferðalag þar sem maður hefur ekki verið truflaður af vélum eða stórkallalegum mannvirkjum.
Það er sjaldgæft að veður séu slæm á höfuðborgarsvæðinu, en slikar stundir eru til og þá fer maður sjaldnast út að tilefnislausu. Tilfinningin er heldur aldrei sú sama og á fjöllum. En þó, það er eitthvað rólegt við það að hlusta á rok og  rigningu berja rúðurnar.
Þann 11. desember 2009 var leiðinda veður í höfuðborginni. Það gaf tilefni til hljóðritunar þó það væri ekkert aftakaveður.
Stillti ég upp tveimur ME64 hljóðnemum í  svefnherberginu og tók upp í 16Bit / 44.1Khz. Veðrið var að mestu gengið niður þegar upptakan fór fram um kl 14:30. Heyra má í upptökuni háværan grunnsón. Er hann að mestu tilkominn frá bílaumferð en bæði Miklabraut og Reykjanesbraut eru í  u.þ.b. kílómeters fjarlægð. Rokið í trjánum á þó eitthvað í þessum hávaða líka. Þar sem hljóðnemarnir voru nálægt rúðum þá má greinilega heyra hávaðan að utan “sóna” með holum hljómi á milli tvöföldu rúðunnar. Þá má líka heyra í vekjaraklukkuni sem var á náttborðinu þar nærri. Myndin er tekin út um gluggann á meðan á upptöku stóð.
Sækja Mp3 skrá.  (192kbps / 8,8Mb)

Read Full Post »

Æðarfugl
Vorið 2009 var fremur kalt með köldum norðanáttum. Fuglalíf var því ekki með neinum ágætum þetta vor. Ugglaust brást varp hjá mörgum fuglum, þó að ekki bæri mikið á því á Seltjarnarnesi. Milli kl. 5 og 6 hinn 12. júní, fór ég út á Nes og hljóðritaði hljóð æðarfugls í fjöruborðinu. Allhvöss norðanátt var á Nesinu, svo að í upphafi gekk erfiðlega að finna hljóðnemunum stað, til að vindurinn heyrðist ekki á upptökunum. Besti staðurinn reyndist vera suðurströndin í skjóli við grjótgarð og melgresi. Í flæðarmálinu voru kollur með nokkra unga og blikar, sem voru að atast sín á milli og í kollunum. Það kom mér á óvart, hversu nálægt ég gat komist fuglunum án þess að það hefði truflandi áhrif á þá. Upptakan hefst með því, að ég set upp hljóðnemanna þar sem hópur æðarfugla er í fæðuleit með buslugangi. Þegar líður á upptökuna, færðust flestir fuglarnir austar með ströndinni (til vinstri) og skriðu þar á land.  Upptakan verður því hljóðbærari eftir því sem á líður. Notast var við tvo Sennheiser ME66 hljóðnema, sem klæddir voru Rycote Softy vindhlífum og stillt upp í ca. 100°. Tekið var upp í 24 bit / 192kHz á Korg MR1000. Upptakan, sem hér heyrist, er líklega besti samfelldi kafli allrar upptökunnar þar eð vindur hafði ekki truflandi áhrif. Þegar líður á upptökuna fjarar undan hljóðnemunum. Myndin er tekin á upptökustað.
Sækja MP3 skrá (192kbps /31Mb)

Read Full Post »

« Newer Posts - Older Posts »