Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Hljóðfæraleikarar fjölmenntu á efstu hæð á Highlander á Lækjargötu 10, þann 15. júlí 2010.
Enginn virtist í stuði fyrst til að byrja með. En þegar fór að líða á kvöldið þá duttu menn í gírinn og þá birtust söngvarar, einn innlendur sem áður hefur sungið með þessum hópi og tveir erlendir ferðamenn sem óvart voru á staðnum.
Heyra má bluegrass, keltneska og skandinavíska tónlist að þessu sinni.
Sá hluti upptökunnar sem hér heyrist er frá seinni hluta kvöldins þegar menn voru komnir í gírinn og söngvarar voru farnir að þenja sig.
Upptakan þetta kvöld var á margan hátt ekki eins góð og þegar tekið er upp á neðri hæð kráarinnar. Stafar það helst af því að mikill umferðarhávaði kom inn um opna glugga, rýmið er stærra en niðri og fleiri hljóðfæraleikarar, sem voru í talsverðri fjarlægð. Það er því nokkur gjallandi í upptökunni.
Tekið var upp á Korg MR1000 með Sound device 302 formagnara í 24bit/192Khz. Hljóðnemarnir voru Sennheiser MKE-2 Gold Lavalier og uppsetning þeirra Binaural. Að vanda þá voru hljóðnemarnir festir við gleraugaspangir mínar rétt við eyrun. Það má því mæla með að fólk noti góð heyrnartól þegar hlustað er á upptökuna sem og aðrar Binaural upptökur.
Myndir frá þessu kvöldi má sjá hér.
Aðrar upptökur með þessum hljóðfæraleikurum má svo heyra hér.
Þess skal getið að þeir sem áhuga hafa á að spreita sig við að spila svona tónlist eru velkomir í þennan hóp en hann æfir flest fimmtudagskvöld á Highlander.

Sækja mp3 skrá (192kbps /  31,8Mb)

Sækja mp3 skrá (192kbps / 29,2Mb)

Ekkert jafnast á við það að liggja úti í náttúrunni og fá tækifæri til að hlusta á fuglana í þögn frá vélardrunum mannsins. Hljóðin hafa mikið breyst á ótrúlega fáum árum. Með hverju ári verður sífellt erfiðara að nálgast fuglahljóð í ómengaðri náttúru. Með sífellt meiri hávaða og loftmengun er mannskepnan ekki aðeins að breyta sínu nánasta umhverfi heldur líka búsvæðum annarra lífvera og loftslagi á allri jörðinni. Fyrr en síðar mun það því miður bitna mjög harkalega á öllum lífverum.
Friðland í Flóa er lítið dæmi um að til séu menn sem af veikum mætti vilja endurheimta votlendi og þau náttúrugæði sem þeim fylgja. Eru þá framræsluskurðir stíflaðir svo grunnvatn hækkar á svæðinu sem svo laðar að sér ýmsa fugla.
Þótt mesta fuglalífið hafi verið nær stöndinni þegar þetta var tekið upp, þann 24. júní, þá vantaði ekki fuglana á friðlandið. Það heyrist þó ekki mikið í þeim og þurfti talsverða mögnun til að ná þessari upptöku sem því miður kemur fram í talsverðu suði. Svo nokkuð sé nefnt þá má heyra í kindum, flugu, lómi, hettumávi, lóuþræl, spóa, álft og hrossagauk. Þá heyrist bíla- og flugumferð að vanda sem og ölduniði sem lemur suðurstöndina í fjögurra km fjarlægð aftan við hljóðnemana.
Í uppökunni heyrist vel í óþekktri andartegund sem ekki sást en virðist hafa komið ansi nálægt upptökustað. Þeir hlustendur sem telja sig vita hvaða fugl sé þar á ferð eru beðnir um að segja frá því hér.
Tekið var upp á Sennheiser ME62 hljóðnema sem vísað var í 90° til norðurs. Sound device 302 formagnara og Korg MR1000 í 24bit/192khz. Myndir voru teknar á Canon D30

Sækja mp3 skrá (192kbps / 35,6Mb)

Það er því miður fámennur hópur fólks sem gefið hefur sér tíma í hádeginu til að mæta niður á Hverfisgötu framan við greni AGS og mótmælt úreltum hagstjórnargjörningum þeirra. En þótt hópurinn sé fámennur þá er hann býsna hávær. Það er því ólíklegt að útsendarar AGS fái mikinn vinnufrið undir þeim hljóðum sem heyrast í meðfylgjandi hljóðriti en það var tekið upp 14. júlí 2010.
Notast var við Rode NT4 hljóðnema, Sound Device 305 formagnara og Korg MR1000. Tekið var upp í 24bit/96Khz. Myndin er tekin á Nokia N82 síma við þetta tækifæri.

