Vorið 2007 kom öflugasti krani Íslands til landsins. Er hann af gerðinni Gottwald HMK6407 og gegnir nafninu Jötunn. Vegur hann 420 tonn með lyftigetu 110 tonn á 22 radius-metrum og 40 tonn á 51 metrum. Sjálfur skagar hann u.þ.b. upp í 80 metra hæð með fullreista bómu. Hann getur því tekið á sig talsverðan vind þótt hann sé með grindarbómu.
Þá fáu daga sem vindur hreyfist í Reykjavík má heyra mikinn hvin við hafnarkranana. Þann 21. janúar 2010 gerði svolítið rok, en þó ekki meira en svo að hægt var að fara upp í Jötun án þess að fjúka af 5 metra háum undirvagni hanns. Í turni kranans er nokkuð hár stigagangur sem liggur að stjórnklefanum. Á þennan turn spilar vindurinn oft á tíðum fjölskrúðugt tónverk í bland við mismunandi titring á þennan heljarmikla járnmassa. Upplifunin getur því verið eins og í góðu THX bíói.
Því miður er ekki hægt að skila þessum titringi í gegnum hljóðupptökuna en þegar upptakan fór fram tók turninn oft upp á því að titra á lágri tíðni í hressilegustu hviðunum. Í upptökunni má heyra það helst í bassanum en önnur hljóð koma líklega frá bómu, handriði, vírum og kösturum utandyra.
Þegar vindur er sem minnstur má heyra í loftræstikerfi töfluklefans sem staðsettur er u.þ.b. 15 metrum fyrir neðan upptökustað.
Tekið var upp á Olympus LS10 í 24bit/44Khz með MMaudio hljóðnema og tækið látið ganga í klukkutíma.
Veðurhæðin hafði talsvert gengið niður þegar upptakan fór fram. Vindurinn hafði reyndar ekki verið meiri en svo að ekket hafði fokið á Sundahafnarsvæðnu þennan dag. Það verður því gerð önnur tilraun til að taka upp á sama stað í verra veðri.
Myndin er af stigaganginum en upptakan fór fram í eftsu tröppum.
Húsið byggði Þorsteinn Tómasson járnsmiður á árunum 1877-1878, á lóð norðan við bæinn Lækjarkot. Steinsmiðirnir Jónas og Magnús Guðbrandssynir hlóðu húsið og eru líklega einnig höfundar þess. Húsið var allt hlaðið úr íslensku grágrýti sem fengið var úr Skólavörðuholti, en kalkið til bindingar kom úr Esjunni. Er þetta eitt elsta íbúðarhúsið úr slíku byggingarefni í borginni. Árið 1884 var húsið lengt til suðurs og gerður inngangur með steintröppum á austurhlið. Einnig var þá búið að gera inngönguskúr úr grjóti við vesturhlið, en fyrir var inngangur á norðurgafli. Eftir það voru tvær íbúðir í húsinu og ekki innangengt milli þeirra. Árið 1905 var búið að setja kvist í gegnum húsið og þá voru komnir á það tveir inngönguskúrar, báðir við vesturhlið. Einhvern tímann síðar hefur kjallaraglugga verið breytt í dyr, en að öðru leyti er húsið lítið breytt.
Afkomendur Þorsteins Tómassonar bjuggu í húsinu fram yfir 1980 en þar hófu einnig rekstur nokkur fyrirtæki sem enn eru starfandi. Árið 1879 var Ísafoldarprentsmiðja þar til húsa og var þá sett þar upp fyrsta hraðpressan hérlendis. Breiðfjörðsblikksmiðja hóf starfsemi í húsinu árið 1902 og Sindri árið 1924. Árin 1904-1922 var verslunin Breiðablik í kjallara hússins en síðar var þar skóvinnustofa. Árið 1991 var húsið friðað að ytra byrði og hafa síðan verið gerðar ýmsar endurbætur sem hafa m.a. miðað að því að færa glugga til upprunalegs horfs. Einnig hafa verið gerðar nokkrar breytingar innanhúss og íbúðarhúsnæðinu verið breytt í veitingahús undir nafninu Highlander.