Sækja MP3 skrá.  (192kbps/13,3Mb)

Ekki er auðvelt að nálgast samanburð á hljóðnemum á netinu. Það er því ekkert grín þegar til stendur að fjárfesta í einhverjum slíkum. Sjálfur hef ég verið að leita að góðum og fyrirferðarlitlum MS hljóðnema. Flestir sem eiga að uppfylla þær kröfur eru ekki gefnir. Hvort sem MS uppsetningin muni samanstanda af tveimur hljóðnemum eða einum, þá er líklega Shure VP 88 nokkuð þekktur sem ódýr MS/steríó hljóðnemi. Þó hann sé mikill hlunkur þá freistar verðið til þess að honum sé gaumur gefinn. Í safni mínu er að finna Rode NT4 steríó hljóðnema sem er ögn ódýrari en Shure VP88. Hann er talinn nokkuð góður þó ég telji þrönga steríómyndina takmarka notkun hans.
Á dögunum fékk ég að prófa VP88. Við fyrstu kynni varð mér ljóst að ég var ekki að kynnast tímamótahljóðnema. Ég stillti hann á víða steríómynd og prófaði hann samhliða NT4. Stillti ég þeim báðum á sama stað á borði þar sem þeir lágu á púða. Í herberginu var lágt stillt útvarp í gangi í um þriggja metra fjarlægð. Veggklukka tifaði á vegg í tveggja metra fjarlægð og kæliskápur var í gangi í þriggja metra fjarlægð.
Hljóðnemarnir voru báðir tengdir við Sound device 305 formagnara þar sem slökt var á hljóðsíum og styrkur hafður í botni til að fá fram grunnsuðið. Tekið var upp á Korg MR1000 upptökutæki.
Sjálfur kynni ég svo hljóðnemana þar sem ég sit einn metra fyrir aftan þá.
Hljóðdæmið gefur ekki fullkomna mynd af þessum tveimur hljóðnemum en segir þó til um suð og næmni.

English summation:

Rode NT4 and Shure VP88 was placed in the same place. Connected to Sound device 305 preamp. All filters at zero and gain and faders at 100%.
You shold hear the radio at low level (3 meters away), clock on a wall (2 meters) and a refrigerator (3 meters)
This is not a perfect test, but will give some information about noise and sensitivity between this two mics.

Sækja mp3 skrá.   (192kbps / 1,83Mb)

Friðland fugla í FlóaÞað er ekki auðvelt að hljóðrita þögn og skila því frá sér svo einhver nenni að hlusta. En satt best að segja tókst mér það á dögunum undir húsvegg í friðlandinu í Flóa. Undir norðurhlið hússins hefur sauðfé greinilega skýlt sér gegn sunnan sudda eða frá heitum sólargeislum. Það er sauðfé eðlislægt að gera þarfir sínar þar sem það setndur. Því vantaði ekki sauðataðið undir húsvegg fuglaskoðunarhússins sem stendur í miðju fuglafriðlandinu.
Nýju taði fylgja flugur og á þeim var enginn skortur að þessu sinni. Flugnasuðið var svo gott sem það eina sem ég heyrði fyrir utan suðið í eigin höfði. Það kom því svolítið á óvart að hljóðritið skilaði talsvert meiru af hljóðum. Vissulega heyrist mikið grunnsuð, ekki aðeins frá tækjum heldur líka frá flugvélum og bílaumferð norðan og sunnan við upptökustaðin. Þá barst líka talsverður “hávaði” frá öldurótinu við ósa Ölfusár. Fyrir utan flugnasuðið heyrist auðvitað líka í fuglum þó það komi mest á óvart hversu vel það heyrist þar sem þeir virtust flestir vera víðs fjarri á meðan á upptöku stóð.
Önnur hljóð eru líklega þenslusmellir í húsinu, léttir smellir frá gluggaloku og einn þenlusmellur frá öðrum hljóðnemanum. Seinni hluta upptökunnar heyrist í bíl sem kemur að bílastæði friðlandsins og að lokum þegar fólkið úr þeim bíl kemur og stígur á pallinn sunnan við húsið.
Tekið var upp þann 24. júní 2010 milli kl 17 og 18 á Korg MR1000 í 24bit/192Khz og Sennheiser ME62 hljóðnema. Þeim var vísað til norðurs með 90° horni, u.þ.b. 60cm frá húsveggnum.
Myndin er tekin sama dag nærri upptökustað. Horft er til horðurs í átt að Hveragerði (sjá fleiri myndir).