Á fimmtudögum hin síðustu misseri, hafa nokkrir tónlistarmenn haft þar „open session“, þar sem spiluð er t.d. keltnesk tónlist. Þegar ég kom þangað 29. janúar 2010 var samankominn fjöldi hljóðfæaraleikara frá ýmsum löndum. Fyrir utan Íslendingana voru komnir þar hljóðfæraleikarar frá Írlandi, Skotlandi og Noregi. Upptakan byrjar í miklu svaldri þar sem húsið var fullt af gestum.
Þá rúma tvo tíma sem upptakan stóð yfir minnkaði skvaldrið og ég komst nær hljóðfærunum og tónlistin varð greinilegri. Það sem hér má heyra eru aðeins fyrstu 19 mínúturnar í talsverðu skvaldri. Afgangurinn af upptökunni mun því heyrast í nokkrum færslum. Tekið var uppí 24bit/44Khz á Olympus LS10 og MMaudio Binaural hljóðnema.
Deila má um áhrif verslunarmiðstöðva á samfélagið og hvernig þær eru tilkomnar. Víst er að þær hafa drepið kaupmanninn á horninu og að þær eru byggðar af auðhringjum sem ætla sér að græða. Verslunarmiðstöðvar eru tilkomnar vegna samgöngustefnu yfirvalda. Allir verða að eignast bíl. Er því hiklaust logið að fólki að bíll sé nauðsynlegur um leið og stjórnvöld byggja sífellt fyrirferðarmeiri bílamannvirki. Er það gert á kostnað annarra samgangna svo að á endanum hefur fólk aðeins einn kost og það er að fara ferða sinna á einkabílum.
Hverjum er svo sem ekki sama. Bíllinn er diggur þjónn letinnar.
Fyrst fólk er á annað borð komið í bílinn þá gengur það ekki á inniskónum til kaupmannsins á horninu til að kaupa einn lítra af mjólk heldur ekur það 10 km í næstu verslunarmiðstöð, kaupir þar einn lítra af mjólk og ýmislegt annað sem það hefur jafnvel ekki þörf á. Andlit verslunarmiðstöðva eru víðáttumikil bílastæði eða klunnaleg bílastæðahús. Þangað fer því enginn nema á bíl.
Þegar inn er komið gerist það undraverða. Fólk losnar við púströrsfnikinn og hávaðann frá bílaumferðinni um leið og það fullnægir kaupgleðinni.
Veslunarmiðstöðvar eiga því stóran þátt í að eyðileggja vistvæna skipulagsheildir þéttbýlissvæða. Þær hvetja til aukinnar neyslu og til notkunar einkabíla sem hefur svo á allan hátt mjög skaðleg áhrif á borgarsamfélög.
Upptakan sem hér má heyra, var gerð fyrir miðju húsi á efri hæð Kringlunar, sama dag og forsetinn Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta icesave lögin frá Alþingi. Fyrir utan fótatak og spjall fólks má einnig heyra í vinnuliftu sem starfsmenn Kringlunar notuðu til að taka niður jólaskraut.
Upptakan er gerð á Olympus LS10 í 24bit / 96Khz með MMaudio lavalier hljóðnemum sem festir voru á gleraugnaspangir mínar við eyrun (Binaural upptaka).
Myndin er tekin á Nokia síma á meðan á upptökum stóð.
Það var líklega um hvítasunnu 1985 sem við fórum nokkur saman í tjaldútilegu að Laugarvatni. Að sjálfsögðu hafði ég með mér Sony TC-D5 upptökutæki og ME20 hljóðnema. Þegar klukkan var farin að nálgast 4 að morgni rölti ég til suðurs frá tjaldsvæðinu austur af Laugarvatni og hóf upptöku líklega um 500 metra frá veginum. Á meðan á því stóð steinsofnaði ég á milli þúfna.
Hér er á ferðinni mjög lágstemmd upptaka sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir mér sem borgarbúa, er þessi samsetning fuglasöngs ein sú besta sem völ er á. Mér hefur oft gengið illa síðustu ár að ná hljóðum í spóa án þess að hann hafi gefið frá sér viðvörunarhljóð. Sama gildir um vængjaþytinn í hrossagauk. Hann er ekki að finna hvar sem er. Hér eru bæði spóar og hrossagaukar í sínu besta skapi en á móti virðist sem ég hafi verið mjög nærri hreiðri músarindils. Hvell viðvörunartíst frá honum skera svolítið í eyrun. Ekki síst þar sem upptökutæki þessa tíma ráða ekki vel við þessa háu tíðni. Músarindillinn skoppar hér á milli greina í lágu kjarri sem þá mátti finna á einstaka stað á þessu svæði. Heyra má í öðrum fuglum eins og þröstum og hröfnum. Tekið var upp á TDK MA90 kassettu. Er það líklega henni að þakka að upptakan hefur geymst svona vel í öll þessi ár. Öll upptakan er nú yfirfærð í 24bita og 48Khz.
Myndin er frá Laugarvatni og frá svipuðum tíma og þegar upptakan fór fram. Upptökustaðurinn var nærri kjarrinu sem sjá má lengst til hægri á myndinni. Á myndinni má líka sjá gamla gufubaðið á Laugarvatni, sem var alveg einstakt á heimsvísu, en sauðheimskum kapitalistum tókst að rífa það rétt fyrir hrun. Þeir höfðu hugmyndir um að reysa þar andstyggilegt nútímabaðhús svo hægt væri að féfletta almenning með einhverjum “2007 glæsileika”. Vonandi hafa heimamenn rænu á því að endurreisa gömlu gufuna svo hún verði aftur aðgengileg almenningi.
Fátt er skemmtilegra en að liggja einn í fjallaskála, finna vindinn skekja skálann og rigninguna berja rúðurnar. Það gefur manni sterka tilfinningu fyrir náttúrunni, ekki síst eftir langt og erfitt ferðalag þar sem maður hefur ekki verið truflaður af vélum eða stórkallalegum mannvirkjum.
Það er sjaldgæft að veður séu slæm á höfuðborgarsvæðinu, en slikar stundir eru til og þá fer maður sjaldnast út að tilefnislausu. Tilfinningin er heldur aldrei sú sama og á fjöllum. En þó, það er eitthvað rólegt við það að hlusta á rok og rigningu berja rúðurnar.
Þann 11. desember 2009 var leiðinda veður í höfuðborginni. Það gaf tilefni til hljóðritunar þó það væri ekkert aftakaveður.
Stillti ég upp tveimur ME64 hljóðnemum í svefnherberginu og tók upp í 16Bit / 44.1Khz. Veðrið var að mestu gengið niður þegar upptakan fór fram um kl 14:30. Heyra má í upptökuni háværan grunnsón. Er hann að mestu tilkominn frá bílaumferð en bæði Miklabraut og Reykjanesbraut eru í u.þ.b. kílómeters fjarlægð. Rokið í trjánum á þó eitthvað í þessum hávaða líka. Þar sem hljóðnemarnir voru nálægt rúðum þá má greinilega heyra hávaðan að utan “sóna” með holum hljómi á milli tvöföldu rúðunnar. Þá má líka heyra í vekjaraklukkuni sem var á náttborðinu þar nærri. Myndin er tekin út um gluggann á meðan á upptöku stóð.
Þegar ég var á barnsaldri var sjónvarp vart til á heimilum fólks. Tölvur voru svo í besta falli skilgreindar í mjög furðulegum vísindaskáldsögum.
Fyrir utan boltaleiki, sleðaskak, hornsílaveiði og dúfnarækt voru leikir því oft á tíðum “raunveruleika-leikir”. Lítið samfélag þar sem finna mátti kaupmann, lækni, bónda, bílstjóra, gröfustjóra og heimavinnandi húsmóður. Þegar Víetnamstríðið komst svo í algleyming urðu stríðsleikir enn algengari þar sem barist var með heimasmíðuðum trébyssum.
Leikir voru í flestum tilfellum utandyra þar sem bílar ógnuðu ekki tilvist barna með sama hætti og í dag. Börn gátu því fengið nauðsynlega útrás með mikilli hreyfingu.
Í dag er börnum helst ekki hleypt út nema af “óábyrgum” foreldrum. Foreldrar kjósa helst að kyrrsetja börnin fyrir framan sjónvarp eða tölvur. Fylgikvillum hreyfingarleysis er svo oft á tíðum eytt með lyfjagjöfum.