Sækja mp3 skrá (192kbps / 33,4Mb)

Fyrir rétt rúmum mánuði, þann 4. maí, hljóðritaði ég fuglasöng við golfskálann á Seltjarnarnesi. Þá heyrðist ekkert í kríu, aðeins í gæsum, mó- og vaðfuglum.
Þann 10. júní mætti ég í annað sinn með upptökutækin. Var krían þá komin á Nesið, fremur hávær og ákaflega árásargjörn eins og vera ber.
Hljóðnemum var nú aftur komið fyrir á sama stað og á sama tíma, þ.e. norðan golfskálans, rétt eftir miðnætti.
Á þessari stundu er margæsin farin til Svalbarða, Grænlands og Kanada og krían komin í hennar stað. Lítið heyrist í öðrum fuglum þó þeir hafi verið allt um kring. Krían var greinilega búin að hertaka Nesið og sætti sig við nærveru mannsins svo lengi sem hann héldi sig innan þeirra marka sem henni þóknaðist og honum bar.
Heldur lægri sjávarstaða var þann 10. júní en 4. maí. Því heyrist með öðrum hætti í öldunni.
Tekið var upp í 24bit/192Khz á Korg MR1000 með tveimur Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni sem vísða var til norðurs.
Myndin er tekin á meðan á upptöku stóð.

Sækja mp3 skrá (192kbps/31Mb)

Svartþröstum virðist fjölga hér á landi. Eru þó vart meira en 20 ár frá því hann fór að verpa hér á landi. Fyrst tók ég eftir honum fyrir u.þ.b. fjórum árum í Vogahverfinu þegar ég átti þar leið um snemma á morgnana.
Svartþrösturinn er venjulega felugjarn nema syngjandi karlfuglinn á vorin, sem þá hreykir sér í trjátoppum. Hefur hann afar háværan en fagran söng sem oft getur verið unun á að hlýða.
Í vetur gerðist það að svartþöstur fór að venja komur sínar í garðinn hjá mér og svo verpti hann í nágrenninu í vor. Hann hefur átt það til að taka söngaríur með slíkum afköstum að skógarþrösturinn er svo gott sem hættur að láta í sér heyra í hverfinu.
Oft heyrist í fuglinum en þó er erftitt að hljóðrita sönginn. Um leið og ég birtist í garðinum þá þagnar hann eða fer langt í burtu til að syngja. Um daginn tókst mér samt að taka upp sönginn í fuglinum klukkan þrjú að morgni þar sem hann var í hvarfi við laufþykknið í næsta garði. En það stóð heima, þegar ég komst í sjónfæri við hann, þá þagnaði hann eftir þrjú síðustu versin í meðfylgjandi hljóðriti.
Þar sem ég hef tekið eftir því að söngur svartþrasta er mismunandi eftir hverfum þá er líklegt að ég muni koma með önnur hljóðdæmi síðar.
Tekið var upp á Korg MR1000 í 24bit/192Khz, Sound Device 302 formagnara, Telinga parabólu með Sennheiser MKE 2 lavalier hjóðnemum.
Myndin er tekin nokkrum dögum síðar, liklega af kvennfugli.