Greinilega má heyra í leikjum barna að heimur þeirra er mótaður af kvikmyndum, tölvuleikjum og ýmsum vel markaðssettum plastleikföngum.
Hljóðdæmið sem hér má heyra er af syni mínum og tveimur frændum hans að leika sér með Bionicle stríðskörlum. Upptakan fór fram án þeirrar vitundar.
Tekið var upp á Olympus LS10 og á innbyggðu hljóðnemana í 16bit / 44,1Khz
Myndin er tekin af Bionicle leikföngum í skammarlega plastvæddu herbergi sonar míns.
Vorið 2009 var fremur kalt með köldum norðanáttum. Fuglalíf var því ekki með neinum ágætum þetta vor. Ugglaust brást varp hjá mörgum fuglum, þó að ekki bæri mikið á því á Seltjarnarnesi. Milli kl. 5 og 6 hinn 12. júní, fór ég út á Nes og hljóðritaði hljóð æðarfugls í fjöruborðinu. Allhvöss norðanátt var á Nesinu, svo að í upphafi gekk erfiðlega að finna hljóðnemunum stað, til að vindurinn heyrðist ekki á upptökunum. Besti staðurinn reyndist vera suðurströndin í skjóli við grjótgarð og melgresi. Í flæðarmálinu voru kollur með nokkra unga og blikar, sem voru að atast sín á milli og í kollunum. Það kom mér á óvart, hversu nálægt ég gat komist fuglunum án þess að það hefði truflandi áhrif á þá. Upptakan hefst með því, að ég set upp hljóðnemanna þar sem hópur æðarfugla er í fæðuleit með buslugangi. Þegar líður á upptökuna, færðust flestir fuglarnir austar með ströndinni (til vinstri) og skriðu þar á land. Upptakan verður því hljóðbærari eftir því sem á líður. Notast var við tvo Sennheiser ME66 hljóðnema, sem klæddir voru Rycote Softy vindhlífum og stillt upp í ca. 100°. Tekið var upp í 24 bit / 192kHz á Korg MR1000. Upptakan, sem hér heyrist, er líklega besti samfelldi kafli allrar upptökunnar þar eð vindur hafði ekki truflandi áhrif. Þegar líður á upptökuna fjarar undan hljóðnemunum. Myndin er tekin á upptökustað.
Efnt var til Þjóðfundar 14. nóvember 2009 í Laugardalshöll. Í heilan dag vann mikill fjöldi fólks að því að reyna að bæta íslenskt samfélag með skapandi hugmyndavinnu. Umfjöllunarefnið var m.a. lýðræði, heiðarleiki, velferð, virðing, ábyrgð, sjálfbærni, kærleikur, frelsi, jöfnuður, fjölskyldan, atvinnulíf, menntamál, umhverfismál, samfélag og stjórnsýsla. Á fundinn kom 1231 þátttakandi, og var fundurinn í alla staði ákaflega vel skipulagður nema að einu leyti. Þegar upptakan fór fram kl 15:00, stóð vinna sem hæst við öll borð, en fyrir utan Höllina voru nokkrir leðurklæddir lögregluþjónar í óðaönn að skrifa sektarmiða á tugi, ef ekki hundruð bíla, sem lagt hafði verið út um allar koppagrundir í Laugardalnum. Þeir sem stóðu að undirbúningi Þjóðfundar, höfðu greinilega ekki tekið með í reikninginn að 1231 íslendingum fylgdu ámóta margir bílar. Almennt sagt, má gera alla hluti betur næst. Það má því senda playstationleik niður á lögreglustöð næst þegar blásið verður til Þjóðfundar. Það lýsir líklega þjóðarsálinni best að aðeins 19 reiðhjól stóðu fyrir utan Höllina meðan á fundinum stóð. Einkennilegt, þar sem úti ríkti einstök veðurblíða, og væntanlega voru flestir þátttakendur af höfuðborgarsvæðinu. Það var því ekki sjálfbær eða vistvænn hópur, sem þarna fundaði. Upptakan fór fram með þeim hætti að genginn var einn hringur um salinn með Rode NT4 hljóðnema. Tekið var upp í 24bit / 192kHz WAV sniði á Korg MR1000.Myndin er tekin á Þjóðfundinum.