Sækja MP3 skrá (192kbps/13Mb)

Júnímánuður 2010 hófst ekki vel á Miðjarðarhafi þegar síonistar rændu skip með hjálpargögn á leið til Gaza í Palestínu. Nítján friðarsinnar voru drepnir í þessari aðgerð síonísku hryðjuverkamannanna.
Síðar sama dag hélt félagið Ísland-Palestína útifund fyrir utan Utanríkisráðuneytið til að mótmæla framferði síonistanna þar sem krafist var aðgerða íslensku stjórnarinnar tafarlaust.
Það skal tekið fram að í utanríkismálnefnd situr fólk úr Sjálfstæðisflokki sem veigrar sér ekki við að standa vörð um hagsmuni síonista. Það fór því svo að utanríkismálanefnd sendi frá sér útvatnaða ályktun að vanda. Dráp á saklausum borgurum Palestínu sem og öðrum mun því halda áfram með þátttöku alþjóðasamfélagsins og okkur íslendinga.
Það sem hér heyrist var tekið upp á Olympus LS-10 og MMaudio Binaural hljóðnema í 24Bit/92Khz.
Hljóðið í ræðumönnum er nokkuð kæft, en það stafar af því að hljóðið kemur frá lélegu hljóðkerfi sem staðsett var bak við nokkra fundarmenn.
Myndin er tekin á Nokia N82 síma við þetta tækifæri.

Sækja MP3 skrá (192kbps/25Mb)

Í lok apríl og byrjun maí gerði ég nokkrar tilraunir til að hljóðrita fuglalíf á Seltjarnarnesi. Ég gafist upp á því vegna stanslausrar bílaumferðar fram og til baka út á nesið. Það var líka fjöldi fólks sem virtist stunda sína útiveru á Nesinu, ekki síst við Bakkatjörn, með því að sitja í bílunum í vegkantinum með bílvélina í gangi. Það heyrðist því fátt annað en drunur og innspítingar í bílvélum og miðstöðvum þau skiptin sem ég gerði mér ferð á Nesið með upptökutækin.
Rétt fyrir miðnætti þriðjudaginn 4. maí fór ég út á Seltjarnarnes. Gekk á með súld af og til svo búast mátti við fáu fólki eða bílum fram Nesið svona seint um kvöld. Hljóðnemunum var komið fyrir í lítilli laut norðan við golfskálann svo að sem minnst heyrðist í bílum sem kæmu út á nesið. Það var heppilegt því fjórir bílar komu í erindisleysu fram á Nesið á meðan á upptöku stóð og án þess að það truflaði upptökuna að ráði. Besti tíminn fyrir upptöku hefði verið snemma morguns milli kl. þrjú og sjö en það er vart boðlegt vinnandi fólki.
Það sem einkennir þessa upptöku er fjölskrúðugt fuglalíf; vaðfuglar, endur og gæsir og greinilegt að krían er enn ókomin. Hrossagaukurinn er áberandi og hefði getað heyrst betur í honum ef hann hefði ekki haldið sig mestu sunnan við golfskálann á meðan á upptöku stóð. Þá heyrist í regndropum falla sem og af og til í misstórum úthafsöldum skella í fjörunni handan grjótgarðsins sem umlykur Nesið á alla vegu.
Upptakan er tekin frá kl. 23:00 til 23:30. Í hálftíma eftir það kæfðu vélar frá kaupskipi á útleið þögnina með þungum drunum fram yfir miðnætti. Er sá hluti upptökunnar ekki færður hér til eyrna.
Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 í Blimp vindhlífum sem vísuðu í u.þ.b. 90° til norðurs. Tekið var upp á Korg MR1000 í 192Khz/24bit. Myndin er tekin nærri tökustað á meðan á upptöku stóð.

Sækja MP3 skrá (192kbps / 44Mb)

Það hefur áður komið fram hér á Hljóðmynd að í Lækjargötu 10 eru nokkrir tónlistarmenn að spila keltneska tónlist á fimmtudagskvöldum. Fimmtudagurinn 29. apríl var engin undantekning. Nú voru menn hins vegar uppteknir við að spila bluegrass. Það sem hér má heyra spilað var tekið upp um og eftir miðnætti á Olympus LS10 og MMaudio Binaural hljóðnema í 24bit/96Khz. Myndin er tekin eins og heyra má á upptökustað.
Þess ber að geta að allir sem hafa áhuga á því að spila þessa tónlist eru hvattir til að mæta að Lækjargötu 10 á fimmtudagskvöldum. Það sárvantar t.d. bassa- og fiðluleikara svo eitthvað sé nefnt. Eldra efni má finna hér

Sækja mp3 skrá (192kbps / 30mb)

Sækja mp3 skrá (192kbps / 26,4mb)