Rétt sunnan við Skeljanes í Skerjafirði er lítil vík. Í upphafi síðari heimsstyrjaldar á síðustu öld kom breski herinn þar fyrir viðlegukanti í tengslum við lagningu flugvallarins í Vatnsmýri. Síðar hafði olíufélagið Shell þar birgðaaðstöðu og olíugeyma sína. Í dag hefur Shell flust út í Örfirisey og því er þarna að finna litið spillta fjöru þar sem mannvirki hafa hægt og sígandi verið að hverfa í tímans rás. Þar sem ein braut flugvallarins nær þarna út að sjó hefur ekki verið lagður bílvegur fyrir enda hennar með fjöruborðinu. Óvenju hljótt er því á þessum stað miðað við ýmsa staði í nágrenni Reykjavíkur. Þó má greina þungan nið bílaumferðarinnar sem hávært grunnsuð. Hávaðinn frá bílaumferð í borginni er reyndar slíkur að hann má greina við Bláfjöll og Hengil. Fáir veita þessum hávaða athygli. Meðvitað og ómeðvitað er þessi hávaði þó ein ástæða þess að marga dreymir um að eiga sumarbústað langt utan borgarmarkanna til þess eins að njóta kyrrðar. Talið er að hávaði sem fylgir bílaumferð sé einn helsti streituvaldur nútímans á Vesturlöndum.
Við upptöku þessarar hljóðritunar var nauðsynlegt að nota lágtíðnisíur til þess að draga niður í lægstu tíðninni frá umferðinni sem fáir heyra en hefur truflandi áhrif á upptökur.
Upptakan fór fram 25. janúar 2009 kl. 22:30. Hljóðnemum var stillt upp í flæðarmálinu og má heyra að hægt og rólega fjarar undan þeim. Tekið var upp í DSD 1 Bit/5,644 MHz, með Sennheiser ME62 hljóðnemum í 90° horni.
Myndin er tekin í umræddri fjöru. Horft er til suðurs á Kársnes.
Tuttugu og fimm ár eru liðin frá því að fyrsti gámakrani Eimskipafélagsins í Sundahöfn, var vígður við hátíðlega athöfn. Kraninn var reistur sumarið 1984 og var ákveðið að hann skyldi hljóta nafnið „Jakinn“. Með nafninu var verið að heiðra Guðmund J. Guðmundsson, fyrrum formann Dagsbrúnar, sem áratugum saman hafði verið í forystu fyrir reykvíska hafnarverkamenn og hafði hlotið viðurnefnið „Jaki“, sennilega vegna þess að millinafn hans var ávallt stytt með bókstafnum J eingöngu. Í frétt Morgunblaðsins um nafngiftina sagði meðal annars árið 1984: “Hlýtur það að teljast réttnefni því að með krananum er hægt að lyfta 32,5 tonnum í hverri færslu. Reiknað er með að full afkastageta verði 20-30 gámar á klukkustund”. Jakinn er 53 metra hár, vegur 450 tonn og hefur lyft tæplega einni og hálfri milljón gáma á þessum árum, eða sem nemur tæplega fimm gámum á hvern núlifandi Íslending. Með tilkomu hans tók gámavæðing íslenskra skipaflutninga mikið stökk.
Þó að 25 ár séu ekki langur tími er það þó langur tími í þróun hafnarkrana. Rafstýring „Jakans“ byggist á Ward-Leonard DC (rakstraums) stýringum. Afl hans er 0,5MW. Í dag eru hafnarkranar tölvustýrðir með PLC stýrieiningum og hraðabreytum. Ekki þykir óeðlilegt að þeir geti lyft rúmlega 100 tonnum og afl þeirra getur farið upp í 3MW.
Upptakan sem hér er að finna var gerð í gámi inni í vélahúsi „Jakans“. Þar er allur stýribúnaður hans sem byggist á mörgum spólurofum og stórum DC-rofum (rakstraumsrofum). Hljóðdæmið lýsir ágætlega ótal rofasmellum sem fylgja því að færa einn gám frá vagni yfir í skip og aftur í land. Tekið var upp í 44.1 kHz/16 bit með Rode NT2A hljóðnemum. Ljósmyndin var tekin við þetta tækifæri.